Sunday, February 27, 2005

Fusion

Átti frábæran föstudag. Byrjuðum í æðislegri vísindaferð í Prentsmiðjunni Odda. Gaman að sjá þessar prentvélar allar saman og sjá hvað það eru í raun mörg handtök í einni bók. Svo var farið í matsalinn þar sem boðið var upp á frábærar veitingar. Það var hvítt og rautt og bjór og svo snittur gerðar af ostahúsinu á Skólavörðustíg og þær voru geggjaðar. Svo var haldið hingað í Idol partý, drukkið og spjallað og það voru allir svo ánægðir með nýju myndirnar, nýja fyrirkomulagið í stofunni og auðvitað baðherbergið ;) Svo var haldið niður í bæ á tónleikana og þeir voru alveg frábærir. Það eina sem var að var að það var eins og hálfs tíma seinkun á byrjuninni á þeim en það var auðfyrirgefið þegar að þetta var byrjað.
Laugardagurinn var ekki síðri, rólegheit í þynnku, smá rúntur með klósett pappír hér og þar, heimsókn til ömmu og svo bauð mamma mér út að borða á La Primavera. Mmmm...ótrúlega góður matur þar, geitaostur í forrétt, steinbítur í aðalrétt og panna cotta með myntu í eftirrétt.....mmmm.
Nýjasta sjónvarpsserían er svo Gilmore Girls...finnst þær æði og er búin að liggja í því um helgina. En ætla að hafa það enn meira kósý núna því Arnar er að elda pizzu. Þið sem enn eruð að bíða eftir heimsókn með kaffi eða klósettpappír, örvæntið ekki, ég kem örugglega á morgun!

Friday, February 25, 2005

Á tánum aftur

Loksins er orðið hreint og fínt heima aftur....ég þarf ekki lengur að þramma um allt á skónum og get tekið upp aftur almenna kurteisissiði sem betur fer. Undanfarin vika hefur farið í miklar tiltektir en það er enn ýmislegt eftir. En myndirnar fínu er loks komnar á veggi og hvet ég alla til að koma í heimsókn og sjá hvað það er orðið fínt hjá mér!

Svo er ég bara á fullu að keyra út skeini, kaffi og plastblöndu, um helgina verður stoppað í flestum bæjarhlutum Reykjavíkur og losað úr ofurhlaðinni corollu sem er til sölu, gott skottpláss fyrir þá sem hafa áhuga.

Ég er ekki búin að opna námsbók alla þessa verkefnaviku, ætti að skammast mín fyrir kæruleysið.

Góða helgi!

Wednesday, February 23, 2005

NOJAZZ

mmm....ég er hrein og fín enda fór ég í tvær sturtur í gær, lífið er snilld!

Annars er frábært band að spila um helgina á Naza...bæði kvöldin og byrjar klukkan 11. Þetta er elektrónískt jazz band og er geggjað. Mæli með því að þið kíkið á þetta. Bandið heitir Nojazz og kemur frá Frakklandi. Alliance Francaise er að flytja þetta inn og það er hægt að kaupa miða í forsölu hjá þeim eða hjá Nasa og kostar þá 700 kall, annars kostar 1000 kall.

Ég er að fara í vísindaferð á föstudaginn, svo ætluð við í Idolpartý og svo ætlum við á tónleikana þannig að þetta verður mjög skemmtilegt kvöld :)

Og svo er búið að bóka ferðina okkar til Parísar, verðum eina viku en ég og Arnar erum reyndar að hugsa um að bæta við nokkrum auka dögum. Veit ekki alveg hvað við gerum við þá, hvort Philippe komi uppeftir að hitta okkur eða hvort við leggjumst í eitthvað smá flakk. Aldrei að vita hvað maður gerir!

Kransæðastíflur og kennitölur

Já, pípurnar mínar inni á baði eru víst með kransæðastíflu! Það sagði píparinn minn allavegana og hringdi í stíflulosunarkall sem ætlar að koma á eftir og reyna að leysa málið.
En á jákvæðu nótunum, Fisher er kominn með kennitölu!

