Thursday, July 28, 2005

Hinsta kveðja

Einn kunningji sem var samferða mér í Hagaskóla verður jarðaður á morgun. Hann vakti athygli hvar sem hann fór og ekki manneskja sem maður gleymir auðveldlega. Hann var alltaf ansi áberandi og ég man að þegar við vorum saman í skólanum fannst mér hann svo góðlegur miðað við alla töffarana sem umkringdu hann og voru með honum í bekk. Ég missti sjónar af honum eftir Hagaskóla en sá honum samt alltaf bregða fyrir öðru hvoru hér og þar um bæinn. Þegar að ég sagði mömmu af þessu þekkti hún hann strax því að hann brosti svo fallega. Finnst ofboðslega sorglegt að hann sé farinn jafnvel þó að ég hafi ekki þekkt hann vel en veit að hann hafði átt ofboðslega erfitt og líður því án efa miklu betur þar sem hann er í dag!

Tæming á huganum!

Paris encore une fois

Gleymdi að segja ykkur að við erum búin að festa kaup á tveim miðum til Parísar frá 5 okt til 10 okt. Ætla sumsé að verða 25 ára í París og vonast til að Philippe geti komið frá Cannes og verið með mér..... hef ekki séð hann í tvö ár. Fáum gistingu hjá Gaelle, og Denis er að hugsa um að koma með okkur frá Íslandi ef hann hefur efni á fluginu út. Svo eru Laetitia og Audrey komnar á fullt með Gaelle að skipuleggja einhverja skemmtilega dagskrá handa okkur þannig að þetta verður án efa æðislegt! Flugmiðarnir eru afmælisgjöf til okkar Arnars frá okkur, þ.e. Arnar gefur mér miða og ég gef honu miða "so to speak". Þannig að ég er næstum því að koma út í plús eftir ferðina! Þetta verður samt alveg yndislegt....íbúðin sem við verðum í er hjá Montmartre þannig að það mun ekki væsa um okkur þar. Svo verður gaman að prófa París með yngri kynslóðinni, þó að Gérard sé svo sannarlega alveg ótrúlega ungur í anda...örugglega yngri en ég ef eitthvað er!

En látið ykkur ekki dreyma um að það þýði að það verði engin veisla, það er nú öðru nær. Ég er svo mikil veislukelling að það verður örugglega bæði kaffiboð fyrir nánustu fjölskyldu og svo partý með öllu skemmtilega fólkinu mínu. Stefni á að flytja inn osta í kílóavís frá France og hafa partýið svona osta-rauðvíns partý...ólíkt öðrum partýum hjá mér ;) .

Ég er á fullu að hanna óskalistann fyrir þetta merkisafmæli, ýmislegt sem mann langar í og svona.


Olíugjaldið

Að allt öðru....ég er ótrúlega ósammála þessum mótmælum sem vörubílstjórar eru að skipuleggja. Vissulega er ég sammála um að verð á díselolíu sé út í hróa...það er nákvæmlega engin hvatning til neytandans að nota eldsneyti sem veldur minni umhverfisspjölllum. Ótrúlegt hvað ríkið hefur af manni mikla peninga í gegnum þessa bíla. Við borgum olíuskatta, bifreiðaskatt og vsk. Svo rukkar Bílastæðasjóður 300 000 kr á dag í stöðumælasektir sem gerir fleiri fleiri milljónir á ári sem þeir segja að fari í að byggja bílastæðahús þar sem þeir rukka mann síðan um offjár fyrir að fá að leggja í. Á meðan er Orkuveitan með einkaþjóna í fullu starfi og ég veit ekki hvað. En já, aftur að mótmælunum...það sem ég vildi nú sagt hafa er einfaldlega það að með því að gera þetta svona, missa þeir alla samúð okkar almennu borgaranna. Einfaldlega vegna þess að þessi mótmæli bitna eingöngu á okkur en á engan hátt á þeim sem hlut eiga. Ég myndi miklu frekar loka af alþingi þegar að þau hefja störf svo að ljótu kallarnir komist ekki heim eða einhverju ráðuneytinu. Vissulega mun það ekki hafa áhrif á jafn marga en það hefur þá allavegana áhrif á þá sem máli skipta.

