Thursday, June 30, 2005

Miss Fitness

Líður eins og ég sé ótrúlega fitt því tvo morgna höfum við vaknað klukkan 7 og meikað það út í Laugar til að svitna þar á brettunum. Ef ég reyni þó að vera raunsæ veit ég að ég á langt í land með Miss Fitness en það er þó gott og gilt markmið! Setti mér þó eitt raunhæfara markmið sem ég geri ráð fyrir að ná...hlakka bara til þess.

Annars eru Laugar frábær stöð. Sturtuaðstaðan er snilld, og tækin eru öll ný og frábær. Svo getur maður fengið sér skyrboost eftir æfinguna sem er ótrúlega gott!

Fyndið hvað það að fara bara einu sinni í ræktina lyftir einhvernveginn í manni skapinu, nógu mikið til að maður nenni á fætur klukkan 7. Fínt samt á sumrin því það er bjart og ekki skítkalt!

Monday, June 27, 2005

Testosterónið!

Já, um helgina fékk ég að finna fyrir þessu karlhormóni sem ég hef lengi vel farið varhluta af enda Arnar alinn upp af einstæðri móður og því ekki verið mikið um það í honum og karlkynsvinir mínir hafa flestir verið samkynhneigðir og því "lacking" í þeim efnum.

Var í bústað þar sem karlmenn voru í fleirtölu. Þetta byrjaði rólega með miklu ropi og allir hlógu eins og vitleysingar. Svo byrjaði prumpið sem þótti alveg jafn fyndið.* Svo tóku við spilin en þá kom slíkur keppnisandi yfir mannskapinn að allt ætlaði að verða vitlaust. Drykkjuleikur var eitt af spilunum en þá flugu gjarnan orð eins og " oh þú tekur svo mikla kellingasopa " sem breyttist svo í " sjáðu hvað X tekur stóra sopa " . Svo var farið í annað spil en þá var mikið kvartað yfir því hvað fólk var lengi að hugsa sig um sem þótti ekki karlmannlegt. Allir voru ásakðir um svindl. Á meðan þessu öllu stóð var haldið áfram að prumpa og ropa og hlegið að því alveg hægri vinstri. Farið var í borðtennis þar sem ófögur orð hljómuðu um salinn og spilaður billjard á barnaborði en það þótti ekki fyndið því keppnisandinn réð ríkjum. Ferðinni var svo slúttað með því að fara í sjómann. Sigurvegari hverrar keppni keppti þá við næsta mann þar til allir höfðu fengið að njóta sín og sýna karlmennskuna.


Alla helgina beið ég eftir því að þeir myndu vippa út tippunum á sér til að mæla það hver ætti stærsta tippið. Það var þó ekki gert en spurning hvort af því verði þá um næstu helgi þegar að sami hópur fer í Árnes!


Helgin var samt frábær. Hópurinn skemmtilegur og mikið hlegið enda vitleysan í algjöru hámarki. Við spiluðum nokkrum sinnum spil sem heitir Citadell og ætlum við Arnar að fjárfesta í því enda hið besta spil. Ég uppgötvaði líka að ég er frekar góð í Póker, en efast um að ég leggi það fyrir mig enda ekki manneskja í að leggja neitt annað undir en eldspýtur!

* Þess ber að geta að ég hló alveg jafn mikið af prumpi og ropi því þökk sé föður mínum sem aldrei hefur tapað þeim húmor hef ég einnig haldið fast í minn. Það hjálpar auðvitað að eiga tvo bræður, en sá eldri hættir aldrei að prumpa framan í annaðhvort mig eða lilla bró, jafnvel þó hann sé kominn á fertugsaldurinn og eigi einn erfingja.

Thursday, June 23, 2005

Kiskis

Já, þrátt fyrir það hvað Arnar er frábær og yndislegur fylgir honum einn galli og það er þetta blessaða kattaofnæmi. Ég á svo erfitt með mig og oft veldur það honum óþægindum eins og núna þegar ég er búin að klappa Randakis alveg heilan helling og öll út í hárum. Ég bara get ekki hamið mig. Ég má ekki sjá kött, sama hvar í heiminum ég er stödd án þess að finna mig knúna til að klappa honum. Við í fjölskyldunni köllum þetta "kattagenið" en við erum öll með það og það kemur frá afa sem átti Heródes sem borðaði gjarnan með honum uppá borði, maður gat séð þá tvo borða af einum disk soðna ýsu. Notalegt hugsa ég, aðrir hugsa ef til vill "oj bara".

