Tuesday, November 30, 2004

Ruglumbull

Úff, hvað mynduð þið segja um manneskju sem vaknar klukkan fimm vegna almenns kvíða? Ég rumska, átta mig á því að ég þarf að pissa, leggst svo aftur uppí rúm, og viti menn, fer að þilja um mögulegar prófspurningar í hausnum á mér og svo að rembast við að reyna að svara þeim. Sem er alltaf í áhugaverðari kantinum. Svo tek ég líf mitt allt til algjörrar endurskoðunar og prísa mig svo sæla ef ég næ að sofna fyrir ruglaða hausnum mínum.

En sumsé, þetta var bara svona til að útskýra hvað ég er að gera hérna á þessum undarlega tíma sólarhrings, of seint til að vera ekki ennþá sofnaður og alltof snemmt til að vera vaknaður!

Fyrir utan það, ég er ótrúlega stoltur bloggeigandi, það voru sko gerð tvö comment í gær og talan á teljaranum mínum fer hækkandi og það gleður mitt litla hjarta.

Jæja, ég ætla að halda aftur uppí rúm og halda baráttunni áfram við hausinn á mér og ýmsar snúnar prófspurningar....þið skulið sko biðja fyrir því að ég verði ekki kennari því að á nóttunni tekst mér að finna svo sadískar prófspurningar að það er engu lagi líkt!



Monday, November 29, 2004

Afturbatakommatittur hvað?

Jamm og já, samkvæmt Davíði Oddsyni er ég ekkert nema afturbatakommatittur, ég gat nú ekki annað en fengið hláturskast yfir því sem þessi maður getur látið fara út úr munninum á sér. Og svo bar hann saman það að við myndum láta taka okkur af lista þeirra viljugu við það að hann færi upp á Landsspítalann og segði að hann vildi láta hætta við krabbameinsaðgerðina sem hann er notabene búinn að fara í. Þetta fannst honum fullkomlega sambærilegt, sem segir jú allt sem hægt er að segja um þennan mann!

Helgin og fleira

Jæja, smá spennuhnútur í maganum eins og venjulega fyrir próf....ræð ekkert við þetta prófstress, það kemur alltaf. Get þó sagt með öryggi að ég sé bara nokkuð vel undirbúin fyrir þetta munnlega próf. Þó finnst mér fáránlegt að það eigi að dæma mann á tíu mínútum og kunnáttu manns á námsefni heillar annar. Fyrir fannst mér fremur grimmt að taka lokapróf sem hugsanlega gilda 80% þar sem ætlast er til þess af manni að maður leggi niður allt sem maður hefur lært á einni önn og einungis tekið mið af þessum tveimur tímum þegar skilnlingur manns á efninu er metinn. Æj, ef ég væri nú bara menntamálaráðherra, þá væru hlutirnir hugsanlega öðruvísi ;)

Helgin var fín, mikill lærdómur og notalegheit utan þess, fór í afmælismatarboð hjá Katrín Sóley þar sem kynjahlutverkunum var heldur betur snúið við og einn karlmaður sá um að elda dýrindismat ofan í okkur vinkonurnar og bera matinn á borð. Hann settist ekki einu sinni til borðs með okkur og þegar hlutverki hans lauk, lét hann sig bara hverfa og urðum við því lítið varar við hann. Upp kom sú pæling að alltaf ef karlmaður eldar er talað um það eins og hann hafi gert kraftaverk og hann uppsker mikið hrós en þegar kona framreiðir dýrindis máltíð, þá þykir það nú ekki tiltökumál! En sumsé, frábær matur og gaman að hitta stelpurnar, hittumst alltof sjaldan. Ég vildi bara að ég hefði getað farið að djamma með þeim, en ekki þurft að vera settleg sökum prófa!


Friday, November 26, 2004

Senegal

Ég var í tíma í dag, í Land og menningu hjá hinum umtalaða Gerard Lemarquis sem er kannski ekki til frásögu færandi nema að hann ákvað að sýna okkur myndband sem sonur hans Tommi Lemarquis (Nói Albínói) tók upp í þessu ferðalagi fjölskyldunnar í Senegal. Í þessari mynd sáust alveg hellingur af senegölskum börnum umkringd strákofum og konum í alþýðlegum afrískum litríkum kjólum en börnin, þau voru klædd að vestrænum sið, enda öll komin í föt frá hjálparstofnunum. Það er óhætt að segja að það stakk ansi í stúf innan um strákofana að sjá lítinn svartan strák hlaupandi um í skærgulum íþróttabol merktum nr 8 og annan sem var nú reyndar töluvert eldri og í Levis gallabuxum, manneskja sem hafði aldrei ferðast neitt um ævina og eina búðarformið þarna voru götusalar sem röðuðu sér meðfram strákofunum. En auðvitað gott að sjá að hjálparstarfið er að skila sér og að vestræn menning stingi sér alls staðar niður ;)

Annars sé ég bara fram á fremur óspennandi helgi þannig séð, er að fara að undirbúa munnlegt próf í frönsku á mánudaginn og svo próf í bókmenntasögu Frakklands.

Góða helgi.


Thursday, November 25, 2004

Þú veist hvernig þetta er

Ég fór og sá leikritið sem stúdentaleikhúsið er að setja upp. Ég vissi ekki neitt um þetta verk og var því við öllu búin. Þegar við vorum rétt ókomin sáum við Forseta vor í bíl sínum að keyra um þarna úti á Granda. Okkur fannst þetta nú í meira lagi undarlegt, hvað gæti forsetinn verið að gera með bílstjóra og öllum græjum þarna úti á Granda síðla á sunnudagskvöldi. Viti menn, var hann ekki á leiðinni á sýninguna með okkur. Þetta er standandi sýning, við stóðum öll í miðjum salnum og svo gerist leikritið í kringum okkur. Það var alveg ótrúlega skemmtilegt að standa þarna eins og álfur við hliðina á forsetanum sem var einsamall þetta kvöldið, hver veit hvar Dorrit var. Ég var með tvo útlendinga með mér og þeim fannst meiriháttar að sjá forsetann standa mitt á milli okkar allra án lífvarðar og alles og svo var bara múnað á hann ( partur af sýningunni).
Sýningin sjálf var svo frábær, í fyrsta lagi skrifa krakkarnir textann sjálf og var hann í heild alveg frábær þó að sumir kaflar hafi kannski verið í langdregnari kantinum. Þetta var samfélagsrýni af bestu gerð, og stiklað á mörgum þeim málefnum sem mér hafa allavegana runnið til rifja og við íslenska þjóðin gagnrýnd fyrir þennan hugsunarhátt "svona er þetta bara" eða nb. Þú veist hvernig þetta er! Leikararnir voru allir afbragðsfínir og ég skellihló oft á köflum. Efniviðurinn höfðaði algjörlega til mín og þegar þau fóru að fjalla um fjölmiðlafrumvarpið, laumaðist ég til að kíkja á Óla og það brá nú fyrir smá glotti hjá honum.
Eini gallinn var, að þó að það væri skemmtileg tilbreyting að standa upp á annan endann, þá var maður orðinn ansi þreyttur í bakinu undir lokin og því farin að bíða eftir því að leikritið kláraðist svo að maður gæti einfaldlega sest, ekki út af því að skemmtunin væri ekki næg.

En sumsé, það eru einungis örfáar sýningar eftir og ég mæli með því að allir reyni að fara!

Upphaf

Jæja, eftir miklar hugleiðingar hef ég ákveðið að gera tilraun með blogg, í von um að ég hafi eitthvað af viti að segja...vona bara að einhver lesi ;)


Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?