En það verður Arnar greyið einn sem situr í súpunni út af þessu því stjarnan sjálf fer með flugi til að geta sinnt vinnumálum á Akureyri fyrir lokun safna.

Tuesday, July 26, 2005

Þegar að fáir eyðileggja fyrir öllum

Fannst leiðinlegt að lesa um það hvaða stefna hefur verið tekin á Kárahnjúkum. Því miður mun þetta verða til þess að kasta óorði á alla mótmælendur og á samkomuna sem slíka enda hefur tjaldleyfi þeirra verið afturkallað og þeim verið gert að yfirgefa það svæði. Mér fannst þetta stórgott framtak og hefði vel getað hugsað mér að kíkja á hópinn ef ég ætti eitthvað frí til að keyra austur. Hef aldrei séð þetta svæði og mun eflaust ekki sjá það áður en það fer undir vatn. Verð að hugga mig við myndir af þessu.

Annars finnst mér að það ætti að vera ólöglegt að láta fólk vinna í þessari rjómablíðu! Allof fáir svona dagar á ári og því miður rata flestir þeirra á virka daga þar sem ég sit inni á skrifstofu og svitna. Skellti mér samt á Vegamót í hádeginu og borðaði úti, svona rétt að heilsa uppá sólina.


Í gær fór ég út að hjóla. Það var ágætt en fékk samt staðfestingu á því sem ég hef lengi haldið fram. Það er alveg sama í hvaða átt er hjólað, það er bara alltaf mótvindur. Trúði þessu ekki en ég hjólaði þarna út um allt hverfi og í allar höfuðáttirnar og alltaf var blessaði mótvindurinn með mér. Það var nefninlega pínku rok í gær. Ætla að skella mér á fákinn aftur í dag og hendast eftir einhverju lambi í Nóatún til að skella á grillið í kvöld...ætla mér jafnvel að fæða bróður minn sem er ávallt foreldralaus og mikill einstæðingur eftir að settið fluttist búferlum í sveitasetrið.


Ein með öllu á Akureyri um helgina. Flýg á föstudaginn fyrir hádegi og þarf að vinna soldið fyrir norðan, en svo kemur Arnar á bílnum seinni partinn. Ætla að fara og sjá Hjálma loksins á tónleikum, ekki orðin vanþörf á því.

Monday, July 25, 2005

Helgarsögur

Föstudagskvöldið var dásamlegt en þá var mér boðið í stórglæsileg híbýli hans Inga í mat og hvítvín. Hann gerði alveg ótrúlega flott og gott salat fyrir okkur sem ég stælaði síðan handa mér og Arnari á laugardagskvöldinu. Það var með hörpudisk og beikoni mmm.....!
Svo fór ég á Ölstofuna og hitti þar stelpurnar í frönskunni og hann Olivier og þar var aðeins spjallað á frönsku sem var mjög upplífgandi því það er alveg mánuður síðan ég talaði eitthvað af viti. Hann splæsti í glas en þurfti svo bara að yfirgefa svæðið aftur svo ég dró stelpurnar með mér aftur til Inga þar sem hommsurnar voru byrjaðar í Singstar en Arnar var orðinn heldur örvæntingafullur til augnanna. Eftir sull á þeim bæ var svo haldið niður í bæ þar sem ég fékk enn aðra staðfestinguna á því hvað miðbær Reykjavíkur er ömurlegt pleis eftir miðnætti. Raðir fyrir utan alla almennilega staði en þó var lítið af fólki í bænum. Raðirnar ganga svo út á það að maður horfi á eftir svokölluðum VIP kúnnum ganga fram fyrir röðina og inn um hurðina meðan við hin horfum pirruð á. Eftir að hafa horft á það á Kaffibarnum sem ég hef aldrei farið á til að skemmta mér, þá var stefnan tekin á 11una en þar voru bara börn inni og því ekki áhugavert fyrir okkur gamla fólkið. Ég fór þá bara beint á Pizza King í eina sneið og taxa heim!