Gleymi því aldrei þegar Valdimar litli bróðir fæddist og í ljós kom að hann var með kattaofnæmi og mér var sagt að ég þyrfti að gefa frá mér annan köttinn minn og láta svæfa hinn. Ég held að ég hafi sagt upphátt það sem ég hugsaði sem var " Er ekki hægt að svæfa frekar Valdimar" Já...svona var þetta bara! Óttist eigi, ég er ekki að fara að láta svæfa Arnar...allavegana ekki ennþá.

En mér til huggunar og það sem ég held í er að í the US of A eru þeir búnir að einrækta kettlinga sem valda ekki ofnæmi. Það vantar í þá eitthvað sem er í öðrum köttum. Þeir munu koma á almennan markað innan skamms og munu þá kosta 100 þús krónur stykkið. Ég stefni á að næla mér í þannig kött, flytja hann inn og eiga hann alltaf. Jú það er kannski dýrt en sumir stunda golf, aðrir eiga hesta og enn aðrir eru tölvuáhugamenn og allt kostar þetta pening. Mitt áhugamál eru kettir!

En annars bendi ég á myndir á síðu Gallíu frá París, efst í horninu hægra megin. Þar getið þið séð myndirnar frá okkur Arnari.

Og demain er það bara Úlfljótsvatn. Frekar slöpp veðurspá fyrir helgina en við erum í bústað þannig að það ætti að sleppa.

Monday, June 20, 2005

Hróaskelda í sjónmáli

Trúi þessu ekki. Er í vinnunni. Svaraði í símann, talaði við konu hjá Húsavíkurbæ þegar að farsíminn minn hringir. Rétt missi af honum. Fletti upp númerinu hálfri mínútu seinna og sé að þetta var hlustendasími Rásar 2 í símanum. Kemur í ljós að ef ég hefði svarað í símann hefði ég unnið ferð á Hróaskeldu. Í staðinn fékk einhver að austan miðana mína.

Ég er brjáluð.

Saturday, June 18, 2005

Gleðilegan þjóðhátíðardag

Átti yndislegan dag í gær!

Hitti mína yndislegu vinkonu Herborgu með stjúpdótturina og manninn á Vegamótum í gær. Þrátt fyrir stutt stopp var gaman að eyða tíma með þeim öllum saman, fá tækifæri til að mæla manninn aðeins út og svona. Veðrið var dásamlegt og algjör pottur þarna hjá Vegamótum.

Fór svo í brúðkaup í Fríkirkjunni sem lét mig endurskoða kirkjuval mitt ef ég myndi gifta mig. Presturinn var frábær. Hann var afslappaður, með húmor, hann klappaði og söng og sagði hluti sem skiptu máli. Athöfnin var síður en svo fullkomin sem setti frábæran afslappaðan kæruleysislegan blæ á þetta allt saman sem lifði í gegnum kvöldið og varð þess valdandi að fólk skemmti sér vel og var ekkert yfirborðskennt eins og verður gjarnan í athöfnum og veislum. Reiknaði brúðgumann heldur betur rangt út og hann hélt áfram að koma mér á óvart í gegnum kvöldið sem var alveg æðislegt. Elska það þegar fólk kemur mér á óvart. Veislan var hress, góður matur og garðpartý í frábæru veðri. Labbaði svo heim með ástinni minni í miðnætursólinni sem var toppurinn yfir iið á þessum góða degi. Sofnaði svo bara sátt og sæl með mitt þannig að ég vaknaði í dag aftur í sólskinsskapi.

Æjá, hvað maður er glaður og kátur í góðu veðri. Rúlluðum í Ikea og eyddum alltof miklum peningum en vonandi í góða hluti, það kemur í ljós. Svefnherbergið mun taka breytingum á komandi dögum, stefni á að létta þetta mikið til og gera voðalega kósý og þægilegt atmó þarna inni. Þið sjáið afraksturinn vonandi fljótlega!

Svo bara krossar maður fingur og vonar að veðrið haldi áfram að vera svona alyndislegt því næstu tvær helgar verða teknar úti á landi.

Í kvöld verður farið á Batman, sjá hvernig hann tekur sig út.

Og Tom Cruise aftur trúlofaður....uss uss.


