Monday, September 26, 2005

Klukk

Klukkunum rignir yfir bloggheima og því fór svo að ég var klukkuð. Fyrir þá sem það ekki vita þýðir það að ég eigi að skrifa hér 5 staðreyndir um sjálfa mig og get svo klukkað fimm manneskjur og svo koll af kolli. Nema hvað, hef verið klukkuð tvisvar, af Krunku og Árna og mun því tvöfalda staðreyndamagnið og læt í té 10 staðreyndir.

Hér koma því 10 staðreyndir um mig:

1. Ég er með komplexa yfir því að ég sé að verða 25 ára. Finnst eins og ég hafi ekki áorkað því sem ég ætlaði að vera búin að gera.

2. Þegar að ég var 7 ára varð ég ægilega skotin í bróður vinkonu minnar sem heitir Einar. Við lékum okkur saman í Barbie þar til ég varð orðin 13 ára, hann var Ken og ég Barbie og mér fannst það svaðalega rómantískt.

3. Þegar ég var lítil fór ég í heimsókn til Kaupmannahafnar með foreldrum mínum að heimsækja vinahjón þeirra. Ég var send að vekja manninn, sem er líka góðvinur minn, en í staðinn fyrir að vekja hann teiknaði ég allan vegginn hjá þeim meðan hann svaf líka svona vært. Þegar að hann vaknaði og ég var innt eftir þessu sagði ég að stóri bróðir minn hefði gert það. Ég heyri þessa sögu a.m.k. einu sinni í mánuði.

4. Ég lærði á píanó í 4 eða 5 ár. Fannst það hryllilega leiðinlegt, var með ömurlegan kennara og eini ljósi punkturinn á þessu öllu saman var að ég gat æft mig eldsnemma á morgnanna um helgar sem fór illa í bróður minn þá á unglingsaldri. Þverneitaði að æfa mig á öðrum tímum dags.

5. Ég þjónaði í kaþólskum messum í eitt ár. Tveir vankantar: Ekki kaþólsk og stelpa en báðir hlutir þykja tabú í kirkjunni. Föður mínum þótti mikið um og markið ekki sett lágt enda hefur hann gjarnan gert raunhæfar kröfur til mín í gegnum tíðina.* Markið var sett á að verða fyrsti kvenkyns páfinn. Hver veit pabbi minn, enn er séns!

6. Indjánanafnið mitt er Glys en Hinrik úthlutaði mér því forðum daga.

7. Ég var terroristinn í hverfinu mínu, krakkar sem þekkja mig frá þeim tíma minnast mín með ótta og gamlar konur þaðan hafa aldrei jafnað sig á vatnsblöðrunum sem skullu á þeim.

8. Börnin mín heita Gabríel Breki og Ríkharður Ljónshjarta. Þeir eru kallaðir Breki og Rikki. Breki er svarbröndóttur, lítill og nettur, óður veiðikisi og sérstakur á alla lund. Hann gengur líka undir nafninu endurskoðandinn en hefur þó verið rekinn vegna óstjórnlegs þvagláts upp um alla veggi á vinnustað sínum. Rikki er lítil ljóshærð veimiltíta. Ég hélt lengi vel að hann væri svakalega vitlaus en hann er bara einföld sál sem veit meir en hann vill vera láta. Hann hefur brennt á sér alla þófana á eldhúshellu og orðið fyrir bíl og gekk með plastkraga í nokkrar vikur eftir það. Hann hatar dýralækninn en elskar börn. Hann gekk líka undir nafninu Skúringarkonan en var einnig rekinn sökum ótímabærs þvagláts víðsvegar á vinnustaðnum. Ég á stjúpson sem heitir Randver. Hann er stjórnarformaður og hefur birst í mörgum blaðagreinum. Hann elskar melónu og bítur mann í tærnar þegar hann er svangur. Ég ræði við þessi börn mín af mikilli alvöru um hversdagslegt amstur og trúi þeim fyrir öllu því sem þið hin vitið ekki.