Yndislegur laugardagur, tekinn á rölti um miðbæinn að degi til, setið á Vegamótum í luxus brunch og bjór á Thorvaldsen. Veit samt ekki alveg hvað gerðist á Austurvelli en þar var búið að dreifa fiskiflökum og hráu kjöti yfir allt grasið og þar innan um sátu svo þrír rónar. Fremur ógeðfellt og í meira lagi undarlegt! ( þá meina ég matvælin en ekki rónana enda voru þeir í rífandi stuði ). Laugardagskvöldið var tekið heima með "Life and death of Peter Sellers" sem sýndi mér það að maðurinn var standandi geðveikur og það sem meira er hreinlega ógeðfelldur og illa innrættur. Veit ekki hvort mér finnist Clouseau verri fyrir vikið.

Sunnudagurinn var svo bara tekin heima fyrir að mestu, skellti mér reyndar í Ikea að eyða peningum...keypti mér stórkostlegan kokteilhristara og þarf nú bara að fara í fjárfestingar í ríkinu til að koma honum í gagnið.

Að lokum, skellti mér í strætó á laugardaginn og skil ekki hvað fólk er að kvarta. Í fyrsta lagi var ókeypis út af þessu nýja leiðarkerfi og í öðru lagi var þetta ekkert mál, beið í nokkrar mínútur fyrir utan heima og komst heil á höldnu á áfangastað á skömmum tíma.

Friday, July 22, 2005

Emilíana

Held að ég sé bara nett skotin í stelpunni. Hún var alveg frábær. Ekki bara söng hún yndislega heldur var hún alveg ótrúlega skemmtileg og reytti af sér brandara milli laga. Hún var hlédræg og alls ekkert upptekin af sjálfri sér, sagði fyndnar sögur af sér og hafði frábæran húmor. Virkaði ótrúlega einlæg og salurinn var allur upprifinn af henni.

Hún tók nú aðallega lög af nýju plötunni en læddi inn á milli eldri lögum og sagði skemmtilegar sögur af því hvernig lögin urðu til og enduðu á plötum hjá henni. Mörg þeirra voru tileinkuð einhverjum íslenskum vinkonum og stundum sem hún átti með þeim sem mér fannst líka alveg ótrúlega skemmtilegt.

Þetta voru bara með skemmtilegri tónleikum sem ég hef farið á og ekki skemmdi að vera á alveg við hliðina á sviðinu.

Eini svarti bletturinn á þessu frábæra kvöldi var fíflið sem stóð fyrir framan mig og lék "Palli var einn í heiminum". Í fyrsta lagi tróð hann sér fyrir framan mig ásamt ósvo ófríðu föruneyti og svo gat hann ekki staðið kyrr heldur var sífellt að breyta um staðsetningu. Hann var töluvert hærri en ég þannig að þegar að hann færði sig, þá missti ég alla sýn á sviðið og allir í kring þurftu að endurhanna sig til að sjá eitthvað, gægjast yfir axlirnar á honum eða á milli handanna á honum. Leiðist svona fólk sem er algjörlega oblivious fyrir því að það vilja allir sjá...til þess komum við þarna og að hann var höfðinu hærri en allir aðrir þarna. Uss uss. Pirringurinn vaknar alveg rosalega við að rifja þetta upp þannig að ég læt staðar numið hér.

Í kveld er það Ölstofan ásamt fríðu föruneyti eða meðnemendum mínum í HÍ. Við ætlum að hittast í nokkra öl, og kveðja einn ágætan mann sem reynst hefur Gallíu afskaplega vel þó að hann hafi ekki verið besti kennari í heimi.

Thursday, July 21, 2005

Framhjáhöld fræga fólksins

Það er bara eins og enginn maður hafi haldið framhjá áður en Jude Law gerði það með barnfóstru sinni. Umfjöllunin um málið er ótrúleg og hann málaður sem algjör skratti fyrir þetta feilspor sitt sem hann þó hefur nægan karldóm til að viðurkenna.

