Sunday, January 30, 2005

Verkamenn

Ójá, á morgun byrja framkvæmdir á baðherberginu okkar sem mun setja litla heimilslífið okkar algjörlega úr skorðum. Hingað eru væntanlegir pípari, múrari, smiður og rafvirki. Stefnt er á verklok á örfáum dögum en ég mun leyfa ykkur að fylgjast með framvindu mála! Mín reynsla er sú að verktíminn sé alltaf lengri en á upphaflegri áætlun og að ef eitthvað geti farið úrskeiðis, þá geri það það! Það sem er sumsé í vændum er þetta: það á að rífa út baðkarið og innréttinguna og rífa niður allar flísar á veggjum og gólfi. Svo á að setja inn sturtu, flísaleggja uppá nýtt, setja inn nýja baðherbergisinnréttingu, nýjan vask, reyna að laga stillinguna á klósettinu, setja inn rafmagn því hingað til hef ég blásið á mér hárið í undarlegum stellingum inní svefnherbergi og síðast en alls ekki síst ÞVOTTAVÉL!!!!!!!!!! Já kæru lesendur, undanfarin tvö ár hef ég þrammað niður í kjallara a.m.k. þrisvar í mánuði til að nýta mér minn úthlutaða þvottatíma (sem ég skrái mig á í byrjun mánaðar) og nota vélarnar tvær sem þar bíða innan minna tímamarka 7-15 eða 15-23. Það má ekki hengja upp þvottinn sinn utan tímamarkanna þannig að ef hlutirnir þorna ekki á þeim tíma þarf að ferja upp og setja á grindur. Ef þurrkarinn nær ekki að klára...þá ertu uppá náð og miskunn næstu manneskja komin! Um þetta gilda strangar reglur og fólkið í blokkinni hefur verið þekkt til að vera ansi anal þegar að þessu kemur. Fyrir utan það eru einungis tvö þvottahús en þau eiga að anna þremur stigagöngum sem hver hefur 16 íbúðir og tveimur stigagöngum sem hver hefur 8 íbúðir. Gleði gleði sumsé.

En já, brátt mun ég geta hent í þvottavél eftir hentugleika, og bara eina vél í einu en ekki margar til að klára þvottinn alveg! Því býð ég ykkur öllum í heimsókn með þvottinn ykkar því þetta er svo yndislegt!!!!! En fyrst þarf ég að kaupa þvottavél og til þess þarf ég að eiga pening...visa léttgreiðslur RÚLA!

Saturday, January 29, 2005

Pródúktív

Búin að nota þennan dag ótrúlega vel, er full af stolti yfir árangrinum, í komandi letiköstum mun ég geta notað þetta sem afsökun. Ég er búin að vinna alveg heilan helling auk þess sem ég er búin að lesa tvær mjög áhugaverðar greinar og glósa þær. Önnur er eftir Þröst Helga og fjallar á skemmtilegan hátt um tímaritin i-D og Surface og það sem þau reyna að koma til leiðar og hin er eftir Torfa Tulinius um nýsöguna og einskonar upphaf skáldævisögunnar. Úff hvað mér finnst ég vera klár núna!!!! Þarf ekki mikið til í mínu tilfelli! Er annars að lesa Elskhuginn eftir Duras sem er ótrúlega furðuleg. Byggir á minningarbrotum hennar frá því að hún var 15 ára, skrifað þegar hún er 70 og kemur bara í hvaða tímaröð sem er og það er enginn þráður fyrir mig til að ríghalda mér í. Furðulegt líka að lesa bók sem heitir Elskhuginn, þú lest titilinn og opnar svo bókina og sérð mynd af alveg ótrúlega gamalli konu...hmm!

Hver hefði trúað því að klukkan 20 í gær var ég mjög drukkin að troða í mig dásemdum frá Eldsmiðjunni?

Arnar ætlar að baka pizzu handa mér og svo ætlum við að skella okkur í 10 bíó og sjá Tais-toi sem á víst að vera alveg ótrúlega fyndin. Ég er ótrúlega ánægð með þessa frönsku kvikmyndahátíð, stórgóðar myndir alveg. Er búin að fara tvisvar á Long Engagement og hún varð bara betri í seinna skiptið og svo á fimmtudagskvöldið fór ég og sá "Filles uniques", mynd um tvær konur sem báðar eru einkabörn og var þetta ótrúlega góð og hugljúf mynd um samskipti kvenna. Við höfum nefninlega alveg sérstakar leiðir til að hafa samskipti. Get ekki lýst því hvað það er upplífgandi að fara á bíómyndir sem fjalla ekki um það sama og síðasta bíómynd sem þú sást og þú sérð ekki fyrir þér hvernig endar. Mjög fínt. Þið ykkar sem enn hafið ekki látið sjá ykkur á hátíðinni....drífa sig á eina mynd.... það er m.a. verið að sýna Les Choristes með íslenskum texta en hún var einmitt tilnefnd sem besta erlenda myndin á óskarnum!

