Monday, July 25, 2005

Helgarsögur

Föstudagskvöldið var dásamlegt en þá var mér boðið í stórglæsileg híbýli hans Inga í mat og hvítvín. Hann gerði alveg ótrúlega flott og gott salat fyrir okkur sem ég stælaði síðan handa mér og Arnari á laugardagskvöldinu. Það var með hörpudisk og beikoni mmm.....!
Svo fór ég á Ölstofuna og hitti þar stelpurnar í frönskunni og hann Olivier og þar var aðeins spjallað á frönsku sem var mjög upplífgandi því það er alveg mánuður síðan ég talaði eitthvað af viti. Hann splæsti í glas en þurfti svo bara að yfirgefa svæðið aftur svo ég dró stelpurnar með mér aftur til Inga þar sem hommsurnar voru byrjaðar í Singstar en Arnar var orðinn heldur örvæntingafullur til augnanna. Eftir sull á þeim bæ var svo haldið niður í bæ þar sem ég fékk enn aðra staðfestinguna á því hvað miðbær Reykjavíkur er ömurlegt pleis eftir miðnætti. Raðir fyrir utan alla almennilega staði en þó var lítið af fólki í bænum. Raðirnar ganga svo út á það að maður horfi á eftir svokölluðum VIP kúnnum ganga fram fyrir röðina og inn um hurðina meðan við hin horfum pirruð á. Eftir að hafa horft á það á Kaffibarnum sem ég hef aldrei farið á til að skemmta mér, þá var stefnan tekin á 11una en þar voru bara börn inni og því ekki áhugavert fyrir okkur gamla fólkið. Ég fór þá bara beint á Pizza King í eina sneið og taxa heim!

Yndislegur laugardagur, tekinn á rölti um miðbæinn að degi til, setið á Vegamótum í luxus brunch og bjór á Thorvaldsen. Veit samt ekki alveg hvað gerðist á Austurvelli en þar var búið að dreifa fiskiflökum og hráu kjöti yfir allt grasið og þar innan um sátu svo þrír rónar. Fremur ógeðfellt og í meira lagi undarlegt! ( þá meina ég matvælin en ekki rónana enda voru þeir í rífandi stuði ). Laugardagskvöldið var tekið heima með "Life and death of Peter Sellers" sem sýndi mér það að maðurinn var standandi geðveikur og það sem meira er hreinlega ógeðfelldur og illa innrættur. Veit ekki hvort mér finnist Clouseau verri fyrir vikið.

Sunnudagurinn var svo bara tekin heima fyrir að mestu, skellti mér reyndar í Ikea að eyða peningum...keypti mér stórkostlegan kokteilhristara og þarf nú bara að fara í fjárfestingar í ríkinu til að koma honum í gagnið.

Að lokum, skellti mér í strætó á laugardaginn og skil ekki hvað fólk er að kvarta. Í fyrsta lagi var ókeypis út af þessu nýja leiðarkerfi og í öðru lagi var þetta ekkert mál, beið í nokkrar mínútur fyrir utan heima og komst heil á höldnu á áfangastað á skömmum tíma.

Comments: Post a Comment

<< Home

Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?