Thursday, November 25, 2004

Þú veist hvernig þetta er

Ég fór og sá leikritið sem stúdentaleikhúsið er að setja upp. Ég vissi ekki neitt um þetta verk og var því við öllu búin. Þegar við vorum rétt ókomin sáum við Forseta vor í bíl sínum að keyra um þarna úti á Granda. Okkur fannst þetta nú í meira lagi undarlegt, hvað gæti forsetinn verið að gera með bílstjóra og öllum græjum þarna úti á Granda síðla á sunnudagskvöldi. Viti menn, var hann ekki á leiðinni á sýninguna með okkur. Þetta er standandi sýning, við stóðum öll í miðjum salnum og svo gerist leikritið í kringum okkur. Það var alveg ótrúlega skemmtilegt að standa þarna eins og álfur við hliðina á forsetanum sem var einsamall þetta kvöldið, hver veit hvar Dorrit var. Ég var með tvo útlendinga með mér og þeim fannst meiriháttar að sjá forsetann standa mitt á milli okkar allra án lífvarðar og alles og svo var bara múnað á hann ( partur af sýningunni).
Sýningin sjálf var svo frábær, í fyrsta lagi skrifa krakkarnir textann sjálf og var hann í heild alveg frábær þó að sumir kaflar hafi kannski verið í langdregnari kantinum. Þetta var samfélagsrýni af bestu gerð, og stiklað á mörgum þeim málefnum sem mér hafa allavegana runnið til rifja og við íslenska þjóðin gagnrýnd fyrir þennan hugsunarhátt "svona er þetta bara" eða nb. Þú veist hvernig þetta er! Leikararnir voru allir afbragðsfínir og ég skellihló oft á köflum. Efniviðurinn höfðaði algjörlega til mín og þegar þau fóru að fjalla um fjölmiðlafrumvarpið, laumaðist ég til að kíkja á Óla og það brá nú fyrir smá glotti hjá honum.
Eini gallinn var, að þó að það væri skemmtileg tilbreyting að standa upp á annan endann, þá var maður orðinn ansi þreyttur í bakinu undir lokin og því farin að bíða eftir því að leikritið kláraðist svo að maður gæti einfaldlega sest, ekki út af því að skemmtunin væri ekki næg.

En sumsé, það eru einungis örfáar sýningar eftir og ég mæli með því að allir reyni að fara!

Comments: Post a Comment

<< Home

Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?