Vísó í Vífilfell

Þá er ég búin að upplifa mína fyrstu vísindaferð. Fórum í Vífilfell í gær, frönskudeilding og japönsku deildin. Þetta var bara rosalega fínt, við löbbuðum hring um verksmiðjuna og sáum að Vífilfell er farið að flytja inn fleiri fleiri tegundir af léttvíni. Svo enduðum við í einhverjum fundarsal þar sem í boði var Viking Lite og Lager bjór á meðan að einhver Power point sýning fór fram...veitti henni reyndar ekki mikla athygli. Þrátt fyrir að vera fámenn kláruðum við allan bjórinn úr kælinum (reyndar hurfu margir ofaní töskur og vasa) og svo var haldið hingað heim og pantaðar pizzur og horft á Idol. Hef samt aldrei verið með partý sem byrjar jafn snemma og líkur jafn snemma, ég var komin uppí rúm um ellefu leytið, horfði á einn þátt af Point Pleasant og lognaðist svo bara út af ofboðslega ánægð. Vaknaði svo bara snemma í morgun, tók til, taldi dósir, fór í endurvinnsluna, bónus, ikea og bílaþvottastöð og var að koma inn heima aftur. Nú á bara að taka til hendinni í vinnu og lærdóm og hafa það kósý!

Góða helgi!

Wednesday, January 26, 2005

Röskva v. Vaka

Ég sá framboðslistana fyrir þessar tvær hliðar í háskólapólitíkinni. Fannst áhugavert að í Röskvu hópnum sem er augljóslega vinstri sinnaður var um helmingur ef ekki meira úr hugvísindadeildinni á meðan að Vöku deildin lumaði á tveimur úr hugvísindum og svo kannski 40% úr lögfræðinni. Einnig fannst mér fróðlegt að rúmlega helmingur Röskvu er úr MH. Ég ætla ekki að segja að mig hafi ekki grunað að í hugvísindadeildinni væru fleiri vinstri sinnaðir en að sjá þetta svona svart á hvítu er svolítið skondið!

Einn kennarinn minn er lasinn og hefur því verið fenginn afleysingakennari. Dílemman er sú að mér líst betur á afleysingakennarann heldur en þessa elskulegu konu sem kennir áfangann. Finnst ég ótrúlega vond manneskja þegar ég óska þess í huganum að afleysingakennarinn klári önnina, sérstaklega í ljósi þess að það mun þýða enn alvarlegri veikindi fyrir hinn kennarann...ekki að ég óski henni þess, langt því frá...elskuleg kona en hún er háöldruð og með kennsluaðferðir eins og Edda sögukennari úr MH...lesið beint upp af blöðum, engin umræða enda heyrir hún svo illa að hún eiginlega getur það bara ekki.

Tuesday, January 25, 2005

24 og annað gott sjónvarpsefni!

Hef ákveðið að lifa mig inní hlutverk mitt sem sjónvarpsnörd og skrifa hér pistil um sjónvarpsþráhyggju mína, kannski til að þið skiljið eilítið betur hversu djúpt þessi árátta ristir!

