Wednesday, March 30, 2005

Ritstífla

Ég fæ mig ekki til að hefjast handa við þessa blessuðu ritgerð sem er fjandi slæmt þar sem henni þarf að skila eftir viku og hún telur tíu bls. Mér finnast allar heimildir sem ég les í tengslum við þetta alltof fræðimannalegar og hreinlega leiðinlegar og ég er farin að hallast að því að bókmenntafræðin sé eingöngu gerð til að drepa áhuga manns á bókmenntum með því að fara í það að kryfja þær niður í öreindir...hvar er ánægjan í því? Verð að taka þetta allt saman til algjörrar endurskoðunar... ! Pabbi hefur alltaf sagt þetta með mömmu, að þegar hún hafi byrjað í bókmenntafræðinni, þá hafi hann haft miklar áhyggjur af því að þetta myndi eyðileggja hana, að hún yrði óhæfur lesandi fyrir hann (til að skoða bækur til útgáfu) og ég áttaði mig aldrei á því hvað hann ætti við fyrr en ég settist inn í tíma í bókmenntafræðinni. Fyndið að þegar ég var í bústaðnum hjá mömmu og pabba leit við einn vinur þeirra sem þekkir mig frá því ég var lítil en við höfum ekki sést lengi. Þegar ég sagði honum að ég væri í bókmenntafræðinni sagði hann strax: "er nokkur ástæða til að vera að eyðileggja annars fyndna og skemmtilega manneskju á því..." og á eftir fylgdu setningar sem ekki er við hæfi að hafa hér um bókmenntafræði og fræðinga. En franskan er alltaf jafn skemmtileg, er í sérstaklega skemmtilegum sögukúrsi núna, Saga Frakklands á 20. öld og hann er mjög spennandi. Skoðum báðar heimstyrjaldirnar og svo ætlum við að skoða stríðið við Alsír.

Ég er komin með nýtt hár, ótrúlega fín, dökka litinn áfram og krullurnar mínar en splæstum smá rauðum strípum inn í þetta, svona í stíl við gleraugun til að peppa þetta aðeins upp...mjög ánægð með þetta.


Síðast en ekki síst ber þess að geta að ég og Arnar eigum fjögurra ára afmæli á laugardaginn kemur og kettirnir okkar, Breki og Rikki verða líka 4 ára. Ekki átti ég von á þessu þegar ég og Arnar byrjuðum saman en er ótrúlega ánægð með þennan áfanga og hlakka til þegar önnur fjögur hafa bæst við í safnið. Til að fagna verður keyrt að Rangá og gist þar á fínasta hóteli með heitum pottum og lúxus. Við ætlum að hafa með okkur picknick frá Yndisauka og kerti og verður þetta því sérstaklega rómantískt. Mikið hlakka ég til.

Friday, March 25, 2005

Ferjukot og Hvanneyri

Fórum í smá ísbíltúr og enduðum á því að keyra inn á Hvanneyri þar sem bændaskólinn er. Ótrúlega sætur lítill bær ef svo má kalla. Pínkulítil falleg kirkja og mér verður alltaf hugsað til þess hvað ég gæti vel hugsað mér að búa út á landi. Draumurinn er Dalvík eða jafnvel Stykkishólmur. En svo er líka örugglega fínt að kaupa bara gamlan bóndabæ ekki of langt frá Reykjavík og búa þar. T.d. gæti ég hugsað mér að kaupa Ferjukot. Lítill bær sem við keyrðum fram á áðan. Héldum áfram frá Hvanneyri og enduðum á því að keyra yfir þrjár alveg óskaplega ógnvekjandi brýr...og þá komum við að þessum ótrúlega fallega bæ sem stóð alveg við vatnið....það leynast svo margir leyndardómar víðsvegar sem maður sér aldrei því maður fer alltaf þessar hefðbundnu leiðir í lífinu. En já, svo um leið og maður leggur út frá annarri leið leynast margir leyndardómar.

Elska þetta land.

Thursday, March 24, 2005

Frábær bók

Auðvitað þegar ég á að vera að lesa heimildir fyrir ritgerðina dett ég inn í frábæra bók. Mæli með henni við alla, mjög áhugaverð saga um foreldra sem eiga barn með hvítblæði og eignast annað barn sérstaklega til að vera líffæragjafi fyrir veika barnið.