Ekki það að það sé í lagi að halda framhjá, en það kemur bara fyrir hjá fleirum en Jude Law að stíga feilspor og því engin ástæða til að rífa hann svona í sig í fjölmiðlunum....allavegana ekki að mínu mati!



En yfir í annað mun skemmtilegra...Emilíana Torrini í kvöld....hef aldrei heyrt í henni live og hlakka mikið til að vera á tónleikunum hennar. Þeir verða á Nasa...spurning um að mæta á skikkanlegum tíma og reyna að fá borð...alltaf notalegra þegar um svona rólega tónlist er að ræða.

Segi ykkur frá tónleikunum síðar.


p.s. Og enn og aftur er allt orðið vitlaust í Bretlandi...þeir fá bara engan frið greyin.

Monday, July 18, 2005

Í sveitinni

Jæja, við erum í Skorradalnum hjá mömmu og pabba, vorum hér í nótt. Um helgina vorum við hinsvegar á Sveitahótelinu Sveinbjarnargerði, rétt utan við Akureyri í mjög góðu yfirlæti. Norðurland er ótrúlega heillandi svæð finnst mér og við fengum líka svo frábært veður þegar við vorum að keyra norður að útsýnið var frábært.

Ýmislegt var brallað á Norðurlandinu, við spiluðum krikket og ég rústaði pabba sem var mikilvægur sigur í lífsgöngunni. Svo var borðað á Akureyri þar sem Valdimar vann 500 kall af Agli fyrir það að hlaupa tröppurnar upp að kirkjunni á mettíma eða 52 sekúndum. Við spiluðum Carcassonne af miklum eldmóð en það er algjört snilldarspil sem passar einmitt vel fyrir alla fjölskylduna. Svo var verslað smá á Akureyri, rölt þar um í búðunum og ég fann brúðargjöfina mína en bíð bara eftir bónorðinu. Það er nefninlega lítil Spútnik búð á Akureyri, og þar er líka antik. Þar inni var sumsé eldgamalt stell sem kom innan úr sveitinni víst og kostaði heilar 60 þúsund krónur en var alveg gullfallegt og mig dreymir enn um það. Spurning hvort þeir taki Visa rað, skoða þetta betur þegar ég fer norður um verslunarmannahelgina. Svo var keyrt eftir öllum Eyjafirðinum og heimsótt býlið Grund en þar var ég fastagestur í fjósi þegar ég var krakki. Þar hittum við hunda og hesta sem fengu bestu máltíð ævi sinnar, roast beef, hangikjet og brauð. Svo var Safnasafnið heimsótt sem er stórglæsilegt með frábærum garði sem ég og uppáhaldsfrændinn löbbuðum þveran og endilangan með afanum. Meira Carcassonne og meiri subbumatur. Og svo enduðum við sumsé hér í Skorradalnum. Fór á videóleigu á Hyrnunni í gær og leigði þrjár heilar myndir en tvær voru óáhorfanlegar með öllu. Ein heitir Suspect Zero og var það slöpp að við kláruðum ekki hálfa mynd. Eftir það var horft á mynd með Ryan Philippe sem heitir The I Inside sem var ekki góð og skildi mann eftir frekar pirraðan. Og svo sofnaði ég yfir The Terminal sem var þó án efa sú skársta af þremur. Las Alkemistann eftir Coelho sem var algjör snilld.

Þannig að ýmsilegt hefur verið afrekað um helgina en aðallega var þetta fjölskyldutími sem er nauðsynlegur inná milli til að endurhlaða batteríin. Svo er bara brunað í bæinn í kvöld þegar við höfum gúffað í okkur lambalærinu hennar mömmu.

Friday, July 15, 2005

Hræsnin á sér engin takmörk

Gott og vel, í gær var þagað í 2 mínútur víðsvegar í Evrópu vegna þeirra manna sem létust í Bretlandi.