Nýja serían af 24 er frábær! Mikil spenna í gangi og fer hún mun hraðar af stað en sú þriðja sem ég kláraði aldrei að horfa á. Kiefer Sutherland er ótrúlegur töffari! Ég sakna þó þess sem lék forsetann í fyrstu þremur seríunum...hvað varð af honum? Hef grun um að ég verði að horfa á seríu 3 til að sjá hvernig fer fyrir honum. Eins og áður hefur komið fram er ég mikið fyrir sjónvarp og horfi aðallega á þætti og þá nánast eingöngu bandaríska þætti. Verð þó að viðurkenna að frá því að Friends og Sex and the city sögðu skilið við mig hef ég leitað að einhverju til að fylla tómarúmið en ekkert fundið sem grípur mig af jafnmiklum móð og þetta. En svona ykkur til fróðleiks þá ætla ég að setja hér inn lista yfir allar þáttaraðir sem ég er að horfa á í augnablikinu:
CSI New York - ágætur en sá sísti af þeim þremur
CSI Miami - vinnur rosalega vel á ef maður horfir á þá til lengdar, var ekki hrifin fyrst en er núna hooked.
CSI Las Vegas - Grissom rúlar auðvitað
Amazing race 6 - frábær þáttaröð úr þessum flokki, pakkið sem var dregið inní þessa seríu er ótrúlegt og John og Victoria án efa mitt uppáhalds par fyrr og síðar enda algjört "white trash".
Committed - sería frá þeim sem gerðu Ellen, bara þrælfyndin.
Las Vegas - svona lala afþreying, fyrsta serían var þó mun betri en þessi nr 2
North Shore - Sápa frá Hawai, mjög týpísk sápuóperuformúla
Gilmore Girls - Þoldi þá ekki fyrst en festist svo
ER - ótrúlegt, á 11 seríu er þetta ennþá snilld. Bara ekki horfa meðan maður er að borða ;)
Alias - Hún er bara of flott!
The O.C. - Beverly Hills 90210 nútímans
One Tree Hill - ójá, ég get horft á nánast hvað sem er!
Lost - frá framleiðendum 24 og er bara helv. fínt
Nip & Tuck - sápa um lýtarlækna sem er ótrúlega beinskeytt og grimm
Joey - heldur mér engan vegin, horfi bara í von um að sjá einhverjum fleiri "Vinum" bregða fyrir.
Desperate Housewives - ótrúlega gott nýtt drama, mæli með fyrir alla.
LAX - Heather Locklear í flugvalladrama einhverju, mjög fínt, svarti gaurinn sem er á móti henni er nefninlega frekar hot!
Scrubs - ER í grínbúning...mjög góðir
Smallville - Superman á unglingsárunum...veit ekki hvort þetta er betra eða verra en það hljómar?

Þetta er það sem ég man eftir í fljótu bragði ;)

En já btw...loksins kann ég að tengja orð við linka jíha!


Thursday, January 20, 2005

Phil Handlsey

Bara svona til að slá á létta strengi eftir outburst mitt í fyrri pósti:

Veit ekki hvort þið munið eftir rauðu Twiggy myndinni sem hangir uppá vegg hér í stofunni hjá mér og Arnari? En við keyptum hana af listamanni sem var að selja verk sín á gangstétt meðfram Hyde Park í London í fyrra. Planið okkar hefur alltaf verið að bæta tveimur myndum frá honum við í safnið okkar og fyrir áramót þegar ég hafði samband við hann því mig langaði að gefa Arnari eina mynd í jólagjöf kom í ljós að myndirnar hans hefðu tífaldast í verði sökum velgengni í Frakklandi. En hann þessi elska samþykkti þó að leyfa okkur að kaupa tvær myndir á sama prís og við keyptum á í fyrra sem er 120 pund stykkið eða tvær fyrir 240 pund. Þið getið skoðað myndir eftir hann á www.enviedart.com eða www.rudeinteriors.com . En sumsé, foreldar mínir eru í London í dag og eru vonandi að fá þær afhentar núna seinni partinn! :) Hlakka til að fá þær hingað heim og hengja upp á fína vegginn sem býður þeirra.


Tilvistarkreppa!

