Monday, March 27, 2006

Ég er hetja

Ójá, ég er með íþróttameiðsl, múhahaha. Held að það sé örugglega í fyrsta skipti um ævina!

Fór af stairmasternum áðan í of miklum hraði eftir ofsa brennslu og rak fótstigið í löppina á mér, bólgin núna með stórt sár og vont að stíga í löppina. Myndi vera meira sorry yfir þessu ef þetta hefði ekki verið svona yndislega klaufalegt og asnalegt, ég var bara svo búin á því með svitann í augunum og svo bara slösuð! Ástand á bænum!!!


Einsi búinn að fá nóg af okkur, fór að háskæla áðan, vildi fá mömmu sína og hætta að vera lasinn. Kominn spenningur í hann því hann veit að þau eru að koma á morgun!

Jæja, ætla að fara og horfa á Tomma og Jenna.

In your dreams

Fékk póst frá fasteignahluta mbl.is. Skráði mig þar fyrir löngu, í þeim eina tilgangi að láta mig dreyma. Í póstinum var verið að auglýsa íbúð sem uppfyllti öll mín skilyrði. Sýndi Arnari hana og hann var jafn hrifinn og ég. Og í draumaheimi hringdum við í fasteignasalann til að vita hvað eigandinn vildi fá fyrir hana. Raunveruleikinn hrifsaði okkur aftur til sín, litlar 55 millur. Mjá, þarf eitthvað að endurskoða skilyrðin mín sem draumaíbúðin á að uppfylla...can't afford it!

Ekki það að við séum neitt að flytja, bara láta okkur dreyma og svona pæla því jú það hlýtur að koma að því einn daginn að við flytjum! Er það ekki?

Sunday, March 26, 2006

Æj nei

Héldum að Einsa væri batnað en hann var bara að plata, er aftur kominn með hita þrátt fyrir að hafa verið hitalaus í gær og mestan part dagsins, svo það er heima aftur á morgun.

Kíktum á lagersölu Senu áðan og það er algjört drasl. Flestar myndir sem eitthvað var varið í voru á 1500 kall og margar hverjar voru í boði hjá BT á 999 eða 899 krónur held ég og í Bónus á svipaðan pening.Algjört svindl fannst okkur. Kíktum við í BT og keyptum Svamp Sveinsson og Tomma og Jenna, ekki beint handa okkur heldur stráknum litla sem hættir ekki að vera lasinn!

Sunnudagur í loftinu, hætti við leynifundinn þar sem við borðuðum svo seint en það sleppur alveg því ég fór á svoleiðis í gær!

Best að horfa á Tomma og Jenna og kúra með kútinn, hann kallar mig kúruskrímslið, verð að standa undir nafni!

Örmagna foreldar

Hihihi, ég sofnaði milli 10 og 11 í gær, alveg búin á því. Merkilegt hvað drengurinn hefur mikla orku með þennan mikla hita, hann er samt með helmingi meiri orku en við. Brugðum okkur aðeins á Bræðró að borða sushi og Einsi fékk kjúlla. Svo var bara heim. Held að hann sé nú að verða búinn að fá nóg af því að hanga alltaf inni og í þessu dásemdar veðri líka og skil hann vel. Ég dreif mig í ræktina eftir að hafa legið hér í einhverju móki fram eftir morgni. Sjónvarp er yndisleg barnfóstra skal ég segja ykkur!

Er líka búin að njóta þess að vera ekki í einhverri geðveikri skólavinnu, nýt þess eiginlega of mikið og opna ekki bók, þarf nú samt að lesa eins og eina smásögu áður en degi lýkur. Spá í að fara á leynifund í kvöld, hef svo gott af því.

Veit einhver um vel staðsetta íbúð í Barcelona sem kostar helst ekki meira en 700 evrur á mánuði? Ef svo er, þá má láta mig vita. Er búin að komast að því að ég get komist í internship hjá útgáfu þarna úti ef ég vill og líst ekkert smá vel á það. Stendur líka til boða ein frábærlega staðsett íbúð rétt hjá römblunni og picasso safninu en líst ekki á verðið, 1000 evrur sem er allt námslánið mitt eins og það leggur sig meðan við erum þarna úti og það gengur ekki upp.