Á sama tíma er birt ein frétt um stórslys í Pakistan þar sem 150 manns láta lífið í lestarslysi. Ekki höfum við þögn til að minnast þeirra. Nei, við gleymum þeim bara. Í dag á mbl er frétt um það að þessir 150 manns verði grafðir í ómerktum gröfum! Ég efast um að það verði örlög þeirra sem létust í Bretlandi.


Ekki það að ég vilji á nokkurn hátt óvirða þá sem létu lífið í Bretlandi. Það er að sjálfsögðu hrikalegt en mér finnst að vekja þurfi athygli að það séu fleiri sem deyja víðsvegar um heiminn við ýmiss konar hræðilegar kringumstæður án þess að við setjum samúðarapparatið af stað.

Eyðum meiri tíma í að votta þjóðum utan Vestrænu þjóðanna samúð okkar. Óli ætti að senda samúðarkveðjur til Pakistan og Dóri Ásgríms líka.

Thursday, July 14, 2005

Myndir

Hæhó

Myndir úr útilegunni frá Árnesi má sjá hér! Góða skemmtun!

Tuesday, July 12, 2005

Tónlistarsmekk að láni

Vantar ráð. Finnst ég vera með frekar einhæfan tónlistarsmekk og væri til í að ráða bætur á því hið snarasta. Veit hinsvegar ekkert hvar ég á að byrja og leita því ráða til ykkar, ef þið ættuð að nefna tvö nöfn á tónlistarmönnum sem þið haldið að ég fílið, hver væru þau? Lofa að gefa því sjéns og hlusta á það, þó það sé ekki nema einu sinni!



Annars verður haldið norður í land um helgina í von um að þar sjáist til sólar. Ég er uppfull af veður þunglyndi eftir langan snjómikinn vetur og rigningaglatt sumar. Skil vel að allstaðar sé uppselt í ferðir í sólina. Fékk sjálf tilboð til Prag sem vakti upp draumórana en þetta verður að bíða betri tíma og meira fjármagns...Norðurlandið verður bara að standa undir nafni!


Keyptum spil í Nexus í dag og settum biðpöntun á annað sem var uppselt hjá þeim og Magna. Spilið sem við keyptum heitir Carcassonne og ég hlakka til að rústa karli föður mínum í því um helgina til að hefna fyrir slæma ósigra í æsku! Hitt spilið sem við bíðum eftir og verður vonandi komið fyrir verslunarmannahelgina heitir Citadels og er algjör snilld. Kostar ekki neitt, 1995 kr og er alveg frábært!

Er annars alveg ótrúlega södd eftir að hafa verið í handsprengjum hjá tengdó! * Minnti mig á gömlu góðu dagana þegar maður borðaði kjötbollur í káli með bráðnuðu smjöri...mmmm!


* Kjötbollur í brúnni sósu með sultu og kartöflumús...mmmm!!!!

Monday, July 11, 2005

Blóðbað

Í sumar hef ég verið frekar öflug við að fara í bíó, er búin að fara og sjá allar þessar stóru myndir sem verið er að sýna.

Í gær fór ég á Sin City. Ótrúlega flott gerð mynd og fín pæling. En ég var alveg ótrúlega fegin að hún væri í svarthvítu því blóðbaðið var slíkt að ég hefði ekki lagt í að sjá hana í lit. Leikurinn var frábær og gaman að sjá hvern stórleikinn á fætur öðrum í þessum senum. Bruce-inn var bara hress að vanda, mér finnst hann nú alltaf lúmskt flottur.

Nóttin var hinsvegar erfið því ég tók þetta blóðbað með mér í svefninn og dreymdi mannætur og annað fínerí! Uss uss...


Önnur mynd sem ég sá er War of the Worlds.

