Saturday, October 29, 2005

Mágur minn

Fengum hann lánaðann í nótt. Hann er 5 að verða 6. Ég sótti hann í brjálaða veðrinu á jeppanum hans pabba. Börn eru dásamleg. Hann fékk Madagaskar pez kall og það var mikið ánægjuefni. Elska einfaldleikann í börnum. Hann lék sér hérna með einhvern prinsessusprota sem ég fékk í afmælisgjöf og svo hárkamb. Horfði á meðan á Bionicles 3 á útlensku sko! Aljgör gæji!

Kannski fæ ég litla frænda minn lánaðan í nótt...ef mamma treystir sér ekki að vera með hann því hún er lasinn. Hann er að fara að eignast systkini. Það er orðið opinbert, stóri bróðir á von á barni nr 2, mágkona er sett á afmælisdag pabba og ég kalla barnið Jóhönnu Sif :) Við höldum nefninlega að þetta sé stelpa.


Og fyrirlesturinn gekk svona líka vel, stóð fyrir svörum í klst um kennslumálefni Frakklands, fékk mikið hrós og náði að involvera samnemendur mína með einum eða öðrum hætti og svo auðvitað kennarann líka því hann er jú eini frakkinn í bekknum.

Heimsótti blómaval í dag og eyddi peningum. Kaupa nokkur blóm til að lyfta upp á myrkrið, orkídeu og bonzai tré og svo einn nóvember kaktus. Hversu lengi verð ég að stúta þessum blómum?


Og heilsuátakið hefur dugað nú í næstum 2 vikur, enginn sykur, ekkert hvítt hveiti, engar kartöflur, ekkert gos...meira að segja ekki mitt heittelskaða COCA LIGHT. Er nú bara nokkuð hress, farin að spjalla við fólk í heilsubúðum um ristilinn á mér en það er nokkuð sem heilsufrík ræða af miklum krafti. Hefði aldrei grunað að fólk væri svona út úr skápnum með ristlana sína. Þetta þykir spennandi umræðuefni, hvaða hreinsun fólk valdi sér og hvort það sé með viðkvæma ristla eða ekki. Ég roðna nú ennþá við að tala um þetta enda ristilumræður bara umræður um kúk. Enda er ég kölluð tepra af þeim sem þekkja mig smá. Ég fíla ekki orð eins og píka og ríða og verð vandræðaleg þegar að fólk vill endilega ræða við mig um þessi mál sín. Sem gerir það auðvitað meira spennandi að ræða það við mig.


Jæja, best að hætta þessu blaðri. Ég er að lesa Mélusine. Mélusine er álfkona eða svona díabólísk vera frá miðöldum. Hún giftist manni og sest að í mannheimum en örlög hennar verða alltaf slík að maðurinn kemst að raun um halann hennar eða aðra hluti ( látum vera að hann hafi ekki komist að því þegar að hún getur af sér börn með þrjú augu ) og þá hrynur þeirra heimsveldi sem þau byggja upp á visku hennar og hæfileikum einum saman. Kvenfyrirlitning finnst mér nú lítil í Mélusine, þó hún sé díabólísk þá er hún andskoti snjöll! Bein tenging auðvitað þar á milli á Miðöldum ;)

Thursday, October 27, 2005

Í sturtu

Ég vaknaði kl 7. Fór í sturtu og flutti fyrirlestur í henni fyrir sjálfa mig á frönsku. Falin myndavél hefði vakið mikla lukku er ég viss um, að þvo á mér hárið á meðan að ég segi "Bonjour, je m'appelle Sif et aujourd'hui je vais parler de l'enseignement en France, on va regarder un peu le structure...." sem útleggst á íslensku sem svo: "Ég heiti Sif og í dag ætla ég að segja ykkur frá skóla og kennsukerfinu í Frakklandi, við ætlum að skoða uppbygginguna...."

Eins gott að Arnar var sofandi.

Vaknaði upp við drauminn um að stæði fyrir framan nemendurna og væri að tala ofboðslega flotta frönsku og það gengi vel, en ég hafði óvart byrjað að tala um tónlist, einhverja hljómsveit, í staðinn fyrir skólakerfið. Var að reyna að finna lausn á því hvernig ég myndi snúa mig úr þessu og komast til baka í umræðurnar sem ég átti að vera með. Úff!