Og enn eitt: Heyrði eitt sem mér fannst ágætt í brúðkaupinu. Gagnrýni á brúðkaup Loga og Svanhildar. Að þegar að menn skilja eftir sig sviðna jörð úr fyrra sambandi og draga á eftir sér barnaskara í gegnum allt húllumhæið sé ekki alveg við hæfi að vera að glenna þetta svona framan í fólk að maður sé ástfanginn aftur. Ef maður sé það þá eigi maður bara að gifta sig í kyrrþey af virðingu við fólkið sem maður skildi eftir með sárt ennið! Maður hvað ég er sammála þessu!

Wednesday, June 15, 2005

Mmm...kirsuber

Bónus auglýsti kirstuber í dag og mín alveg æst brunaði í hádeginu og keypti ber. Vildi ekki kaupa of mikið ef þau skildu vera vond en nagaði mig í handarbökin eftir það þegar að ég bragðaði þau. Kirsuber eru eiginlega uppáhalds ávöxturinn minn ef maður má segja það um ber, já og melónur líka. Nema hvað...sneri aftur í Bónus eftir vinnu og ætlaði mér að fjárfesta í gommu af berjum en þá var ekki eitt stakt ber eftir í allri búðinni. Þannig að ég er frekar svekkt og vona bara að þeir endurtaki leikinn.

Í gær tók ég svo við Gallíu og stefni á heimsyfirráð með henni. Við ræddum mikið um það á föstudaginn að skrá okkur í kauphöllina og kaupa svo hús á 100% lánum og svona. Hvað ætli sé gert ef svona apparat fari á hausinn? Þetta var ein af mörgum pælingum sem kviknuðu hérna á föstudaginn í Parísarpartýinu. Þar kom líka í ljós að sennilega hefur eitt par orðið til í París en við bíðum samt spennt og sjáum til hver framvindan verður í þeim efnum.

Mmmm...ég fór og náði í Takeaway hjá Vegamótum sem er algjör snilld. Þeir eru með allan matseðilinn sinn í takeaway þannig að ég náði í tvö Ceasar salöt og fór með niður í vinnu til Arnars....mér finnst þetta frábært framtak...hver veit nema að maður nái sér í Brönch einhvern daginn í þynkunni?

Annars eru bara almennar lífsgleðipælingar í gangi...hvar í France maður á að vera í Erasmus, hvernig maður geti borgað niður allar skuldirnar sínar og lært að fara með pening og svona. Ég nefninlega fékk engin peningagen frá foreldrum mínum. Bræður mínir eru hinsvegar ótrúlega séðir með peninga enda kalla ég þá gjarnan nirfla en dáist svo að þeim í laumi. Ég hinsvegar get ekki átt pening, hef aldrei getað safnað pening eða lagt til hliðar né nokkuð. Eru til nálastungur eða dáleiðslur gegn þessu?

Monday, June 13, 2005

Ökuníðingar.is

Veit ekki hvað gerist á sunnudögum en það er eins og margir gleymi ökukennslu sem þeir hlutu fyrir mismunandi löngum tíma. Við vorum aðeins að þvælast í bílnum í gær og það var alltaf verið að svína á okkur. Svo fórum við í bíó og þegar við vorum að fara af bílastæðinu í Smáralind reyndi einhver naggur á svörtum sportbíl að troða sér fyrir framan okkur og Arnar hleypti honum ekki. Gaurinn sendi okkur fokkmerki og tróð sér svo þannig að við fórum næstum því á hann fyrir framan okkur. Úff hvað ég var reið.

Myndin sem við sáum var hinsvegar fín. Fórum á Mr and Mrs Smith og þau voru bara alveg ágæt greyin. Mr fangaði auga mitt þó meira og ég á erfitt með að átta mig á því hvað fólk sér við Mrs því hún er með svo stóran haus og það er allt ofvaxið í andlitinu á henni....hún minnir mig svolítið á svona lélega eftirhermu af Barbie dúkku. Það var alveg stappað í bíóinu en aldrei þessu vant svaraði enginn í símann í kringum mig þannig að við vorum bara ánægð með ferðina í heild sinni. Kíktum meira að segja fyrst á Pizza Hut og þar var bara þessi fína pizza sem kostaði þó heldur mikið fyrir minn smekk.


Veislugenið lét standa á sér um helgina í afmælisveislu hjá tengdó...ég er hryllileg í svona veislumálum. Á ofboðslega erfitt með að þola svona veislur þar sem margir sem þekkjast lítið mætast. Fyndið af því að mér finnst minna mál að fara í partý.