Mér til mikillar skelfingar hef ég gert mér grein fyrir einu: Ég verð 25 ára eftir 9 mánuði og ég er að fyllast af mikilli tilvistarkreppu. Ég er ekki gift, né stefni ég á það á næstu 9 mánuðunum, ekki á ég barn og finnst ólíklegt að ég muni eignast það á næstu 9 mánuðum, ég er enn ómenntuð þó að auðvitað sé ég að ganga menntaveginn...ég á ekki neitt að undantöldnu nýja rúminu og jú einum bíl, en Arnar á hann eiginlega...þetta brýtur í bága við öll framtíðarplön sem ég hafði fyrir sjálfa mig þegar ég var lítil. Samkvæmt því plani væri ég núna gift kvikmyndastjörnu, færi til útlanda í ævintýraferðir tvisvar á ári, væri búin að mennta mig og væri með einhverja stórkostlega vinnu og barneignir væru á áætlun. What went wrong? Og afhverju er ég með þessar rosalegu kröfur til sjálfrar mín. Ég get allavegana nefnt einn hlut svona "of the top of my mind": Margar vinkvenna minna eru trúlofaðar og því spyrja þær spurninga eins og "Jæja, á ekkert að fara að trúlofa sig?" og aðrar eiga börn og gjarnan spyrja þær spurninga eins og "langar þig ekkert að fara að fjölga mannkyninu?" Hverju á ég að svara? Mig langar til að gera báða þessa hluti en þeir eru ekki tímabærir á þessari þroskaleið minni...ég er bara ekki komin á þennan stað ennþá...nálgast hann en þarf bara meiri tíma en aðrir...greinilega! Og afhverju vill ég endilega gifta mig og eignast börn? Jú, af því að samfélagið hefur heldur betur innprentað í mig það að ég vilji þessa hluti. Ég var 2 ára þegar ég fékk mína fyrstu dúkku og átti að vera "mamma hennar". Þetta er sick...hvernig er hægt að byrja að setja konur í þessi hlutverk þegar þær eru svona ungar? Vitið þið um einhvern karlmann sem átti dúkku þegar hann var lítill og lék "pabba"? Brúðkaup komu inn í umræðuna hjá okkur stelpunum tiltölulega snemma, við vorum mikið í að gifta Ken og Barbie sem voru auðvitað "órjúfanleg heild" og svo ég gleymi ekki að nefna svokölluð stelpublöð sem eru með áhugaverðum greinum á við "how to get that guy" "how to please your guy", "Is he marrige material" o.s.fr. Nú svo getum við rætt um kvikmyndaiðnaðinn sem stílar á ungar stúlkur....fjalla allar um einhverja stelpu sem er utan þessa vinsældasviðs, en sæti vinsæli strákurinn verður einhvernveginn yfir sig ástfanginn og þau lifa hamingjusöm það sem eftir er. Og er svo fólk að furða sig á því að ég sé veruleikafirrt þegar það kemur að þessu öllu? Hvernig er hægt að halda sig á jörðinni þegar að maður er bombardaður með svona efnivið? Grrrr...... !Og svo til að kóróna þetta allt sat ég í frímínútum í gær í skólanum og það var verið að tala um hvað hver væri gamall og ég sagði, já ég verð 25 ára á þessu ári og augngoturnar sem ég fékk voru fylltar af samúð ásamt orðunum "Vá, ertu svona gömul" !!!!!!!!!! Já, ég er víst svona gömul shit fokk!

Wednesday, January 19, 2005

Proust

Ég er að lesa Leitina að tímanum, fyrsta hlutann í þýðingu Péturs Gunnarssonar. Þetta eru "merkar bókmenntir", skrifaðar í byrjun 20.aldarinnar af manni sem sálfræðingar og bókmenntaspekúlantar hafa eytt miklum tíma í að stúdera. Verð að segja að fyrir mína parta er ég alveg að missa af því hvað er svona merkilegt....so far eru þetta langar og oft óáhugaverðar lýsingar, nú eða bara mjög hversdagslegt líf ungs drengs á þessum tíma...en er að hamast við að kafa dýpra...finna einhverja djúpa merkingu í þessu svo að ég nái því afhverju þessi maður er svona upphafinn.
Sennilega tengist því að þarna fengu þeir sem vildu skoða skáldverk út frá höfundi og höfund út frá skáldverki, en þetta eiga að vera tvær órjúfanlegar heildir, mikið verkefni. Svo mikið er af tilvísunum í þessari bók sem hægt væri að heimfæra uppá líf Proust...ætli hann marki ekki einhverskonar upphaf á "skáldævisögu" forminu?

En annars er ég bara hress...held að ég sé búin að velja mér blað til að skrifa um í Menningartímaritum...er að hugsa um að fjalla um Cosmopolitan (augljóst val enda eina tímaritið sem ég þekki af einhverju ráði) og skoða hvernig blaðið reynir að stjórna ímynd okkar á heiminum, móta lífsgildi okkar og hugmyndir og segja okkur hvað við eigum að borða, hvað við eigum að lesa, hvað við eigum kaupa, hverju við eigum að klæðast, hvernig hárgreiðslu við eigum að vera með, hvaða meikupp við eigum að vera með, hvað sé inn og hvað sé out o.s.fr. Held að þetta sé ágætis efniviður í 8 bls blaðagrein sem við eigum að skrifa með það í huga að hún væri birtingarhæf í Lesbókinni.

Eru einhverjir þarna úti sem luma á einhverjum betri hugmyndum?

Monday, January 17, 2005

Feimnisvandamál, hvern hefði grunað!

Ég hefði nú aldrei látið mér detta þetta í hug en jú, verð að viðurkenna að þetta er einmitt það sem ég díla við í bókmenntafræðitímunum! Af einhverjum ástæðum fyllist ég óttalegri vanmáttarkennd innan um alla þessa bókmenntafræðinga sem eru margir hverjir, afsakið orðbragðið, sjálfskipaðir menningarverðir! En það virkar þannig á mig að ég lokast inní mér, fæ mótþróakast og langar helst að vera á öndverðum meiði við alla sem opna munnin þarna inni.