Er í notalegheitum í bústaðnum, gott að vera svona á hótel mömmu eins og alltaf. Láta elda fyrir sig og svo er herra kisi hérna líka sem er yndislegt. Það er svo gott að hafa kisa hjá sér. Við sofum út í eitt sem er bara alveg eins og það á að vera. En ekkert er páskaeggið....er ekki búin að ákveða hvort það verði nokkuð. Kannki maður fái sér lítið páskaegg, bara uppá stemmninguna, aldrei að vita.

Jæja, ætla að fara og klára þessa stórkostlegu bók.

Og á morgun ætla ég kannski í gokart í borgarnesi :)

Wednesday, March 23, 2005

Föstudagsbjór á þriðjudegi

Fór í gær á Prikið og drakk bjór í góðra vina hópi. Ótrúlega skemmtilegt. Ég geri svona svo sjaldan, það er að segja, fer niður í bæ og fæ mér bjór á kaffihúsi og þeim mun skemmtilegra er það þá þegar ég geri það. Enn undarlegra er að gera það á þriðjudagskvöldi en svona er það að vera í páskafríi. Ótrúlega notalegt alveg hreint. Svo munar ekki um þjónustuna hjá mínum heittelskaða sem bæði keyrði mig og sótti... lúxus.


Annars er ég að klepra yfir fræðimannaritgerðum um Camus og Útlendinginn, tilvistarstefnuna og aðrar pælingar sem ekki virka vel þegar maður er illa sofinn og svona semi þunnur. Verð samt að vera dugleg, vantar að viða að mér heimildum og hugmyndum fyrir þessa blessuðu ritgerð. Átta mig aldrei á því hvar maður á að setja heimildir eða ekki. Hvað með hugmyndir sem kvikna hjá mér út frá lestri á textum annarra? ...þoli ekki ritgerðir en stefni þó að því að skila ritgerð sem ég verð stolt af því þetta gildir jú 50% af lokaeinkunn. Eins gott að eitthvað verði varið í þetta.

Og Bobbý beibí er bara á leiðinni til Íslands...frábært!!!

Tuesday, March 22, 2005

Fasistaríkið Ísland...

... rekur úr landi menn sem eiga fjölskyldur hér, konur og börn en hleypir svo inn í landið manni sem á yfir höfði sér fangelsisvist, er annálaður rasisti og þyrfti helst að vera á stofnun fyrir geðfatlaða! Bravó Ísland. Hef alltaf sagt að forgangsröðun hér á landi sé undarleg og er þetta enn einn vitnisburðurinn um það. Ekki er þetta nóg heldur er nú verið að kanna hvort kallinn geti ekki fengið greiðslur í launasjóði Íslenskra skákmanna sem ætlaður er þeim sem unnið hafa einhver alþjóðamót. FRÁBÆRT! Okkur vantar enn eitt gimpið til að lifa af velferðarkerfinu, eins og það sé ekki nóg af þeim fyrir á Íslandi, þá erum við farin að flytja þá inn...glæsilegt. Og hvað svo þegar hann kemur til landsins...hann á ekkert hús...verður honum gefin íbúð? Hann á engan síma, munu vodafone og síminn berjast um að komast í fjölmiðla þar sem þeir færa honum að gjöf síma og internettengingu svo hann geti spilað skák online? Svo vantar hann húsgögn....Húsgagnahöllinn býður sig fram í að leysa það...þetta er nú heldur betur glæsilegt, manninn mun ekkert skorta en á meðan safnast Íslendingar fyrir framan fjölskylduhjálpina því páskar nálgast og engir eru peningarnir til að kaupa páskasteikina né til að versla páskaegg fyrir börnin. Æj, ég elska þetta þjóðfélag.

Monday, March 21, 2005

Þrjár góðar!

Átti góða kvikmyndahelgi. Fyrst horfði ég á "Meet the Fockers" sem er alveg jafn góð og "Meet the Parents". Við Arnar hlógum alveg rosalega yfir henni. Svo horfði ég á Paths of Glory, gamla Kubrick mynd um fyrri heimstyrjöldina og hún var mjög góð líka. Horfði meira á hana í svona sögulegu skyni en hún var mjög fín og fyndið að sjá Kirk Douglas leika, hann er með nákvæmlega sömu rödd og Michael Douglas, sonur sinn. Svo kórónaði ég þetta með því að horfa á eina alíslenska, Dís. Átti alltaf eftir að sjá hana. Hún kom bara skemmtilega á óvart. Auðvitað engin stórmynd en þegar maður fer af stað með minna en engar væntingar þá var þetta bara í heildina mjög fínt.