Önnur stórmynd, önnur stór sýning. Mikið af special effects og flottar tökur. Pælingin ágæt og hefði eflaust mátt gera enn meiri stórmynd úr þessu en raun varð. Ótrúlegt að þeir hafi borgað Cruise pening fyrir þetta, ég hef aldrei séð hann jafn slappan og í raun var karakterinn hans mjög óáhugaverður og ósympatískur. Litla stelpan gerði lítið annað en að öskra og samtals voru kannski sagðar svona 15 setningar ( fyrir utan sögumanninn). Mér fannst nenfninlega vanta meiri sögu í þetta. Þetta voru bara sprengingar og einhverjar ljótar geimverur að hlaupa út um allt.

Þá fannst mér Sin City betri!

En ótrúlega gaman að fara í bíó, enginn sem svaraði í símann, enginn sem talaði alla myndina í gegn, þetta gekk bara yfir höfuð mjög vel og gaman að fá popp og kók! Stefni á að fara bara meira í bíó í sumar enda fleiri myndir á leiðinni sem mig langar alveg að sjá.

Sunday, July 10, 2005

Hlutirnir breytast og mennirnir með

Fór í innfluttningspartý í gær hjá góðum vini. Fengum þar fréttir af öðru fólki sem áður voru góðir vinir okkar en í dag eru kannski bara kunningjar.

Ótrúlegt hvað hlutirnir geta breyst, meira að segja hjá fólki sem maður á síst von á því hjá.

Uppáhalds vinur minn er að verða pabbi. Við sungum saman Lionel Ritchie á karíókíbar niðri í bæ eftir mitt víðfræga fancy matarboð þar sem Vopni sæti eldaði nautasteik ofaní mannskapinn. Allir voru klæddir upp í sitt fínasta púss og ég held að ég gleymi þessi kvöldi aldrei. Þetta var svona substitute tvítugs afmælis partý með ótrúlegum gestum. Ég man að kvöldinu lauk þannig að undir morgun fundust rósir við dyrnar heima sem voru frá ungum manni sem átti heima á hæðinni fyrir neðan. Ef ég man rétt, þá fór það vel í taugarnar á karli föður mínum, þó að ég hafi aldrei almennilega skilið afhverju. Greyið vorkenndi mér og Herborgu bara svo hryllilega mikið því okkur hafði aldrei verið gefið blóm af karlmanni og honum fannst hann þurfa að bæta okkur það! Mjög sweet frá svona feimnum manni!

Aðrir frá þessu fína tímabili hafa heldur betur breytt um gír líka, þar með talin erum auðvitað ég og Arnar en finnst bara fyndnast þegar að það er fólkið sem maður átti aldrei von á að myndi breytast. Ég vissi alltaf að þetta væri bara tímabil og tæki enda.

En svo er líka sorglegt hvað aðrir frá þessu tímabili hafa lítið breyst, sérstaklega þegar að þeir þurftu virkilega á því að halda. Rakst á tvo þeirra á föstudagsmorgni að koma frá því að kaupa bakkelsi fyrir vinnuna en þá stóðu þeir þar nálægt vel í glasi og greinilega ekki enn búnir að meika það í háttinn eftir fimmtudagsdjammið og klukkan var níu á föstudagsmorgni.

En já....til hamingju Hinrik með að eiga von á barni.....megi hún heita Sif!

Friday, July 08, 2005

Hroki og hleypidómar

Sá frétt á mbl áðan sem vakti athygli mína. Það var svo sem ekki textinn sjálfur heldur myndin. Danskir lögreglumenn við eftirlit á lestarstöð og hverjir eru það sem þeir eruð að skoða. Ekki sést einn "Dani" heldur eru þetta allt menn af erlendu bergi brotnir, "íslamskir" í útliti.

Ekki myndi ég vilja vera af múslimsku bergi brotnu þessa dagana.

Hræsnin í "Vestrænum" þjóðum

Spurði Arnar í gær í sakleysi mínu hvort hann ætlaði niður á Austurvöll til að sýna samstöðu með Bretum vegna þessara hörmunga sem áttu sér stað í London í gær. Hann var fljótur til svars og spurði hvort að það hefði verið haldins slík samkoma nýlega vegna þeirra sem daglega láta lífið í svona árásum í Írak, Palestínu eða öðrum löndum? Og svo ekki sé minnst á þá sem láta lífið við hörmulegar aðstæður á degi hverjum í Afríku. Hann sagði að svona samkoma væri ekkert nema hræsni.