Tuesday, February 22, 2005

Eyrún afmælisgrís:

Möguleg störf fyrir þig eru: bankastarfsmaður, rithöfundur og blaðamaður! Þú ert snillingur í að vera á undan þinni samtíð. Varðandi persónuleika þinn þá má segja að þú sért í góðum tengslum við sjálfa þig og hlustar á þína innri rödd. Með lífsbrautina hef ég þetta að segja: þú hefur lágan leiðindaþröskul og verður óróleg ef ekki er nóg að gerast en það er alltaf nóg um að vera hjá þér þannig að þú finnur lítið fyrir þessu. Ástin: Stóra ástin kemur inní líf þitt á 29. aldursári og það er bogamaður!!! Óskagjöfin er svo ferð á framandi slóðir og segið svo að afmælisdagabókin hafi ekki alltaf rétt fyrir sér!!!!

STURTA!!!!

Í þessum töluðu orðum er Arnar að vígja sturtuna og ég er næst í röðinni...get ekki beðið. Þvílíkur munaður að geta sturtað sig heima hjá sér. Svo skemmir ekki fyrir að það er að koma þessi líka fína mynd á þetta....mmm sturta.....gotta love it!

Monday, February 21, 2005

Af gleraugum, helginni og fleiru

Nú er bara orðið nokkuð langt síðan ég hef skrifað eitthvað hérna.

Ég þarf að fá gleraugu. Fór til augnlæknis á föstudaginn og það varð niðurstaðan. Þetta eru hvíldar og lestrargleraugu og ættu að lækna öll mín vandamál. Ég hef nefninlega verið með hausverk og einhver leiðindi undanfarið. Ég fékk lánaðar fimm umgjörðir með mér heim um helgina og ég held að fyrir valinu hafi orðið Gucci umgjörð sem er rauð og alveg rosalega flott :) Hlakka mikið til.

Svo tókum við okkur til og endurskipulögðum alla stofuna heima sem er stórglæsileg núna þó að ég segi sjálf frá. Sturta kemst vonandi upp í kvöld og sennilega getum við sturtað okkur heima í fyrramálið. Nú vantar mig bara innréttingu og smið sem passar við hana :) Jei!!!

Sáuð þið bróður hans Arnars í Regnhlífar í New York? Já, hann var þessi krúttlegi að tala um herramennina. Brotið hét Einar og Herramennirnir og hann var æðislegur! Honum var einmitt óskað til hamingju með afmælið af Þorsteini Joð sem honum þótti mikill heiður! Í barnaafmælinu í gær hitti ég eina frænku hans Arnars sem er mjög hress. Hún hafði verið á tjúttinu kvöldið áður. Hitti þar fyrir mann og þau voru að spjalla. Hann sagði henni að hann væri 100 % öryrkji en hann væri að vinna samt. Hún segir glettilega "góði besti, viltu ekki bara skella staurfótinum uppá borð?" Hann gerir sér lítið fyrir, kippir upp skálminni, losar gervifótinn og slengir honum upp á borð! Bahahahahah. Ótrúlega fyndið. Greyið hún.

Monday, February 14, 2005

Gleðilegan Valentínusardag

Ég er í klemmu, get ekki ákveðið mig hvort ég vilji halda uppá Valentínusardaginn eða ekki. Þetta er auðvitað ekki íslensk hátíð. Við eigum konudag og bóndadag. Blómaframleiðendur hafa hinsvegar þröngvað þessum degi inn á okkur og nú er ég ekki viss. Fullkomin afsökun fyrir mig og Arnar að gera eitthvað rómantískt saman sem við gerum alls ekki oft en um leið er ég ekki viss um að ég vilji stuðla að þessari USAvæðingu sem á sér stað á Íslandi.
Hvað með ykkur? Hvað ætlið þið að gera? Ef þið væruð á föstu, mynduð þið þá halda upp á þennan dag?