Þar á undan vaknaði ég því að mér fannst eins og að vekjaraklukkan væri búin að hringja og mig var að dreyma að ég væri að snooza en þyrfti að fara að koma mér fram úr svo ég gerði það kl 06 en áttaði mig svo á því að það hafði engin klukka hringt. Þetta er farið að koma oft fyrir mig!

Og já, ég er stressuð. Ég er að leika kennarann minn í dag. Á að tala alveg heillengi en hann miðar allavegana við hálftíma, guð gefi að það verði svarað spurningunum mínum og ég geti virkjað samnemendur mína því það var eitt af því sem ég átti að gera, fá þá til að vera með í umræðum en ekki flytja einfaldan fyrirlestur. Mamma mía!

Sunday, October 23, 2005

Rushes

Airwaves búið, eða svo gott sem. Skilst að það séu einhverjar leifar í kvöld en ætla að láta þetta gott heita og sinna skólanum og heimilinu í kveld.

Þetta var ansi ljúf hátíð, gerði þetta svona hægt og hljótt, datt ekki í það með öllum hinum en hypaði mig upp af þremur expressó bollum á föstudagskvöldinu. Það hélt mér í gírnum. Sá skemmtilegar hljómsveitir. Apparat Organ Quartet, Stórsveit Nick Noltes, Unsound, Au Revoir Simone, Jeff Who, Helga Val, Idis, Láru og Rushes. Ætlaði að sjá Juliette og Hjálma en raðirnar bjóða ekki upp á það. Sendi hér með kvörtun mína út í netheima um það hversu margir miðar voru seldir, og hversu margar raðir voru allan tímann. Ef maður komst inn þá gat maður ekkert flakkað á milli staða því að þá lenti maður í röðum sem hreyfðust ekki neitt. Fattaði það þegar að ég gaf mér 40 mín fyrir röðina á Juliette en þegar að hún var að byrja var ég ekki komin hálfa leið inn og löng röð komin meira að segja VIP megin. Sneri við á Nasa en þar var auðvitað jafn löng röð og því varð maður hreinlega frá að snúa. Soldið svekkelsi.

Uppáhalds hljómsveitin er Rushes, komu á óvart og það var lítill breskur Kristján Blöndal sem spilar á píanóið í þeirri grúppu. Líkindin eru ótrúleg. Þetta var æðislega notalegt kvöld á Þjóðleikhúskjallaranum, sæti við borð við sviðið og hægt að njóta þess að hlusta á góða söngvara. Kvöldið byrjaði á Halleluja í flutningi Helga Vals sem sendi gæsahúð niður eftir bakinu og endaði á Rushes sem fékk mig til að dilla tánum.


Notalegur sunnudagur, tiltektir, lærdómur og sjónvarpsgláp. Eldaði grænmetissúpu handa mér og Arnari, full af engifer og hvítlauk til að gefa okkur kraft fyrir vikuna og sit nú í kertaljósi yfir lærdómi, er að stúdera franska menntaveginn því ég ætla að fræða meðstúdentínur mínar um það því kennarinn minn nennir ekki að þenja raddböndin í næsta tíma. Hann er einn af þessum meðvituðu kennurum sem vill ekki vera einræðisherra og vill alls ekki skapa of mikið af bóklegu umhverfi. Hann er hrifnastur af svona litlum umræðum, leikritum og talar mikið um að setja hlutina á svið. Mjög fyndinn og ég bauð mig fram því hann er krútt og ég er meðvirk!

Friday, October 21, 2005

Íslenskar loftbylgjur

Fór á Appart í gær í Hafnarhúsinu. Apparat var miklu þyngri en ég hélt að þeir væru, fílaði eiginlega bara tvö lög af þeim 5 sem þeir spiluðu en það var gaman að vera þarna, flottur tónleikastaður. Svo er svo ótrúlega gaman að skoða fólk.

Er að fara í útgáfuboð og svo meira Airwaves, ætla nú að reyna að vera duglegari í kvöld, er ekki búin að sjá marga tónleika!