9. Uppáhaldsbókin mín enn þann dag í dag heitir Patrik og Rut. Ég hef sennilega lesið hana þúsund sinnum. Stundum var hún eina bókin sem tekin var með í ferðalög forðum daga og þá kláraði ég hana kannski í bílnum en fletti strax aftur á byrjunina og hóf lesturinn enn einu sinni. Patrik er rauðhærður píanósnillingur en skapbráður mjög og verður því af mörgum tækifærum í lífinu. Rut er æskuástin sem hann gerir ólétta og fjallar þessi saga um hrakfarir þeirra.

10. Uppáhaldsmaturinn minn er grjónavellingurinn hennar ömmu.

Og nú má ég klukka mína fimm. Þeir eru: Herborg, Sylvía, Pirringur, Lína og Sóley. Þekki varla 10 bloggara sem hafa ekki verið klukkaðir nú þegar þannig að fimm eru meira en nóg.

*Lesist með kaldhæðnislegum tón.

Wednesday, September 21, 2005

Þegar þú í draumum mínum birtist....


Einbeitingaskortur að hrjá mig þessa dagana. Er svo langt á undan mér að það er engu lagi líkt.

Ég er stödd einhversstaðar í París þessa dagana. Ekki vegna þess að ég er að fara þangað í stutt stopp innan skamms heldur meira vegna þess að ég ætla að búa þar vonandi í eitt ár sem Erasmus nemi og taka Hr. Sif með mér. Hefur hugsanlega eitthvað með það að gera að á mánudaginn fóru þangað þrjár fagrar meyjar sem eru með mér í frönskunni. Hugsa til þeirra með öfund því um þessar mundir eru þær fastar í fögru Frakklands pappíra flóði og búrocratiu sem hljómar svo rómantísk í mínum eyrum vegna þess að hún er eitthvað sem er týpískt franskt.

Nýtt í fréttum: Hef ákveðið að gerast tungumálafrömuður mikill og hygg á að taka annaðhvort BA í rómönskum málum nú eða bara skella mér í spænskuna til 60 ein líka. Get samt ekki alveg ákveðið mig, hef áhyggjur af spænskukunnáttu minni því að ef hún byrjar eitthvað í líkingu við frönskuna, þá verður maður að kunna slatta. Stefni á að taka sjálfsnám í spænsku á næstu önn og svo meira í Frakklandi og sjá svo hvað setur. Þessi ákvörðun var tekin eftir að ég uppgötvaði að Spánverjar eru vart mælandi á enskri tungu. Hringdi vinnusímtal til Spánar um daginn og grenjaði úr hlátri þegar ég var send frá einum til annars vegna þess að þau gátu ekki gefið mér upp símanúmer hjá eina gaurnum sem talaði ensku. Loks með minni menntaskólaspænsku og þeirra leikskóla ensku kröfsuðum við okkur út úr þessu "yes nuevo one siete". Hringdi í þennan meistara sem talaði ensku til þess eins að komast að því að hann var litlu skárri " and I say thank you very much to you also" með spænska hreimnum og áherslunum. Snilld. En sumsé, best að fara að dusta rykið af spænskunni sem frú Túliníus barðist hart fyrir að troða þar inn. Einu sinni var ég töluvert betri í spænsku en frönsku!

Adios, hasta luego og allt hitt


Tuesday, September 20, 2005

Mjá!


Það sem fólki dettur í hug

Ótrúlegustu hlutir eins og sjá má hér!

Monday, September 19, 2005

Ísland bezt í heimi!

Kaldrifjaður morðingi, drap strák sem hann þekkti ekki neitt að algjörlega ástæðulausu í miðbæ Rvk. Þrem árum seinna er hann kominn í lögfræði í HÍ og búinn að afplána dóminn? Er þetta heilbrigt?

Sunday, September 18, 2005

Thank god for progress:

André Le Chapelain, Traité de l'amour courtois, skrifað á 14. öld um reglur ástarinnar.


Þar kemur ýmislegt áhugavert fram í dagsljósið.