Parísarpartýið gerði stormandi lukku. Gerard og ég ræddum Túnismálin og ætlum að setjast almennilega yfir það í haust og byrja að safna og svoleiðis þá. Hann fékk rosalega flott myndaalbúm frá okkur og var alveg ótrúlega ánægður með það, klökknaði alveg greyið.

Sumsé, helgin fín og stutt vinnuvika framundan og geggjað veður úti!

Friday, June 10, 2005

Sumarið er tíminn

Jahá, sumarið er bara að verða þéttsetið hinum skemmtilegust atburðum og ferðum. Þessi helgi er helguð Parísarfarapartýi hjá mér og svo stórveislu hjá tengdó.
Næsta helgi er svo brúðkaup og gleði. Síðasta helgin í júní er bústaður á Úlfljótsvatni og fyrstu helgina í júlí er útilega í árnes. Í júlí er stefnan tekin eina helgi á Snæfellsnes í bústað þar, verslunarmannahelgin verður tekin á Akureyri í íbúð frá VR og svo er bústaður á Flúðum undir lok ágúst bókaður líka. Svo langar mig að kíkja í Skaftafell eina helgi og ekki væri verra að komast í heimsókn til hennar Sóleyjar minnar sem valdi sér þó stað ansi langt í burtu til að eyða sumrinu á. Henni er þó boðið að heimsækja á Akureyri um Versló ef það heillar.

Svo tókum við ákvörðun um að fara aftur til Parísar á þessu ári, í byrjun október og heimsækja hana Gaelle mína. Hún á íbúð við Montmartre og er tilbúin að leyfa okkur að gista og við fengum engan vegin nóg af París núna síðast. Svo verðum við bæði 25 ára á þessu ári og stefnum á að vera úti þegar ég verð 25! Jibbí jei. Þá ætla ég bókað að heimsækja Versali og fara svo á Picasso safnið.

Annars er lífið ljúft...hjólaði heim í gær og er með harðsperrur í óæðri endanum sem er alltaf hressandi. Þetta var hin besta líkamsrækt og hjólið mitt er frábært. Nóg af verkefnum í vinnunni sem eru öll frekar spennandi þannig að ég stefni bara á að taka sumarið með trompi og taka jafnvel svefnherbergið í gegn í sumar. Baðherbergið orðið svaka fínt og svefnherbergið er alltaf búið að pirra mig þannig að úr því verður bætt!

Segi annars bara góða helgi! Best að fara aftur að vinna.

Og já, Silvía Nótt vinkona mín er algjör snilli, mæli með henni á S1 í sumar.

Tuesday, June 07, 2005

Ekki slæmt

DHsusan
Congratulations! You are Susan Mayer, the divorcee
and single mom who will go to extraordinary
lengths for love.


Which Desperate Housewife are you?
brought to you by Quizilla

Monday, June 06, 2005

Óbærilegur fáránleiki Flugleiða

Þetta hafði Norðamður um Flugleiði að segja:

Airlines have personalities. Singapore and Thai are delightful. Virgin Atlantic is genuinely hip. Lufthansa is desperately dull and tasteless. Air France can't speak English or keep time, but serve delicious lunches. SAS is mercilessly Scandinavian (don't for a second try to do anything out of the ordinary - and don't expect a joke unless the flight attendant is Danish).

Icelandair, where I am sitting right now, is unapologetically provincial, and a throwback to an earlier time of flying. Not only do they fly old SAS planes with blue seat-covers and have stewardesses in blue uniforms with little pillbox hats. They also serve "Egils sodavatn" and a chocolate called Prince Holo, and the inflight music is relentlessly optimistic (boy, is it fun and vaguely stylish to fly) in a way I haven't seen outside a Dan Ackroyd parody commercial.

They used to have the smallest business lounge I have ever seen, where you got to know your fellow travellers surprisingly well in the five minutes you got at Keflavik between plane changes, but that has changed - it is now elegant in polished granite and dark wood, and, at least on January 1st, largely empty. Still, it remains fun to see cheesy Christmas decorations in the plane and vaguely threatening signs in Viking language ("Sitjid med sætisólar spenntar"). Now, I hope they have some interesting volcano show going as we pass Iceland.....



