Thursday, January 06, 2005

Tilfinningar í bloggheimi

Ég las pistil á blogginu hennar Línu minnar sem mér fannst áhugaverður og ýtir svolítið undir það sem ég hef verið að hugsa síðan ég byrjaði að vafra stefnulaust milli bloggsíðna, bæði hjá fólki sem ég þekki ekki, fólki sem ég kannst við í sjón og svo algjörlega ókunnugu fólki. Lína var að tala um hreinskilni á blogginu sínu og hvað maður sýnir mikið af sjálfum sér, hversu mikið maður leyfir sér að segja og hvað maður lætur ósagt eða segir undir rós!

Finnst ykkur stundum ekki einum of? Ég les ýmiss konar blogg hjá allskonar fólki og er mjög forvitin að eðlisfari. En finnst ykkur eðlilegt að manneskja sem veit ekki hvað þið heitið viti hluti sem venjulega væru eingöngu ætlaðir eyrum hinnar nánustu? Nú les ég reglulega blogg hjá manneskju sem ég kannast eingöngu við í sjón, ég hef aldrei talað við þessa manneskju en finnst hún áhugaverð. En bloggið hennar er alveg ótrúlega væmið, fyllt af ástarjátningum til makans sem og allra annarra verðugra, tilfinningaflóði og flækjum og ýmisskonar vandræðagangi. Ég játa það að manneskjan er mjög hreinskilin og greinilega í góðu sambandi við tilfinningarnar sínar en hvað rekur fólk út í að leggja hlutina svona augljóslega á borðið þrátt fyrir að vera með yfir 200 heimsóknir á dag. Svo erum við með bloggara eins og Betu sem segir frá öllu, en af einhverjum ástæðum truflar það mig ekki því mér finnst einlægnin vera svo miklu minni hjá henni en hinum bloggaranum sem um ræðir. Hvað er það eiginlega sem dregur mig aftur og aftur á þessar síður til að lesa um þetta fólk sem ég þekki ekki neitt?

Og sjálf velti ég alltaf fyrir mér þegar ég er að blogga hvort ég eigi að nafngreina þennan eða hinn og hversu mikið ég geti í raun sagt áður en ég fer yfir einhverja ósýnilega línu. Hversu einlæg og hreinskilin get ég raunverulega verið á síðu sem ég veit ekkert hverjir heimsækja....? Eftir hverju erum við bloggarar að sækjast með þessu?

Comments: Post a Comment

<< Home

Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?