Vandamál mitt stafar sumsé af því að ég er ekki í neinum skyldukúrsum innan bókmenntafræðarinnar heldur eingöngu það sem ég kýs að kalla "framhaldskúrsa", sumsé ekki klassískt val byrjandans. Ég er því umkringd fólki sem hefur verið þarna í einhvern tíma, þekkir allar þessar bókmenntastefnur, allar kenningarnar og mörg nöfn sem það getur notað og vitnað í þegar að það kemur með athugasemdir í tímum. Litlu bý ég yfir af slíkri vitneskju og fyllist því miklum pirringi og síðast en ekki síst, þessari feimni. Vissi bara ekki hvað ég átti að gera af mér í frímínútum! Það þekkjast allir þarna fyrir og fara í kaffi og spjalla og af einhverjum ástæðum lokaðist ég alveg fyrir því að bara kynna mig og gera þessa hluti sem maður gerir í nýju umhverfi...AÐLAGAST! Ekki veit ég hvaðan þessi árásargirni kom en hún er svo sannarlega til staðar! Og nei, ég er ekki fljót að dæma fólk ;)

Og já, eitt að lokum...mér líkar illa við kennara sem koma með einhverjar kenningar eða vitneskju og segja síðan "en þið vitið þetta allt" eða útskýrir ekki eitthvað til hlýtar því hann gengur út frá almennri vitneskju um eitt eða annað! Þetta býður uppá sært stolt!!!!! Ég fór í þennan tíma til að læra þetta, en ekki af því að ég kunni þetta allt fyrir! Grrrrr

Sunday, January 16, 2005

Djassað fimmtudagskvöld

Á fimmtudagskvöldið fórum við Arnar á Nasa og sáum frábæran franskan djass gítarista sem heitir Sylvain Luc. Hann hélt frábæra tónleika með Birni Thoroddsen og fyrir þetta þurftum við ekki að borga krónu! Við keyptum reyndar svo disk með Luc í lok kvöldsins, maður á alltaf að launa fólki vel unnið starf að mínu mati. Hann hreyfði sig svo skemmtilega meðan hann var að spila, var allur á iði og fílaði sig svo innilega inní þetta. Hann vissi líka vel af salnum og þrátt fyrir að hafa ekki sagt eitt orð alla tónleikana náði hann samt öllum salnum á vald sitt!

Á föstudagskvöldið fór ég svo í bíó. Kennarinn minn sem er líka forstöðumaður Alliance Francaise bauð okkur að sjá "Un long dimanche de fiancailles" eða "A Very Long Engagement. Myndin var sýnd sem opnunmynd frönsku kvikmyndahátíðarinnar og er alveg hreint frábær og mæli ég með því að allir skelli sér á þessa hátíð og sjái þessa mynd. Ofboðslega flottar og raunverulegar senur, mjög góður leikur, Audrey Toutou úr Amelie fer á kostum. Þegar að myndin var búin var boðið uppá rauðvín í andyri Háskólabíós og þar var Sylvain Luc að leika fyrir gesti og gangandi. Þetta er meiriháttar frægur gítaristi, talinn mikið undrabarn enda fullspilandi í kringum 8 ára gamall á gítarinn. Og þarna stóð hann bara í andyrinu að spila kokteiltónlist! Fannst það alveg frábært.

En það sem mér fannst skemmtilegast við þessi tvö kvöld, það var að sjá hversu rík frönsk hefð er hér á Íslandi og hitta þessa frönsku menningu fyrir tvö kvöld í röð. Hér eru greinilega ótal margir frakkar og Frakklandsvinir. Fyrir mig sem sakna þessarar menningar alveg ofboðslega, var frábært að sjá þetta og mun ég hér eftir vinna markvissara að því að vera í tengslum við þennan hluta samfélagsins. T.d. er ég búin að skrá mig sem meðlim í Alliance Francaise og hef þar með greiðan aðgang að öllum þeirra skemmtunum og skemmtikvöldverðum sem þau halda 2 sinnum á ári. Einnig eru þau mjög dugleg að vera með kvikmyndahátíðir, tvær á síðasta ári, og flytja inn rithöfunda og tónlistarmenn.