Sunday, February 13, 2005

Helgin

Idol var bara fínn í þetta skiptið, réðu bara ágætlega við kvikmyndatónlistina og enn og aftur brilleraði Hildur Vala...held barasta að hún eigi eftir að vinna þetta. Mér finnst hinsvegar vanta einhvern neista hjá Heiðu...hún syngur ágætlega en það er ekkert meira í henni!

Og hvað var Helgi að spá...svona í alvörunni samt? Tekur maður lag með Coyote Ugly? Held að hann hljóti að hafa viljað syngja sig beint út úr þessari keppni.

Í gær horfðum við á Anchor man sem er alveg ótrúlega fyndin. Mæli eindregið með henni fyrir fólk sem fílar súran húmor. Við allavegana hlógum og hlógum.


Heyrðu, svo fékk ég mér SIMS2 í gær til að spila í nýju töllunni en hann er alveg sjúklega hægur í henni, sennilega út af lélegu skjákorti. Ótrúlega flott grafík í þessum leik og held að þetta væri alveg brill ef hann væri ekki svona hægur. Mæli allavegana með honum.

Annars er ég búin að vera alveg hræðilega löt , eiginlega ekkert lært alla helgina. Uss uss, sem betur fer enginn tími á morgun þannig að ég get þá lært helling þá, ætli ég setjist ekki bara út í hlöðu og læri þar svo að iðnaðarmennirnir geti verið í friði hérna.

Friday, February 11, 2005

Ný tölla

Ójá, hin tölvan sem er algjör forngripur, ferðatölva sem pabbi fékk í USA á sínum tíma hefur endað sína lífstíð hér á borðinu mínu. Í gagnið er komin önnur ferðatölva, líka niðurgangur* frá föður mínum. Er að skima eftir því hvað gripurinn heiti, hún er silfurlituð, hraðvirkari og í alla staði glæsilegri en sú gamla þó að hún sé nú ekki ný. Hmm... það stendur XBOOK framan á henni. Ætlaði nefninlega að kaupa mér nýja fartölvu en fjárhagurinn leyfði það ekki svo í staðinn var keyptur nýr harður diskur og nýtt minni í þessa og vonandi dugar hún mér þangað til fjármálin glæðast!

Annars er ég að þvo þvott. Í dag fór ég út í rifnum taibuxum. Rifnar í klofinu sem hefði getað orðið vandræðalegt því gatið stækkaði eftir því sem leið á daginn. Sem betur fer var ég í síðum kjól yfir sem veitti skjól! Þetta voru taibuxur nr 2 sem fóru á þessa leið, hafa víst sinnt sínu, enda átt þær í þrjú ár og notað mjög mikið. Kominn tími á endurnýjun...verst hvað þær eru dýrar hér á Íslandi. En sumsé, er að þvo þvott svo að ég komist út úr húsi á morgun...það stefndi í mikil vandræði!

Og ójá, gleymdi að minnast á það að það var verið að "flota" baðherbergisgólfið hjá mér...held að það þýði að hann hafi verið að steypa það til að jafna gólfið út og ég má ekki stíga inná það næstu þrjá tíma. Sem væri allt í lagi ef mér væri ekki mál að gera nr 2 ( og já, hvern hefði grunað, stelpur gera það stundum líka ). Þannig að nú verður sko reynt á það að halda í sér! Var ég búin að segja ykkur hvað ég hata framkvæmdir...smiðurinn okkar er farinn til útlanda...veit ekkert hvað lengi, hann lét vita í gær seint en fór út í dag og sagðist þess vegna ekki getað klárað verkið JIBBÝ!!! Ef þú ert að lesa þetta og ert smiður þá máttu hafa samband því mig vantar smið!

Svo er bara IDOL í kvöld. Hlakka mikið til því þau ætla að taka bíómyndatónlist!