Þetta hef ég um Flugleiði að segja:

Finnst engum fáránlegt að verðmunur á milli netverðs og þess sem þú bókar þjá þjónustufulltrúum gengur á tugum þúsunda króna? Ég flaug með Icelandair til Parísar um daginn. Við fengum verstu þjónustu sem ég hef nokkurn tímann fengið. Í fyrsta lagið bjóða þeir engan hópafslátt þó að 25 manns hafi verið að ferðast saman. Í öðru lagi hækkuðu þeir verðin á miðunum frá því að við bókuðum og þangað til að við áttum að vera búin að greiða. Í þriðja lagi létu þeir okkur öll síðan borga svokallað þjónustugjald ofan á miðaverðið sem var uppsprengt verð. Þannig að þegar að þú biður um þjónustu hjá viðskiptaaðila sem þú ert að eyða pening hjá, þá rukka þeir þig um 1250 krónur á miða fyrir það að þeir séu með þjónustu. Þetta er eins og ef ég færi í Hagkaup að kaupa í matinn, borgaði fyrir minn mat og plastpokana mína og væri svo rukkuð extra fyrir það að þeir leyfi mér að nota kerruna á meðan ég kaupi í matinn og að fá kassadömu til að leggja saman hvað ég skuldi þeim.....er þetta löglegt spyr ég bara?


Grrrr Þoli ekki þetta einokunarveldi sem Flugleiðir eru!

Friday, June 03, 2005

Gotta love it

Kæru ungu sjálfstæðismenn!


Um leið og ég endursendi gjöf ykkar, bið ég ykkur um að færa hana Davíð Oddssyni formanni Sjálfstæðisflokksins, sem í borgarstjóratíð sinni lét reisa stærsta og dýrasta veitingahús norðan Alpafjalla, nefnilega Perluna í Öskjuhlíð, sem er þungur baggi á rekstri Orkuveitu Reykjavíkur. Vandséð er hvers vegna sjálfstæðismenn létu orkufyrirtæki í eigu Reykvíkinga byggja þetta veitingahús.


Á hverju ári greiða Reykvíkingar síðan um 60 milljónir króna með rekstri Perlunnar og þegar stofnkostnaði er bætt við má segja, að þetta ævintýri sjálfstæðismanna hafi kostað borgarbúa um 4 milljarða króna.


Sem Stjórnarformaður Orkuveitunnar hef ég árangurslaust reynt að selja Perluna, en ekki fengið viðunandi tilboð, því miður.


Ég tel við hæfi, að ungir sjálfstæðismenn bjóði formanni sínum í Perluna einhvern góðan veðurdag og spili við hann Monopoly í hringekjunni í Öskjuhlíðinni.


Að lokum vil ég geta þess, að jörðin Úlfljótsvatn hefur engum arði skilað til þessa, en Orkuveitan hefur hins vegar haft kostnað af henni. Þetta er gömul arfleifð sjálfstæðismanna, sem verið er að bæta fyrir.


Virðingarfyllst,


Alfreð Þorsteinsson

Thursday, June 02, 2005

Kemur ekki á óvart!!!!





Your Inner European is French!









Smart and sophisticated.

You have the best of everything - at least, *you* think so.



Who's Your Inner European?

Í sólinni

Vá hvað veðrið er geggjað, þetta er algjör snilld. Vona að það haldist um helgina líka, ætla að fara í bústaðinn og hafa það notalegt, fara í göngutúr og kannski bíltúr um svæðið eða eitthvað sniðugt. Lesa kannski eina bók eða tvær. Sjáum til.

Og þá eru allir frakkarnir farnir...strax farin að sakna þeirra...það verður líka skrítið að tala ekki lengur frönsku á hverjum degi...vona að ég ryðgi ekki mikið yfir sumarið.


Vinnan er frábær, er komin með helling af spennandi verkefnum og sýnist ég bara vera á fullu í sumar. Ætla allavegana ekkert að slappa af. Stefni á að eyða ekki meiri tíma í bænum heldur en ég þarf, ætla bara að bruna út úr bænum eins oft og ég get. Nú þegar er skipulögð útilega 1. helgina í júlí, þá á að bruna í Árnes með Gallíu og öllum öðrum sem hafa áhuga. Svo er pantaður bústaður eina helgi í júlí á Snæfellsnesi en svo er spurning hvað annað muni gerast. Öll tilboð vel þegin ef þau fela í sér að fara út á land, sérstaklega ef fólk er með bústað.

Jæja vinna meira, bulla minna.


Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?