- Ást byggist á útliti, ef manni líkar útlit einhvers verður maður ástfanginn. Af þessu leiðir að blindir geti ekki orðið ástfangnir: "La cécité est un obstacle a l'amour car un aveugle ne voit pas et, de ce fait, rien ne peut provoquer en son esprit de réflexions obsédantes: l'amour ne peut donc naitre en lui, ainsi que je l'ai trés clairement montré précédemment" útleggst: blinda er hindrun ástarinnar þar sem blindur sér ekki og því getur ekkert vakið hjá honum slíkar tilfinningar eins og ég hef skýrlega sýnt fram á.
-Tvær manneskjur af sama kyni geta aldrei undir nokkrum kringumstæðum orðið ástfangið enda fordæmt af náttúrunni sem ætlaði ekki samræði tveggja af sama kyni.
-Konur eru orðnar nógu gamlar til undaneldis við 12 ára aldur.
-Almúgakonur vita ekkert hvað þær vilja, því verður bara að taka þær nauðugar ef því er að skipta því þær átta sig á því seinna hvað þeim er fyrir bestu. Alls ekki eyða hrósi í þær, þær eru svo sannarlega ekki þess virði og ekki á að koma fram við þær eins og þær séu eftirsóknarverðar.
-Karlar um sextugt og konur um fimmtugt eru ófæra um að elska því að ástin er líka bundin aldri. Því er ekkert eftir fyrir þau til að hugga sig við nema að drekka og borða.

Síðast en ekki síst, þriðji kafli sem telur fjöldann allan af bls sem fjalla eingöngu um það hvað konan er ófullkomin og að maður ætti að koma sér hjá því að vera ástfanginn af henni: Hún er gráðug, heimsk, tillitslaus, eigingjörn, frekja, horkafull o.s.fr. Slík er hún að hún þarf ekkert nema borð sem vel hefur verið lagt á til að halda henni ánægðri, svo grunnhyggin er hún!


André le Chapelain, við þökkum þér þessi viskubrot!

Friday, September 16, 2005

Partýóða konan Sif!

Vill svo skemmtilega til að í kveld er mér boðið í tvö partý. Væri enn skemmtilegra ef mig langaði ekki mest til að leigja næsta West Wing disk og leggjast undir sængina mína og láta Josh Lyman og aðra góða halda uppi fjörinu í kveld. Leit rétt í þessu út um gluggan og sé ekkert nema rigningardropa og þoku. Ekki alveg að kveikja í mér partýþorstann!

Hinsvegar eru bæði partýin þess eðlis að maður getur ekki skorast undan og því skal hoppað í sturtuna, andlitinu hent á og reynt að komast í einhvern gír sem líkist þá helst partýgír. Svo skal skundað í áhugaverðan fögnuð á Seltjarnarnesinu og þaðan í Mojito partý í Kópavogi. Gengið skal þó hægt um gleðinnar dyr enda á ég stefnumót í Laugum kl 10 í fyrramálið með einni af hommsunum mínum!

Ekkert eins hvetjandi eins og óðir hommar þegar að það kemur að ræktinni. Hef átt þrjár hommsur sem svona ræktarfélaga og það gefur góða raun. Bestur var samt nýsjálenski homminn hann Adam. Hann var stórstjarna í Nýja Sjálandi enda lék hann í sápuóperu þar. Það væri kannski ekki svona merkilegt ef hann hefði ekki leikið konu. Hann er Mári og því svartur en með blá augu sem er stórmerkileg samsetning og ansi fögur. Tískuvit hafði hann mikið enda starfað sem módel fyrir Issí Míaki ( vá hvað ég vildi að ég kynni að stafsetja nafnið hans )á einum tímapunkti eða öðrum. Barnaskapur hans var þó slíkur að hann skildi töskuna sína við sig á flugvelli í Róm meðan hann skellti sér á salernið og var svo ægilega hissa þegar hún var horfin þegar hann sneri aftur. Ein af þessum ógleymanlegu manneskjum sem fagnaði svo kvenmanninum innra með sér að hvaða dama sem er myndi líta út fyrir að vera argasti suddi við hliðina á honum. Hann argaði og gargaði í ræktinni á sinni bjagalegu frönsku "allez" og "bougez your ass" vegna þess að hann vantaði oft orðin til að klára á frönsku!Skemmtilegast fannst honum að klæða sig í eitt lak, binda það utan um sig eins og kjól og vefja túrban um hausinn á sér og dansa við Eryku Badu og syngja með. Æjá....ekki sé ég eftir þessum 6 mánuðum mínum í Cannes!