Thursday, October 20, 2005

Ævintýri

Að borða á Svjávarkjallaranum er eins og að upplifa lítið ævintýri. Við fengum Chefs menu, bland ýmissa rétta á borðið og þvílíkt og annað eins! Í gær smakkaði ég kengúru og dúfu ásamt ýmsu öðru. Kengúran kom í salati sem lá í skál ofan á þurrís sem gerði svona gufu frá sér, ótrúlegt alveg. Réttirnir voru hver öðrum betri, sashimi, lax, humar o.s.fr. Allt borið fram á mismunandi diskum í mismunandi lögum með mismunandi sósum og þetta var bara svo mikil snilld. Var hálf leið því að Arnar gat ekki komið með en við förum aftur, ekki spurning!


Minna ævintýri er að fara á Iceland Airwaves. Fyrsta lagi, hvað kom fyrir fólk? Það eru allir svo rosalegar týpur eitthvað að þau eru öll eins. Sá 15 stráka með eins hárgreiðslu og stelpurnar alltaf í eins skóm. Ekki það, ógeðslega smart en þetta var eiginlega eins og að vera á tískusýningu frá Spútnik. En svo var löng röð fyrir utan alla staðina þannig að við ákváðum að vera bara á Nasa þar til Annie byrjaði sem var auðvitað afspyrnuslæm ákvörðun þar sem það var eitthvað elektró í gangi þar. Ég veit að það heitir elektró því ég spurði Arnar, ég hef tilhneigingu til að kalla alla svona tölvutæknitónlist teknó. Það er í mínum huga það versta sem hægt er að segja, að kalla tónlist teknó en fólkið í kring var heldur betur að fíla þetta, sumir dönsuðu, aðrir sögðu að þetta væri snilld. Tók það sem merki um elli mína. Allavegana þá gáfumst við upp á biðinni eftir Annie minni og fórum heim. Synd og skömm því ég hefði virkilega viljað sjá hana.

Wednesday, October 19, 2005

Jóla hvað?

Ójá, jólaskreytingarnar eru að koma upp, jólaskrautið komið til sölu í búðunum og nú vantar ekki nema að bíða ca 66 daga og þá koma loksins jólin. Sjibbý.
Nema hvað, það hættir að hljóma spennandi þegar ég hugsa um allt það sem ég þarf að gera áður en þau koma, þá fyllist ég ótta og vona að tíminn líði eins hægt og mögulega er!
Afhverju vildi ég endilega vinna og vera í fullu námi og sjá um nemendafélagið? Afhverju gat ég ekki reynt að vera raunsæ einu sinni og kveikja á perunni með það að Súperman er ekki til í alvörunni? Æjá, svona er þetta bara stundum. Einn daginn langar mig til að vera bara að vinna og hinn langar mig til að mennta mig í mörg mörg ár. Til að fá það besta af báðu ákvað ég auðvitað að það væri lógískt að taka bara bæði í einu en það gerir það helmingi erfiðara að njóta. Tuði lokið!


Í aften er það Sjávarkjallarinn í góðum og gáfuðum félagsskap. Svo skal haldið á upphaf Airwaves, ætla að reyna að þrauka til miðnættis og sjá þá Annie frá Noregi.....finnst hún hljóma mjög svo spennandi.

Umræður glæpasagnahöfunda fimmtudagskvöld kl. 20.00

Í tilefni af heimsókn norska rithöfundarins Tom Egelands, höfundar spennubókarinnar Við enda hringsins, sem er nýkomin út hjá JPV útgáfu efna JPV Útgáfa, Hið íslenska Glæpafélag og Penninn – Eymundsson til umræðna um glæpi og glæpasögur í Pennanum-Eymundsson,

Austurstræti, fimmtudagskvöldið 20. október kl. 20.00.

Þátttakendur eru:

Tom Egeland

Árni Þórarinsson

Þráinn Bertelsson

Súsanna Svavarsdóttir


Katrín Jakobsdóttir stýrir umræðunum.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.
-----------------

ALLIR MÆTA
http://www.jpv.is/index.php?page=1&post=1374


Thursday, October 13, 2005

Undarleg vika sem er að líða undir lok. Er búin að vera að halda fast í litla skýið sem ég hef setið á eftir Parísarferðina. Hef ekki viljað setja tána einu sinni út fyrir það en þó er brýn þörf. Alvara lífsins er svo sannarlega tekin við, nóg að gera í vinnu og skóla.