Jæja, læt gott heita, best að sturta sig eftir gymmið og gera eitthvað af viti!

Saturday, March 25, 2006

Með barn í fóstri

Fór og sótti Einsa á fimmtudaginn í skólann og þar lá hann greyið á dýnu, kominn með hita. Það var bara brunað með ræfilinn heim og kemur í ljós að hann var með 39 stiga hita. Meira hvað börn eru miklar hetjur því í gær neitaði hann að láta lasleikann og 39 stiga hitann hefta sig í að skemmta sér hjá bróður sínum, spýtti í lófana og var nánast eins og hann væri ekki lasinn. Föstudagar eru nefninlega tölvudagar, var mér sagt, þá mætti hann leika í tölvu. Sem hann gerði. Svo var ég að fara í boð og hann var bara feginn að losna við mig svo að strákapartýið gæti hafist!

Svona er maður ómissandi.

Wednesday, March 22, 2006

Spennandi framtíðarmöguleikar!!

Fór inn á heimasíðu Bifrastar um daginn og fór að skoða nám sem þeir eru að bjóða. Ástæðan er einföld, skólinn er metnaðarfullur og býður uppá praktískt nám sem kemur að góðum notum á vinnumarkaði og fólk sem er menntað hjá þeim gengur auðveldlega inní góð störf.

Sá þetta nám hér: MA í Evrópufræði og varð strax mjög spennt.

Tel að þetta sé nám sem gæti reynst mér og minni tungumálakunnáttu afar hagnýtt, sérstaklega ef ég reyni að bæta spænskunni svo við mig að einhverju leyti. Gæti t.d. tekið hluta af þessu námi í skiptinámi á Spáni til að ná meiri tökum á því.


Já, framtíðin er full af möguleikum, en stundum getur verið erfitt að pússla saman vilja tveggja einstaklinga. Veit ekki hversu spenntur Arnar er fyrir því að flytja á Bifröst....????

Tuesday, March 21, 2006

Lífið heldur áfram....merkilegt nokk!

Já, það er satt, það kemur dagur eftir þennan dag og loks virðist skapið vera á uppleið eftir fremur langa niðurveru. Komst að því að það býr alltof mikið af fólki í hausnum á mér og það án þess að borga leigu. Ekki smart!

Verð helgarmamma frá fimmtudegi til þriðjudags, fáum Einsa peinsa í lán meðan þau fara til NY, ekki slæmt. Held að hann sé spenntur fyrir að koma í heimsókn, leika við stóra bróður sinn soldið og vera dekraður.

Datt í hug að sækja um starf hjá Eve Online þegar ég sá auglýsingu frá þeim um starf sem ég fyllti allar kröfur í. Finnst gaman þegar ég sé auglýst störf, svona alvöru störf með titlum sem reynsla mín og menntun gera mig hæfa í. Var sko auglýst eftir manneskju með reynslu af erlendum samskiptum, góða tungumálahæfni og frönskukunnátta plús, að hafa starfað í markaðsmálum, séð um samingagerð o.s.fr. Ef ég teygi starfsreynslu mína, þá slefaði ég alveg uppí þetta og hefði verið fullkomin í þetta. En mundi þá skyndilega eftir því að ég kann ágætlega við mig í mínu starfi sem veitir mér það frelsi að geta unnið og verið í skóla þó að stundum sé erfitt að gera aldrei neitt nema vinna og læra. Og hætti við í skyndingu að skipta um starfsvettvang. Bækur heilla mig ennþá meira en tölvuleikir!!!

Annað merkilegt í fréttum? Já, alveg eins, við Arnar eigum 5 ára afmæli í byrjun Apríl og förum í tilefni af því á Hótel Búðir, ægilega rómantískt. Finnst súrrealískt að ég sem er svona ung sé búin að vera í sambandi svona lengi....það minnir mig á það að ég er kannski, bara kannski að verða fullorðin!

Jæja, vinna meira!

Wednesday, March 15, 2006

Hrjót hrjót

Venjulega sef ég frekar illa, vakna oft og er bara til vandræða á nóttunni. Ræktin hefur hinsvegar fært mér það að ég sef, oftast heilan svefn nóttina í gegn og ef ég vakna, þá er það einu sinni.