*Niðurgangur: Hlutur sem gengur manna á milli, frá einu aldursbili og niður á lægra aldursbil

Fyrir Víraða álfinn

14.nóvemeber:

Snillingur í að grafast fyrir um sannleikann! Ættir að starfa sem blaðamaður, leynilögregla eða lögmaður. Óskagjöfin er stækkunargler og flugdreki. Þegar þú vilt fá upplýsingar ertu eins og hundur með bein. Sannleikurinn er mjög svarthvítur í þínum augum...Þú átt þér bara leyndarmál svo að þú særir ekki aðra....tekur líf þitt og vinnu mjög alvarlega...haldin ákafri verndunartilfinningu gagnvart þeim sem þú elskar....Í tvíburanum finnurðu pottþétt prins þinn eða gyðju!!! Og þennan dag árið 1963 varð Surtsey til!

Þetta var fræðsla í boði Nýju afmælisdagabókinni, nauðsynleg á hvert heimili.

Árni Meyja

Já, í afmælisdagabókinni stendur um Árna að hann sé "snillingur í að halda uppi aga" og að sérkenni hans séu stjórnsemi, agi og kraftur. Hann ætti helst að verða bankastjóri eða bókhaldari. Árni á að velja sér steingeit sem lífstíðarmaka en hann þarf nauðsynlega að átta sig á því að hann hefur ekki alltaf rétt fyrir sér og að sveigjanleiki sé nauðsynlegur til að auðvelda manni lífið! Og að við eigum að gefa honum seðlaveski eða hillusamstæðu í afmælisgjöf!

Bwahahaha....er ekki frá því að það leynist lítil sannleikskorn þarna!!!

Alltof mikill snjór, ekkert sveitasetur um helgina og baðherbergið verður sennilega ekki tilbúið fyrir næstu helgi heldur. Er komin í algjöra uppgjöf!

Búin að vera hræðilega löt í vikunni og helgin verður nýtt til að bæta fyrir það! Þarf að læra svo mikið að það er ekki venjulegt! Þarf að lesa tvær og hálfa bók og taka mig á í sögunni þar sem ég man engin ártöl eða neitt!

Góða helgi.

Thursday, February 10, 2005

Sölumál

Ég á svo góða að...allir bregðast rosalega vel við að fá símtöl frá mér og ég held að það hafi bara allir viljað styrkja mig sem ég hef talað við. Ánægð með þetta. Svo er ég reyndar að kaupa af sjálfri mér í gríð og erg ;)

Annars er mér bara boðið um allar tryssur um helgina. Ingi er búinn að bjóða mér að koma í mat, drekka moscato og horfa á Ab Fab sem verður án efa mikil nostalgia í horfna tíma þegar við vorum í gríð og erg að skipuleggja yfirtöku okkar á heiminum. Svo vill Gaelle vera með Soirée crepes heima hjá Denoui sem var að flytja til Íslands og er alveg kostulegur franskur drengur, samkynhneigður í oddmjóum krókódílaskinnsstígvélum. Svo vilja vinkonurnar líka hittast sem reyndar er orðið löngu tímabært. Ætli ég verði bara ekki í bænum þrátt fyrir sturtuleysið og reyni þá bara að vera lítið heima...sýnist það vera auðleyst!

Hvað segja stjörnurnar...

Víraði álfurinn hefur uppgötvað að heiminum er illa við Sporðdreka. Það þykir mér leitt því að Arnar er nefninlega sporðdreki en svona er þetta bara.

Hinsvegar á ég snilldar bók sem heitir Nýja afmælisdagabókin og eftirfarandi er sagt um mig þar:

Persónuleiki: Þú getur setið og starað út í loftið dagana langa og spunnið upp heilu kvikmyndahandritin í huganum. Það er gott og hollt að láta sig dreyma en lífið snýst um að lifa því. Ef þú nærð að virkja sköpunarkraftinn á hagnýtan hátt er fullvíst að þú gerir bæði sjálfum þér og heiminum gott .....Þú kannt að hafa legið í bókum um andleg málefni og hugsanlega fundið þinn stað í veröldinni...ef svo er myndi það ekki skaða þig að vera svolítið yfirborðskenndur stundum til að vinna gegn draumlyndinu!!! Hehehehe Hugsanleg störf fyrir mig eru kafari, listamaður og textahöfundur og sérkenni mín eru innsæi, órar og draumlyndi! Og það sem þið eigið að gefa mér í afmælisgjöf er Tarotspil og Bonsai tré!!!! Minni á að það er stórafmæli á þessu ári þannig að hafa þetta í huga ;)