Ég eyddi eftirmiðdeginum í að skrifa gagnrýni um Lesbókina. Ótrúlega óþægilegt þar sem kennarinn er ritstjóri blaðsins og því verður maður að stíga varlega. Ég var samt nokk ánægð með textann minn og Arnar var sammála mér svo að nú er að vona að ég hafi náð kríterunni "harðorð en sanngjörn". Kemur væntanlega fljótt í ljós! Skólinn hefur annars farið ótrúlega fljótt af stað, allir kennarar nánast kenndu í fyrstu tímunum og ekki bara það heldur settu fyrir hin ýmsu verkefni. Ekki það, mér leiðist þetta ekki, finnst þetta alveg frábært. Eldaði svo tómatsúpu í matinn fyrir mig og Arnar, þau ykkar sem ekki hafa smakkað tómatsúpuna mína....ættuð endilega að skella ykkur í að elda hana, einföld en alveg frábær, meira að segja fyrir þá sem ekki fíla tómatsúpur!

Á morgun hitti ég svo Gaelle, hún er komin aftur heim úr jólafríinu í Frakklandi...hlakka mikið til að heyra lífsreynslusöguna hennar frá Tælandi, en meira hlakka ég til að nota frönskuna mína dags daglega.

Monday, January 10, 2005

Fyrsti skóladagur

Skólinn byrjaði aftur í dag og fyrsti tíminn var Menningartímarit hjá Þresti Helgasyni sem er ritstjóri Lesbókarinnar. Verð að segja að ég gaf sjálfri mér engin stig í dag, flestir nemandanna eru búnir að vera lengi í bókmenntafræðinni og þekkja eitthvað til tímarita, sýndist mér allavegana. Hann talaði heilan helling um tímarit Máls og menningar og í þeim anda að við ættum að hafa lesið fleiri fleiri hefti af því. Verð að viðurkenna að ég hef aldrei tekið upp það tímarit. Svo talaði hann um allskyns erlend tímarit sem ég gat ekki tengt neitt við heldur og í raun tengdi ég ekki neitt fyrr en hann fór að ræða um Séð og heyrt sem var ákveðinn botn í mínu lífi ;) . Verra varð það þegar hann vildi fara að ræða tilgang blaðsins, auglýsi hér með eftir svari við því: Hver er tilgangur Séð og heyrt?

Í jákvæðari anda, lítur út fyrir að verða spennandi námskeið, ég mun án efa læra ótalmargt þar sem ég skildi ekki neitt í fyrsta tímanum og er spennt að fara inná nýjan flöt í náminu mínu. Franskan er ótrúlega skemmtileg en námið er náttúrulega þannig byggt upp, allavegana enn sem komið er, að maður er mestmegnis í páfagaukalærdóm, en ekki beint í frjálsri hugsun. Það er bæði ógnvekjandi og spennandi að þurfa aðeins að láta hugann vinna fyrir kaupinu sínu.

Rúmið stendur enn fyrir sínu, ég og Arnar fórum loksins á fætur uppúr 16 í gær eftir að hafa rétt dröslast fram úr til að borða morgunmat um 13. Ótrúlegt hvað ég hef sofið vel undanfarið!

Heilsuátakið 2005 er í fullum gangi, komin af stað í annarri vikunni á þessu, hittum Inga áðan í ræktinni og tókum hressilega á því. Á miðvikudaginn fáum við svo kennslu á salinn. Erum í Laugum sem er hreint ótrúlegur staður. Í fyrsta lagi skanna þeir á manni augun áður en maður kemst inn. Í öðru lagi hef ég sjaldan séð jafn flotta tískusýningu og hjá sumu fólki þarna inni sem hleypur í níðþröngum merkjafatnaði, meira málað en dragdrottning á sýningu og í betra formi en Magga steri! En svo er þetta bara svo stórt, og alltaf svo troðið en mjög flott! Gaman að vera í mannfræðilegum pælingum þarna inni og yfir höfuð bara fínt að vera þarna. Svo er þetta í næsta húsi við mann!

Thursday, January 06, 2005

Gamla konan í blokkinni!