Hlakka til að hitta allt skemmtilega fólkið annað kvöld. Fór í Ríkið áðan með afmælisbarni dagsins og fjárfesti í efnivið í bollu. Minnið mig á það afhverju áfengi er svona dýrt á Íslandi? Getur einhver útskýrt fyrir mér afhverju flaska af Smirnoff kostar 1.690 kr á flugvellinum en heilar 4.180 kr í ÁTVR? Ég tek svo lítið eftir þessu því ég er alltaf í bjórnum, kaupi eiginlega aldrei sterkt og bjórinn er alveg á þolanlegu verði en það er meiriháttar fjárfesting að kaupa flösku.

Ætla að fara og brjóta saman þvott.

Monday, October 10, 2005

Quel bonheur!

Komin heim eftir algjörlega frábæra ferð. Veit ekki hvar ég á að byrja að segja ykkur frá henni.

Þrátt fyrir að búa inni á einhverjum var þetta ótrúlega rómantískt og yndislegt í alla staði. Gaelle tók á móti okkur af meiri gestrisni en ég hef kynnst, lá á vindsæng en lét okkur fá rúmið sitt, hitaði morgunkaffi og labbaði með okkur út um allt, kynnti okkur fyrir vinum sínum og allt hitt.

Fórum á frábært Dalí safn, skoðuðum beinahrúgur í les Catacombes og heimsóttum Morrison í Pere Lachaise. Borðaði froskalappir og snigla, hvern ostinn á fætur öðrum og tæmdi nokkrar flöskur af rauðvíni og KIR. Skálaði fyrir afmælinu mínu og fékk endalausar hamingjuóskir og söngva og meira að segja partý. Hitti stelpurnar úr frönskunni í partý og á bar og út að borða og hitti líka Audrey sem er nú soldið skrítin skrúfa en ekki orð um það meir.

Eyddi fullt af peningum og kom heim með 50 kíló en fór út með 20. Geri aðrir betur á fimm dögum. Arnar safnaði stjörnum í kladdann alla ferðina og held að allar stelpurnar vilji stela honum af mér eftir að hafa séð hvernig hann dekrar við mig. Það var allavegana reynt. Hann fór með mig í H og M og beið í meir en klst , sótti croissant á morgnanna, knúsaði mig og kyssti og var bara yndislegur eins og honum er einum lagið.

Kom heim með allskonar fínerí, skinkur, pylsur, súkkulaði og osta sem borið skal á borð næsta föstudag en þá er afmælispartý. Þér er boðið!

Tuesday, October 04, 2005

Kanínan mín!

Fjölskylduboðið gekk alveg ótrúlega vel, veitingarnar voru á við fermingarveislu var mér tjáð sem er ágætt. Best hefði verið ef ég hefði getað eignað mér allan heiðurinn en ég fékk mikla hjálp frá góðu fólki.

Spá í að halda stórafmæli á hverju ári, maður græðir svo mikið á því ;)

Ég fékk skrifborðið góða sem var á óskalistanum og kanínuskinn um hálsinn frá mömmu og pabba. Hef aldrei áður átt neitt svona ekta og ætla héðan í frá að forðast alla sem eru með málningu. Skinnið góða fær þann heiður að fylgja mér í Opera Garnier, Óperuna í París en þangað förum við á afmælinu mínu.

Ég fékk líka mynd eftir Línu Rut sem er líka á óskalistanum. Mágkona mín mundi eftir því frá því við vorum á Akureyri þar sem ég slefaði yfir myndunum hennar.

Svo fékk ég ótrúlega flott hálsmen, annarsvegar frá tengdó sem er með hraunmola sem mér finnst ótrúlega töff og svo ofboðslega sérstakan kross frá ömmu, eiginlega flottasti kross sem ég hef séð.

Sushi áhöld og nú er þá ekkert eftir nema að taka plastið utan af Sushi matreiðslubókinni og bretta upp ermarnar.

Ekki má gleyma aurunum sem ég fékk en þeir fá að njóta sín í París, borga fyrir okkur H og M ferð eða ævintýraferð í FNAC.