Arnar ætti samkvæmt þessu að vera einkaþjálfari, lögreglumaður eða félagsráðgjaf og við eigum að gefa honum boxhanska í gjöf!!

Komið með afmælisdaginn og ég skal sko segja ykkur allt um ykkur!

Wednesday, February 09, 2005

Amazing Race

Úff, var að horfa á lokaþáttinn í Amazing Race sem var ótrúlega spennandi. Mitt lið vann samt ekki, ætla ekkert að segja neitt meira þar sem það á eftir að sýna eiginlega alla seríuna hérna. Þetta var góð sería og liðið sem tók þátt í þessu sbr John og Victoriu og Adam og Rebeccu...algjör steypa!

Það sem mér fannst hinsvegar mun merkilegra er að þegar að næsta sería var kynnt sem byrjar í USA í byrjun mars, þá kemur í ljós að Allstar parið Rob og Amber úr Survivor munu keppa um milljónina í Amazing Race...skemmtilegt nokk að fyrir hafa þau unnið millu í Survivor. Amber vann hana en Rob bað hana um að giftast sér í þættinum áður en það var tilkynnt hver ynni milljónina til að vera öruggur á henni. Gott hjá honum. Verður gaman að sjá þau í þessu, hvernig þeim gengur með þetta!

Idol

Sáuð þið Idol á föstudaginn? Ég gerði það ekki og horfði á endursýningu í dag. Rúnar Júl er ótrúlega skrítinn, hann er með einhvern sér "keflvískann" orðaforða sem ég átti oft bágt með að skilja! En burtséð frá því fannst mér þessi þáttur mikil búbót eftir Sálar þáttinn þar sem keppendur klúðruðu þessu algjörlega. Greinilegt að auðveldara er að ná keflvíska tóninum! Ég held með Hildi Völu...hún er áberandi MH sæt finnst mér. Minni mig mikið á eina stelpu sem var með mér í MH. En hún syngur ótrúlega vel. Einhverjir sem þekktu hana úr MH hafa haft orð á því að hún væri svona og hinsegin en ég verð að segja að ég lít nú enn á þetta sem söngvakeppni þó að auðvitað sé þetta vinsældakeppni fyrir mörgum!

Er ég ein um að vera IDOL fan

Heyjá, gleymdi að segja ykkur stöðu mála í framkvæmdum...það hefur bara ekkert breyst...þeir eru eitthvað að vesenast hérna á daginn en ég sé litla sem enga breytingu, enn er bara ber steypa, og ekkert nema eitt ræfils klósett sem er ekki einu sinni fest þannig að það er örlítið valt! Ef það verður ekki of mikill snjór, þá ætlum við að skella okkur í sveitasetrið!


Júróvísíon

Finnst engum öðrum en mér það hallærislegt að senda sömu manneskjuna tvisvar sinnum í júró?
Íslendingum er augljóslega orðið kappsmál að vinna þessa keppni...þetta er náttúrulega algjör ósigur af okkar hálfu sem viljum alltaf vera best af öllum að hafa aldrei getað unnið þetta. Mikið svekkelsi! Selma er samt fín, segist ætla að vera með mikið show og ég legg eiginlega til að hún geri eins og Rúslana og fari í svona kynningarferðir víðsvegar um Evrópu til að sýna sig og sjá aðra.
Koma svo Ísland! Annars verð ég sennilega í París þegar að júróvísjón verður, ætli maður finni sér ekki einhvern svona bar og horfi á þetta þar?