Ég er samt frekar súr með kílóafjöldann sem tapast hefur þar en hann er alveg staðnaður einhvernveginn. Hef lítið sem ekkert misst eftir jólin, kannski 2 kíló og ég ætlaði að vera orðin 10 kílóum léttari þegar ég kæmi til Túnis sem þýðir að 8 kíló í land og tíminn meira en hálfnaður. Það þýðir samt ekki að ég sé búin að gefast upp, í síðustu viku var spýtt í lófana og ég mætti 5 sinnum og brenndi þar til svitinn bogaði hreinlega af mér.

Í þessari viku ætla ég að ná 5 skiptum lágmark og er að vonast til að ná 6. En þar sem ég komst ekki í gær, þýðir það að ég þarf að fara alla hina dagana. Ég vona að það náist.

Í gær vippaði ég einu 50% verkefni fram úr erminni. Það var samt ekki auðveld fæðing enda hafa ljóðagreiningar oft reynst mér erfiðar. En með smá þolinmæði og hjálp góðra vina þá hafðist þetta allt saman á endanum og á eftir verður þessu skilað. Hvort nokkuð sé varið í þetta á eftir að koma í ljós, sjáum til með það! En ég gerði allavegana mitt besta :)

Önnur erfið fæðing virðist ætla að vera árshátíð okkar í frönskunni þar sem erfiðlega hefur gengið að fá dagsetningar og staðsetningar til að passa saman. Held að málið sé í höfn í dag og hlakka mikið til að geta klárað það mál algjörlega.

Þó má ekki slá slöku við því nú er komið að næsta ritgerðaverkefni, á eftir að lesa 400 bls bók til að standa skil á því og það er á mánudaginn sem það þarf standa klárt. So, back upon that horse!!!!

Sunday, March 12, 2006

Hvað með mig?

Já, gott að dreifa visku í allar áttir en er kannski spurning um að gera eitthvað sjálfur í sínum málum?

Miklar pælingar í gangi!

Á jákvæðari nótum, í síðustu viku fékk ég fyrstu einkannir annarinnar og voru þær alveg til að hrópa húrra fyrir. Túnis ferðin er svo gott sem afgreidd, einungis eftir að ganga frá lestinni milli London og Parísar fyrir þá sem hana nota og árshátíð í sjónmáli þó að pússluspil sé í gangi núna með dagsetningar og annað.

Vísindaferð á föstudaginn í Ámuna. Ef ég drykki meira myndi ég tvímælalaust brugga. Greinilegt að þetta margborgar sig. Ég var á bíl svo að ég var ekkert að sökkva mér ofan í veitingarnar en fékk mér hinsvegar pínkulítið staupglas og setti í það einn sopa af vínunum sem voru í boði og niðurstaðan var sú að þetta er hið boðlegasta vín. Ég hélt alltaf að heimabrugg væri algjört eitur. Reyndar voru rauðvínin verst en þarna var gott rósarvín og þokkalegt hvítvín og rauðvínið hefði verið betra ef hann hefði gefið okkur eldra var mér sagt, það var víst bara búið að þroskast í mánuð á flöskunum sem er algjört lágmark.

Jæja, nú ætla ég að fara í brönch til tengdó....namminamm!

Saturday, March 11, 2006

Að skríða ofaní holu?!!

Þessi vika var langt frá því að vera góð. Vikan þar sem ég þurfti alla mína einbeitingu til að hlutirnir gætu gengið upp en í staðinn hefur hausinn á mér verið á fleygiferð.

Hélt að toppnum hefði verið náð en allt er þegar þrennt er eins og maðurinn sagði. Hef enga einbeitingu og á að vera læra undir próf og skrifa ritgerð en þyrfti helst að fara og gera mér glaðan dag og láta mér líða vel, allavegana betur.

Kannski hægt að rífa sig uppá rassgatinu, spurning með það að liggja ekki í eymd og velta mér uppúr þessu.

Sunday, March 05, 2006

MERDE ALORS!!!

Hvað á að gera þegar að grein sem maður strögglaði með að koma uppí tvær bls reynist eiga að vera 3 bls? Jú, maður finnur 10 mismunandi leiðir til að segja sama hlutinn, hæfileiki sem einkennir að mínu mati flesta fræðimenn.