Já gott fólk. Mörg ykkar hljóta nú að fara að skipuleggja stærðarinnar afmælisveislur eftir að hafa lesið þessa upptalningu. Mæli með því!


París á morgun. Hef á tilfinningunni að þetta verði svaka ferð, tvær stelpur verið í því að skipuleggja þetta í mánuð eða eitthvað og mér finnst ég ótrúlega heppin að eiga svona góða vini þarna. Það verður farið til Versala, Pere Lachaise kirkjugarðinn, catakomburnar skoðaðar og margt margt fleira. Væsir ekki um mig get ég lofað ykkur! Á afmælisdaginn sjálfan er Óperuferðin og svo afmælispartý með þeim, Audrey og svo íslensku stelpunum úr frönskunni sem eru í Erasmus. Búið að safna ýmsum mat að sér skilst mér líka, réttir frá Provence og Normandie/Bretagne og svo auðvitað frá Lyon líka en Gaelle er þaðan. Get ekki beðið.

Dagurinn fer í vinnu í dag, gjaldeyriskaup og kaup á Gargandi snilld geisladiskum handa frökkunum mínum og svo smá skrúbb hérna heima, pakki oní tösku og snemma að lúlla því ég held að við þurfum að vakna í kringum hálf fimm í fyrramálið eða eitthvað álíka.


Síðast en ekki síst, föstudaginn 14.okt verður afmælisgleðskapur á Fróninu. Ég og Sigga Dís ætlum að halda upp á 50tugs afmæli hér hjá okkur. Öllum sem mér þykir vænt um er boðið þannig að ef þú ert að lesa þetta þá veistu að þér er boðið. Taka frá kvöldið takk fyrir.

Saturday, October 01, 2005

Hreint hf.

Æjá. Vildi að ég hefði einhverja svakalega spennandi hluti að segja sem útskýrðu bloggleysi. Sannleikurinn er sá að öll síðasta helgi fór í þrif og pússerí og þessi helgi fram að þessu hefur farið í það sama. Vikan fór svo í skóla/vinnu og þess á milli var ég heiladauð í SIMS 2 þar sem Gemma sem er my lady framkvæmdi á heilli viku allt það sem við gerum á heilli mannsævi. Nú vinnur hún fyrir sér sem lögreglukona, á eitt barn með manninum sínum og einn stjúpson og fimm herbergja hús á tveim hæðum. Maðurinn hennar er svolítið vonlaus karakter, hann er alltaf að skrifa einhverja skáldsögu en miðar hægt áfram og krakkinn er að læra að tala. Hann notar ennþá bleyjur samt. Gemma daðrar við hreinsitækninn sinnn þegar hún á stund milli stríða en þar sem kallinn hennar er alltaf heima hefur henni ekki tekist að ná honum í bólið þrátt fyrir þrálátt þjórfé og hennar lífsmarkmið er að sofa hjá þrem mismunandi SIMSURUM og gera það á almannafæri. Mér finnst hún svolítið slut. Stjúpsonurinn á þrjár kærustur, er í skóla og aukavinnu og einkunnirnar eru á niðurleið. Suburbian draumur!

Það er orðið ógó fínt hér á K2, nýjar gardínur í öllum herbergjum og loksins loksins hefur síðasta atriðið á baðherberginu verið klárað. Búið að dúka borð og dreifa stólum um íbúðina og Betty er á leið í ofninn því að á morgun á ég von á 20 manns í kaffi. Tilefnið er jú 25 ára afmælið mitt sem reyndar er eftir tæpa viku en þá verð ég í París. Ég er búin að fá einn pakka. Hann er frá settinu mínu og er ægilega flott skrifborð sem var á óskalistanum mínum. Það er ósamansett samt undir rúmi en Arnar fær að skemmta sér við það annað kvöld þegar að gestirnir eru farnir.

Þarf að rubba af einni ritgerð í kvöld, um Man Bites Dog og setja á tvær marengskökur, undirbúa eins og eitt heitt brauð og tralalalala. Vil nýta þetta tækifæri og þakka mömmu, tengdamömmu og mágkonu fyrir dygga aðstoð en þær munu nú eiga mestan heiðurinn af veitingunum hér á morgun. Hef aldrei nennt að leggja það á mig að læra að baka.....þannig að set þessar sem eru með reynsluna í það.


Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?