Já, ég verð víst að verða þess heiðurs aðnjótandi að vera "gamla konan" í blokkinni minni sem er þó nokkuð afrek miðað við að meðalaldurinn hérna er í kringum 90 ár eða svo. Heiðurinn er minn vegna nokkurra ástæðna sem flestar tengjast þó hljóðmengun eða lyktarmengun á einn eða annan hátt. a) lætin í flugeldunum fara óstjórnlega í taugarnar á mér og í kringum hátíðarnar hef ég nöldrað óspart um þessi ósköp og hvað þetta fari illa í "dýrin" o.s.fr. (kvöldið í kvöld engin undantekning þar sem einhverjir menn ganga hér berserksgang) b) þegar ungur strákur flutti inn á hæðina fyrir neðan okkur með vinum og vandamönnum á öllum aldri kvartaði ég mikið undan ónæðinu, t.d. ef ég heyrði votta fyrir smá tónlist þegar ég var með opinn gluggann, eins var oft á tíðum eins og miklir húsgagnafluttningar ættu sér stað og ég og Arnar tuðuðum og tuðuðum. Eins fór það óstjórnlega í taugarnar á mér að þau reyktu út á svölum og þegar ég sat og lærði við opinn gluggann barst reykingarlyktin hingað upp til mín ( þetta kemur frá stórreykingarmanni til 10 ára). Þegar kom að því að útskýra fyrir sjálfum sér afhverju þetta fór svona í taugarnar á mér hugsaði ég " þetta unga fólk kemur náttúrulega og gengur um allt öðru vísi en eldra fólkið ...." . Hvað ætli aðrir íbúar hússins haldi um mig? Mér liggur mjög hátt rómur, við köllum stanslaust milli herbergja, við erum oft og iðulega með partý og höfum aldrei lágt í þeim partýum....sem betur fer búum við að því að þar sem meðal aldurinn er svona hár, þá er líka hátt meðaltal yfir þá sem nota heyrnartæki!! Hefur sína kosti!

En já, gamla konan kveður í bili...farinn uppí nýja rúmið mitt að horfa á ALIAS!!!!

Tilfinningar í bloggheimi

Ég las pistil á blogginu hennar Línu minnar sem mér fannst áhugaverður og ýtir svolítið undir það sem ég hef verið að hugsa síðan ég byrjaði að vafra stefnulaust milli bloggsíðna, bæði hjá fólki sem ég þekki ekki, fólki sem ég kannst við í sjón og svo algjörlega ókunnugu fólki. Lína var að tala um hreinskilni á blogginu sínu og hvað maður sýnir mikið af sjálfum sér, hversu mikið maður leyfir sér að segja og hvað maður lætur ósagt eða segir undir rós!

Finnst ykkur stundum ekki einum of? Ég les ýmiss konar blogg hjá allskonar fólki og er mjög forvitin að eðlisfari. En finnst ykkur eðlilegt að manneskja sem veit ekki hvað þið heitið viti hluti sem venjulega væru eingöngu ætlaðir eyrum hinnar nánustu? Nú les ég reglulega blogg hjá manneskju sem ég kannast eingöngu við í sjón, ég hef aldrei talað við þessa manneskju en finnst hún áhugaverð. En bloggið hennar er alveg ótrúlega væmið, fyllt af ástarjátningum til makans sem og allra annarra verðugra, tilfinningaflóði og flækjum og ýmisskonar vandræðagangi. Ég játa það að manneskjan er mjög hreinskilin og greinilega í góðu sambandi við tilfinningarnar sínar en hvað rekur fólk út í að leggja hlutina svona augljóslega á borðið þrátt fyrir að vera með yfir 200 heimsóknir á dag. Svo erum við með bloggara eins og Betu sem segir frá öllu, en af einhverjum ástæðum truflar það mig ekki því mér finnst einlægnin vera svo miklu minni hjá henni en hinum bloggaranum sem um ræðir. Hvað er það eiginlega sem dregur mig aftur og aftur á þessar síður til að lesa um þetta fólk sem ég þekki ekki neitt?

Og sjálf velti ég alltaf fyrir mér þegar ég er að blogga hvort ég eigi að nafngreina þennan eða hinn og hversu mikið ég geti í raun sagt áður en ég fer yfir einhverja ósýnilega línu. Hversu einlæg og hreinskilin get ég raunverulega verið á síðu sem ég veit ekkert hverjir heimsækja....? Eftir hverju erum við bloggarar að sækjast með þessu?

Post jólaþunglyndi!

Já, jólabarnið er lagst í þunglyndi enda er jólunum formlega lokið í dag. Verð að viðurkenna að mér finnst það mjög leiðinlegt og það er svo langt þangað til að næstu jól koma. Skrautið er farið af trjénu, búið að taka aðventukransinn í sundur og tréð er bara eitthvað svo einmanalegt hérna án ljóss og skrauts. Já, ef jólin væru bara aðeins lengri segi ég nú bara fyrir mína parta.

En þó get ég glaðst yfir mörgu! Síðasta einkunnin mín er komin og þetta gekk framar öllum vonum og ég er mjög ánægð. Verð þó að viðurkenna einkannapervertísmann minn og segja að 8,5 í einkunn pirrar mig. Það er næstum því 9 en ekki alveg átta, mitt á milli góðrar einkunnar og frábærrar einkunnar...en eins og ég sagði, þetta er minn einka pervertísmi og ég geri mér alveg grein fyrir því hversu ánægð ég á að vera og ég er það....en maður getur alltaf gert betur og því eru markmið þessarar annar að hækka meðaleinkunina mína!