Monday, February 07, 2005

Helgin

var ljúf á Sveitahóteli mömmu og pabba í Skorradalnum. Er svo gott að láta hugsa um sig stundum, elda ofan í sig og svo ekki sé talað um að kisinn minn var í Skorradalnum hjá þeim og að fá að eyða heilli helgi með honum er æði. Arnar greyið þurfti hins vegar að bryðja ofnæmistöflur í gríð og erg og fann ég mikið til með honum. Við horfðum á Cellular og mikið er ég ótrúlega ánægð með þá mynd. Hún er auðvitað amerísk og leikurinn var ekki uppá marga fiska en söguþráðurinn fannst mér helvíti skemmtilegur, minnti mig svolítið á Phonebooth. Það er svo sjaldan sem maður kemst í spennumynd sem heldur manni almennilega finnst mér. Svo þegar við komum heim í gær þá þrifum við aðeins hérna til málamynda, svo að þetta verði nú allavegana skítsæmilegt þó að framkvæmdirnar séu. Svo ætluðum við að horfa á Collateral en ég rotaðist líka svona skemmtilega í sófanum, hraut og allt samkvæmt því sem Arnar segir og vaknaði ekki fyrr en síminn hringdi einhverntímann um hálfellefu en þá var það góð vinkona sem ég spjallaði heillengi við! En helgin var fín, mjög ódýr og mjög kósý og þá er bara brjálæðið byrjað á ný. Sit hérna heima að reyna að vinna við undirspil bora og hamarshögga. Sjá til hvernig það gengur, svo er það bara ræktin!



Thursday, February 03, 2005

Framkvæmdir frá helvíti

Það er ekki lengur gaman að koma heim. Ég fyllst ekki af hlýju þegar ég labba inn um dyrnar heima heldur einskærum viðbjóði! Núna þegar við komum inn var drullusokkur á miðju eldhúsgólfi, baðinnrétting í ganginum og ryk, pabbi, drulla og annað skemmtilegt út um allt. Ég er svo vel upp alin að ég fæ alltaf ónotatilfinningu við að ganga í skóm innan heimilsveggjana og er því uppfull af samviskubiti öll kvöld er ég þramma hér um á skónum! Ullabjakk!

En af gleðilegri hlutum, ætlum að bruna upp í Skorradal á morgun og fara á Sveitahótel Mömmu og láta stjana við okkur aðeins. Þar er gott að vera :)

Annars las ég mjög skemmtilega grein áðan um Nouveau Roman. Finnst þetta áhugaverð pæling um að nafngreina ekki söguhetjuna og las þar einmitt um rosalega sniðugua tilraun sem Flaubert gerði held ég. Hann skrifaði bók þar sem tvær aðalsöguhetjurnar hétu sama nafni og því þurfti lesandinn alltaf að hafa sig allan við til að rugla þeim ekki saman. Þetta minnti mig á það að þegar við lesum, þá er búin til ákveðin mynd af persónu sem við tengjum alltaf við nafn og því finnst mér eins og við séum alltaf að horfa á sögupersónur utan frá í stað þess að horfa á þær innan frá. Svo um leið og nafnið er tekið af okkur, þá getum við farið að lifa okkur meira inn í persónuna því hún heitir ekki Jón eða Harpa. En núna ætla ég að fara að lesa Childhood.



Tuesday, February 01, 2005

Dagur 2 í framkvæmdum

Annar dagurinn hafinn og allt komið úr skorðum. Herra Pípari sem ætlaði í gærkvöldi að vera mættur hér eldsnemma ákvað í upphafi að fresta komi sinni til klukkan 13. Arnar var því mættur stundvíslega klukkan eitt til að hleypa honum inn. Kl 14 hafði enginn pípari sést en eitt stykki hringt og spurt klukkan hvað hefði verið talað um að hann mætti...þegar að honum var tjáð að hann ætti þegar að vera mættur var engin eftirsjá heldur tilkynnt að hann væri væntanlegur eftir um einn til einn og hálfan tíma. Tveimur tímum seinna höfðum við samband við hann en þá tjáði hann okkur það að hann myndi ekki mæta í dag. Jei!!! Hann segist ætla að mæta í fyrramálið kl 08.00. Læt ykkur vita hvernig það tekst til hjá honum!