Fór að velta þessu svolítið fyrir mér og vissulega er samkoman af því góða, en afhverju sýnum við ekki slíkan samhug eða fjöllum um af eins miklum mætti og hefur verið gert um London, um hamfarirnar sem eiga sér stað á degi hverjum út um allt í heiminum. Hversu margir deyja á degi hverjum af völdum eyðni í Afríku, eða Malaríu. Hversu margir deyja þar í borgarstyrjöldum og öðru.

Og þó okkur sé kannski ekki sama, þá erum við ónæm. Það snertir okkur ekki jafn mikið og fyllir okkur ekki jafn miklum hryllingi og þegar að sprengjur springa í hinum Vestræna heimi og drepa 37 manns sem er þó mun minna en gerist á degi hverjum í Afríku, og hægt væri að stoppa.


Já....þetta er skrítin veröld!

Thursday, July 07, 2005

London baby yeah

Mikið er maður feginn að vera ekki í London í dag og þekkja engan sem er þar.

Er búin að fylgjast með fréttum frá því í morgun og þeim ber nú ekki saman af neinu viti enn sem komið er en þó er talið öruggt að 45 séu látnir og 1000 manns sárir. Eins og með NY árásina, þá kemur það mér á óvart að það séu ekki fleiri. Árásirnar voru það stórar að maður hefði talið að fleiri gætu talist sárir.

Get ekki sagt að þetta komi mér á óvart. Fljótlega eftir innrásina í Írak fór ég til London og ég man eftir að hafa hugsað þetta þá, hvort það kæmi ekki eitthvað þar fyrr en síðar. Það varð reyndar síðar en þeir völdu sér áhugaverða dagsetningu út af þessum fundi í Edinborg. Svo voru þeir "heppnir" að fá aukna umfjöllun út af ákvöruninni í Singapore í gær um Ólympíuleikana.


Já, við vorum að tala um það hérna í vinnunni að ef Björn Bjarna hefði fengið sínu fram og getað búið til ísl. her, þá værum við eflaust meira skotmark í dag en við raunverulega erum.



En yfir í allt annað: Ég horfði á endursýningu af Silvíu Nótt í gær og hún er ótrúlega frábær...grenjanði úr hlátri. Skil ekki hvernig hún heldur karakter allan þennan tíma...ég gæti það eflaust ekki. Hún var einmitt í Laugum að tala við einkaþjálfara og Bjössa í Worldclass og mér fannst ótrúlega flott element að taka viðtal við hann á hestbaki á honum. Meira ruglið!

Monday, July 04, 2005

ÁTVR

Sá auglýst eftir umsækjendum fyrir stöðu Forstjóra ÁTVR.

Hef ákveðið að sækja um og bera við "viðamikilli þekkingu á vörunni " . Finnst að það ætti að gera mig vel hæfa í stöðuna og vonast til að fá jákvætt svar!

Friday, July 01, 2005

Helgarvaktin

Á leið í Árnes. Veðurspáin tekið miklum breytingum undanfarnar klukkustundur en þetta virðist ætla að vera alltílagi. Er annars búin að fjárfesta í miklum og góðum regnponcho og því ekki hætta á því að maður vökni. Arnar fékk líka regngalla á útsölu í Útilíf og því allt í orden.

Dressaði mig svo bara upp í Rúmfatalagernum, ein flíspeysa á 490 krónur og önnur á rétt um 1000 kall. Ekki amalegt.

Er komin í sparnaðarmódið....Visa Ísland hatar mig og mína og því þarf ég að setja í sparigírinn minn ( hef ekki enn fundið hann á gírskiptingunni ) ef ég ætla að þykjast fara til Parísar í haust. Fjárframlög eru vel þegin btw.

Hugsa ekki um annað en útlönd, held að það sé veðrið!


Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?