Fjölskylduvæn helgi: Kristján Dagur, bróðursonur minn, sló í gegn í gær. Við Arnar slógum líka í gegn, leið að hjarta barnsins er að sjálfsögðu í gegnum nammið og því var ekkert til sparað. Hann gleymir því ekki í bráð hvað ég heiti! Svo var kvöldmatur á Bræðró með settinu og litla bróður sem er orðinn heldur stór ( og ég held að hann hafi verið þunnur ). Dagurinn var svo tekinn snemma í dag, fór á fætur kl 07 00, glápti á Survivor og Biggest Looser Australia, svona aðeins til að tæma hugann. Lagaði svo þetta drasl sem ég hafði skrifað í vikunni í þessum ritdómi, get greinilega ekki gert neitt af viti nema undir pressu og svo var bara skúra skrúbba bóna því tengdó var að koma í Brunch. Heimsótti Jóa Fel og bjó til spelt amerískar pönnukökur. Það er að segja bjó til deigið og Arnar sá um að steikja egg, beikon og pönnukökurnar ofan í skarann.

Svo hefur lærdómurinn átt hug minn allan. Er að fara inn á leiðinlegt tímabil í bókmenntunum en heiti því að vera jákvæð. Leiðindin stafa af tveim stefnum sem ég hef ekki tekið í sátt: súrrealisminn og exitensíalisminn. Já gott fólk, komið að Breton, Sartre og Camus..úff!!!

Og svo kom í ljós að ritdómurinn sem hefur ekki viljað út úr hausnum á mér alla vikuna á að vera lengri en upphaflega var áætlað....æj mig auma!!!

Saturday, March 04, 2006

Sif frænka

Ætla að sækja litla sæta frænda núna kl 11 og fá að hafa hann aðeins hjá mér í dag. Eyði alltof litlum tíma með þessu barni og í gær þóttist hann ekki muna hvað ég heiti. Held að þetta hafi hreinlega verið mótmæli, uss uss. En úr því skal bætt. Við ætlum að hitta tengdapabba minn og konuna hans og borða með þeim hádegismat og svo er ég í vafa um hvort gefa eigi öndunum brauð í ljósi fuglaflensunnar? Ef ég ætti frysti núna myndi ég tvímælalaust fylla hann af kjúlla því þegar flensan kemur til landsins þá efast ég um að fólk hafi geð í sér til að kaupa fuglakjöt. Kjúklingur er einmitt það besta sem ég fæ, góð kjúllabringa...en svona verður þetta sennilega. Þannig að þið sem eigið frysta, kaupið kjúlla og hendið í hann og bjóðið mér svo í mat þegar flensan kemur.

En já, best að fara og rækta frænkuhlutverkið!

Friday, March 03, 2006

Barceolona

Kæra fólk

Þá er ég búin að skila inn formlegri umsókn um Erasmus, vorönn 2007 í Universitat de Barcelona. (varaskóli í París) Þetta verður tíminn okkar Arnars, við ætlum að njóta lífsins, læra spænsku og upplifa katalónska menningu.

Planið tók stökkbreytingum á síðustu vikunum fyrir umsókn og ástæðan var einföld. Ég hef búið í Frakklandi og hagnast kannski mest á því að prófa eitthvað nýtt. Barcelona er uppáhalds borgin okkar Arnars í Evrópu og okkur langar bæði frekar til að læra spænsku. ( mig langar að bæta henni við mig og hafa tvö rómönsk tungumál ) og þetta á að svara spurningu minni um það hvort mig langi raunverulega til að taka tvöfalt ba og þá með spænskuna líka.

Nú er þetta orðið officielt, býð svars við umsókninni en það er 100% að við hjónaleysin verðum allavegana ekki á Íslandi vorönn 2007, hvort sem leiðin liggur til Spánar eða Frakklands :) Get ekki sagt ykkur hvað ég er ánægð, mikill léttir að vera búin að skila þessu inn og þetta verður algjört ævintýri. Arnar að prófa að búa erlendis í fyrsta skipti og ég að endurtaka leikinn. Hver veit nema að Arnar kolfalli fyrir þessu og að við förum í framhaldsnám erlendis líka. Mikið sem ég væri til í það :)

Jæja...segi góða helgi!


Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?