Hvað er með þessa stétt í alvörunni samt? Afhverju virðist meirihluti iðnaðarmanna ekki bera virðingu fyrir fé og tíma annarra? Er þeim ekki annt um sig og sitt orðspor? Finnst þeim í alvörunni gaman að það tali allir illa um þá og fyrirlíti þá og hafi einungis samband því jú við neyðumst til þess? Hvernig myndi þeim líða ef þeir fengu þessa framkomu annarsstaðar frá í samfélaginu? Hvað ef að læknarnir myndu nú alltí einu taka upp á að koma svona fram? Yrðum við líka að líða þeim það?

Í ljósi pirrings ætla ég að nota tækifærið til að ausa úr skálum reiði minnar og minnast á breytingar á stundaskrám Hugvísindadeildar þessa önnina! Til stendur að samræma tímatöflur deilda Háskólans. Sem ég styð fullshugar, að hafa samstillt svo að nemendur geti flakkað milli deilda því ekki erum við öll í sömu deildum í námi. En að stilla okkur í þetta heimskulega 70 mínútna stundakerf er að gera mig brjálaða. Hafið þið prófað að sitja tvöfaldan 70 mínútna tíma á meðan þusað er yfir ykkur? Það er manni ekki bjóðandi en auk þess eru allar rannsóknir sammála um að athyglisgáfa okkar bíður max upp á í kringum 30 mínútur í athygli, eftir það slidar maður inn og út. Nú þegar þessar rannsóknir liggja fyrir er mér mikið í mun að vita afhverju það er verið að samræma eftir gamla félgasvísindadeildarkerfinu og setja okkur í þessa löngu tíma sem eru gerðir til að kvelja mann? Afhverju fóru aðrar deildir ekki að aðlaga sig að þessu fína kerfi okkar? GRRRRRRRRRR!!!! Í dag sat ég nemmligt í tímum í 3x 70 mínútna tímum, þó að það hafi verið smá pása á milli og ég er bara búin á því!

En já, það verður áfram pissað í myrkri og farið verður í bústað um helgina til að þurfa ekki að berast fyrir í þessari íbúðarskömm meðan þetta ófremdarástand ríkir!

Er þetta rétti tíminn til að taka það fram að já, þetta er þessi tími mánaðarins þar sem við dömurnar erum verr fyrir kallaðar en aðra daga og skapið á það til að hlaupa með okkur í gönur? Sumir orða þetta þannig að "Rósa frænka" sé í heimsókn en mér hefur alltaf fundið það svolítið eins og að segja buddan mín. Af einhverjum ástæðum man ég ekki hvað ég kallaði þennan neðri part minn þegar ég var lítil...en þið?

Pissað í myrkrinu

Engin einasta flís eftir í baðherberginu mínu, innréttingin sundurrifin og baðkarið ekkert nema hólfið eitt! Sem er allt hið besta mál. Verra mál er hinsvegar það að það var tekin dósin af slökkvaranum inni á baði og nú getum við ekki kveikt ljósin! Svo að nú er sumsé pissað í myrkrinu!

Ég er að fara til Parísar í vor, frönskudeildin ætlar að fara saman og ég ætla að taka minn heittelskaða með því án hans er París ekkert ;) . En í tilefni af því er söfnun hafin! Við erum að selja klósettpappír (48 rúllur, góður pappír sem fer vel með óæðri endann) og eldhúsrúllur (24 stk af úrvals pappír) á 2500 kall og svo kaffi, tveir pokar saman frá Te og Kaffi á 1000 krónur! Ég ætla að vera ótrúlega dugleg að safna svo ekki láta ykkur bregða þó að þið fáið símtal á næstu dögum!!! Kaupa kaupa kaupa!

En jæja...takka fyrir mig...góða nótt!


Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?