Og hananú!

Rekstur áfengisverslana á Íslandi er til skammar! Lesið meira um það hér.

Fylgi á eftir öðrum...

... og lýsi því yfir að ég er femínisti!


Ástæðuna getið þið séð hér.


Segi annars góða helgi!

Thursday, September 15, 2005

Af því ég á bráðum afmæli

http://www.oskalistisifjar.blogspot.com/

?????

Kæra Steinunn Valdís


Takk kærlega fyrir það að gera komandi borgarstjórnarkosningar mun auðveldari fyrir mig. Í dag eyddirðu 360 milljónum í algjörlega tilgangslausan hlut. En það er gott að íþróttaaðdáendur geti horft á enn fleiri auð sæti sökum eyðslu þinnar því við vitum öll að það er aldrei uppselt á leiki ( nema Einar Bárða sjái um kynningu ) en samt á að bæta við sætum.


Þú getur treyst á það að þú færð ekki atkvæði mitt í næstu kosningum! Ef öll fyrirtæki væru rekin eins og þitt fyrirtæki færu þau ansi fljótt á hausinn!


Kveðja,
Sif

Wednesday, September 14, 2005

Naninanibúbú


HP Compaq nx6125- Turion Örgjörvi: AMD Turion ML-34 (1.8Ghz) Skjár: 15" SXGA 1400x1050 Minni: 512MB DDR RAM SMART Diskur: 80GB 5400rpm Drif: DVD+/-RW (DVD skrifari m/LightScribe) Fingrafaralesari 56K Módem 802.11b/g WLAN (Þráðlaust netkort) Bluetooth 6-Cell Lilon rafhlaða Microsoft Windows XP Professional Þyngd: 2.7kg Ummál: 31 x 328 x 267 mm 2ja ára neytendaábyrgð
Skólatilboðsverð: 139.900 kr.



Ríka stelpan fjárfesti í þessari tölvu í dag. Hún situr nú á borðinu mínu og safnar orku fyrir komandi vertíð! Samkvæmt bókinni sem fylgdi þarf hún 18 tíma orkuhleðslu áður en ég get farið að fjastast í henni. Þessi tölva verður m.a. notuð til að rita inn glósur í Fílunni því að ég er glósuvinur einhvers sem er heyrnaskertur.

Friday, September 09, 2005

Dagur að kveldi kominn!

Eða öllu heldur, vikan er að verða búin. Finnst eins og ég hafi ekki klárað heila hugsun vegna anna, alltof mikið í gangi í þessi heilaskrímsli. Fegin að þessi fyrsta vika er búin, nú fer maður að venjast betur þessu álagi og geta komið á þetta einhverju almennilegu skipulagi.

Skólinn lítur ágætlega út þó vissulega verði þetta strembið ár. Uppgötvaði að ég á inni 11 einingar sem geta nýst mér í BA einingafjöldann ( gamalt ferðamálafræðidót ) en á í miklum innri deilum um það hvort ég vilji það því einkunnirnar voru svo hryllilega slæmar og langt fyrir neðan mínar hellur.

Fékk hrós frá frönskum kennara um að ég tali án hreims....finnst alltaf gott að heyra þetta því það var jú draumur lítillar stúlku í Vesturbænum: Alltíeinu kviknaði þetta í hausnum á mér, " Ég ætla að tala frönsku eins og innfæddur". Hef ekki getað neglt það niður hvaðan þessi della kom en hún hefur haldist með mér sem er meira en segja má um margt.

Er úrvinda á sál og líkama, finnst eins og ég sé tóm að innan, en þetta er ekki allt búið því í kvöld er Nýnemakvöldið okkar og þar með er Gallíu projectinu ýtt af stað þessa haustönnina.