Annað sem ég get svo líka glaðst yfir, loksins loksins fórum við Arnar og keyptum nýtt rúm!!!! Nú sem aldrei fyrr verður sofið! Við fórum í Svefn og heilsu og fengum þessa líka fínu Nasa dýnu á einungis 80 þúsund krónur en hún átti að kosta 150 þús. Hún er eilítið útlitsgölluð sem angrar okkur ekki þegar lakið er farið yfir og því eru þetta hin mestu kostakaup. Um leið settum við markið á að fjárfesta í svona nasa koddum líka og gott ef að maður reynir ekki að komast í þessar nasa hitastillandi sængur líka svo að heimilið verði algjörlega nasavætt. Ég verð örugglega eins og ný manneskja!

En sumsé, dagar mínir núna fara í að horfa á Dawson's Creek og þar sem þessi ákveðni tími mánaðarins er núna er ég búin að tárast alveg hægri vinstri yfir þessum hroðbjóði! En ég verð að viðurkenna það að það skiptir engu máli hvenær mánaðarins ég dett í svona, við erum eftir allt að tala um manneskju sem grætur reglulega yfir nágrönnum :)

Kveð að sinni.

Wednesday, January 05, 2005

Tölvunörd versus sápunörd

Jæja góðir hálsar... á mér hvílir mikilvægt málefni sem vakið hefur upp ýmsar umræður hjá okkur Arnari. Umræðurnar kvikna sökum þess að mér finnst ég minna virði sem nörd vegna þess að mitt fetish eru gelgjusápuóperur eins og: The O.C. , One Tree Hill, Smallville o.fl. Nú yfir jólahátíðina hef ég svo sökkt mér í að horfa á Dawson's Creek og líður eins og ég sé búin að finna mér minn eiginlega botn hvað varðar þessi mál mín. En sumsé, spurningin sem ég vil spyrja ykkur er þessi: Hvort fær tölvunörd eða sjónvarpsnörd meiri virðingu? Flest ykkar munu nefninlega eflaust segja "tölvunörd" sem mér finnst afar ósanngjarnt og pirrandi en þá sagði Arnar "við vorum samt litnir hornauga í mjög langan tíma og gagnrýndir mikið þangað til fyrir stuttu" sem getur svo sem vel passað... en líkurnar á því að nörd eins og ég muni nokkru sinni hljóta samþykki er afar ólíklegt!

En já, hér með viðurkennist þetta: Þegar fólk spyr mig um áhugamál mín langar mig ávallt til að segja "sjónvarpið" en það hljómar eitthvað svo illa. Þannig að þá verður maður að segja kvikmyndir... það hljómar betur... en það er hrein lygi... mér er alveg sama um bíómyndir. Hálftíma eða klukkutíma þættir eru miklu betri, meiri spenna og það heldur manni betur og lengur við efnið en bíómynd.

Allt þetta hefur samt valdið því að veruleikaskynjun mín er ekki eins og best væri á kosið. Fyrstu skref mín með hinu kyninu eru mörkuð af því að ég var sífellt að sjá fyrir mér sápuóperudrama og varð því þekkt fyrir að eiga "sápuóperulíf" (n.b. varð það álitið af sumum mjög heillandi...minnist bréfs frá norskri stúlku sem ég kynntist á Bene sem vildi lifa lífinu í dramanu mínu) og fyrstu árin í sambandi míns og Arnars litaðist af því að hann gerði mér grein fyrir skilum á milli raunveruleikans og sjónvarpsins. Sjáiði til, ég var ekki með neinar raunhæfar hugmyndir um lífið og tilveruna...langt því frá.

En sumsé... hér með stíg ég út úr skápnum með þessa þráhyggju mína!

Monday, January 03, 2005

Á nýju ári

Partýið tókst ljómandi vel, það var bara vel mætt þó að vinkonur mínar fái skömm í hattinn fyrir að hafa fæstar látið sjá sig. Þó var nóg af fólki og gleði og glaumur fram til átta um morguninn en þá fórum við ansi lúin í rúmið. Nýársdagur var svo tekin í miklum rólegheitum, fórum og borðuðum hjá mömmu og pabba og svo í bíó með Palla og sáum National Treasure sem er bara alltílagi.
Nú er ég bara á fullu að skipuleggja stundaskrá næstu annar!


Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?