Hommsan er komin til landsins, með hvítt hárband og hommsutakta fyrir alla peningana.

Er að hugsa um að fá mér aðra vinnu með skólanum til að græða enn meiri pening. Svo glottir Dabbi svín til mín af forsíðum blaðanna, 570 þús króna launahækkun fyrir að minnka vinnuálagið sitt og fá sér aumingjastarfið í Seðlabankanum. Ef hann gæti hent í mig eins og 20 þús kalli á mánuði væri það glæsilegt. Best að senda honum kvörtunarbréf! Það var æskudraumur eitt sinn í mikilli bræði að binda endi á líf hans. Ég hafði hann nefninlega ( ranglega NB) fyrir sök um að vera í sífellu að drepa endur með þessari helv. ráðhúsbyggingu ofaní tjörninni. Labbaði heim til hans með hótunarbréf sem ég klippti í bíómyndastíl út úr dagblöðum, stafi og orð, og límdi saman í einhverja ómerkilega hótun. Heyrði þó aldrei meir af því, ætli löggan sé að leita að mér? Man að hann átti eitthvað geltandi hundspott sem hræddi úr mér líftóruna.....kannski át hann bréfið?

Hef ávallt verið fyrir það að láta í mér heyra ef ég er ósátt og þetta var bara einn liður í því...kannski samt fullmikið drama?

Tuesday, September 06, 2005

Ég geng nú Menntaveginn

Skólinn byrjaður aftur og heilasellurnar í startholunum. Fannst þó heldur hart lagt að mér í gær þegar ég sat í tímum frá 13 - 18.45. Þar var ekki tekið hljóðlega að stað af mínu mati heldur ansi harkalega. Er í bókmenntakúrs miklum sem fjaldar um miðaldabókmenntir og fram til 17. aldar en þó bara franskar. Bækurnar eru þykkar skruddur á erlendu tungumáli og vekja mikinn ótta hjá undirritaðri. Mun þó ekki síðar en í kvöld stíga inní óttann, opna eina þeirra, vel vopnuð blýanti einum og stórri orðabók. Mun hún leiða mig áfram í gegnum verkið og vonandi auka skilning minn til muna.

Stóð í dag frammi fyrir nýnemum sem eru eins og nýútsprungin blóm og sagði þeim með hvaða hætti ég ætlaði mér að hella þá fulla í vetur. Þar var margt um manninn en sumir skildu ekki íslensku né frönsku og var því brugðið á það ráð að sletta í enskuna. Ætla mér að leiða þetta fólk í allan sannleikann um skemmtanagildi HÍ. Vonandi rennur ekki af þeim í vetur því maður veit hvernig mælikvarði á skemmtun er. Þeim mun drukknari sem maður er og þeim mun meiri hamagangur og læti, því betri umsögn fær gleðskapurinn daginn eftir.

Denis, minn heittelskaði hommi sem á röndóttan sjóliðabol uppruninn í Frakklandi sem er allt sem þarf í mínum augum snýr aftur á Frónið á fimmtudag og upphefjast þá mikil hátíðarhöld. Pilturinn mun deila íbúð á Grettisgötunni og verða mér til halds og trausts í vetur.

Frakkland bíður mín og einungis mánuður þar til ég stíg þar á jörð, ætla að falla niður á steypuna og kyssa hana marga kossa eins og sönnum útlaga sæmir. Skil ekki planið hjá grínistanum sem sumir kalla Guð, afhverju hann setti mig á Ísland þegar ég á svo bersýnilega að ganga um gömul miðaldastræti lítilla fjallaþorpa og segja Bonjour á báða bóga með baguette undir einni og rauðvín í hinni. En svona er húmorinn hjá sumum, og verð ég að segja að stundum er hann ansi misskilinn!


Mamma! Hvar er franska alpahúfan mín sem ég fékk í stúdentsgjöf? Aldrei hefur hennar verið þörf eins og nú!!!!


Og nú upphefst lesturinn!


Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?