Þetta var sumsé bara mjög fínt, sjaldan sem ég held út heilar bíómyndir.

Sunday, March 20, 2005

Óðir skákmenn

Er enginn nema ég kominn með leið á Fischer?

Hvernig stendur á því að hann fær svona rosalega umfjöllun og vekur svona mikla athygli Íslendinga. Já, hann spilar skák og já hann hefur komið til Íslands. Frábært. En afhverju þurfum við endilega að finna til einhverra tauga og finnast eins og við séum skuldbundin til að hleypa sturluðum manninum inn til landsins og með landvistarleyfi. Afhverju ætti mér ekki að vera sama hvort hann fari í fangelsi eða ekki? Vildi bara óska þess að það væri hægt að drífa í þessu svo ég geti hætt að sjá fréttir um hann og Sæmund á mbl.is. Vil ekki sjá trýnið á honum hérlendis!


Svo er bara að byrja páskafrí...spáið í það. Ekki það, nóg verður að gera í fríinu, lesa nokkrar bækur og skrifa ritgerðina góðu sem ég er alltaf á leiðinni að byrja á!!!

Thursday, March 17, 2005

Enn veikindi

En ekki á mér, Arnar greip þessa pest sem er að ganga og er rosalega lasinn greyið. Fórum til læknis í gær og hann fékk astmastera og sýklalyf og má ekkert fara í vinnu fyrr en eftir helgi. Þannig að hann missir bara alla vikuna úr vinnu. Ég er samt búin að reyna að taka Florence Nightingale á þetta og gengur bara þokkalega held ég...vona ég.

Svo fékk ég málfræðiprófið mitt til baka og hef aldrei fengið jafn hátt í málfræði...mikill sigur...vona bara að þetta sé boðberi um það sem koma skal því nú þarf ég að fara að byrja á ritgerðinni minni um hann Camus minn og Útlendinginn. Ég vona að það gangi jafnvel því hún gildir svo mikið sem 50% af lokaeinkunn í kúrsinum og þetta er 5 eininga kúrs. Ekkert slor það.

Önnin er bara að verða búin, ótrúlegt, páskafrí í næstu viku og svo er bara stutt eftir í prófatörnina. Sem þýðir bara Paris here I come!

Ég fékk sorgarfréttir frá Frakklandi. Skólinn minn hefur verið seldur. Fékk enn einn stórfréttapóstinn frá Philippe og nú er búið að selja skólann. Ég er frekar leið yfir þessu enda tengi ég svo ótrúlega marga góða hluti við þennan skóla.

Um helgina ætlar Frönskudeildin svo í Kolaportið, selja til styrktar ferðinni og ég vona bara að það gangi vel, jafnvel og salan á varningnum gekk :)

En jæja, best að láta þetta duga í bili.

Friday, March 11, 2005

Taugatitringur...

...er orð dagsins í dag. Er að fara að halda fyrsta fyrirlesturinn minn í langan langan tíma og það á frönsku... geri aðrir betur! Fyrirlesturinn er um það merkilega og skemmtilega land, Sénégal og ég held að ég sé ágætlega undirbúin, ég vona það allavegana. Búin að búa til stórt Powerpoint skjal með mörgum myndum af því að það er alltaf skemmtilegast.


Það er að verða svo fínt heima hjá okkur Arnari. Nú erum við búin að kaupa nýjar gardínur, þannig að þessar gráu ógeðslegu sem voru stífar af skít eru horfnar. Svo erum við búin að setja loftljós í stofuna. Ekki skil ég þessa pælingu sem var hjá ömmu hans með að hafa sama sem engin loftljós. Það voru aldrei loftljós í stofunni og svefnherberginu sem mér finnst undarlegt. En við höfum bætt úr því, komin loftljós á báða staði og voru þau keypt í þeirri ágætu búð Ikea. Þetta er ljósið sem er í svefnherberginu og þetta er ljósið sem er í stofunni. Stofunni hefur svo verið endurraðað eftir kúnstarinnar reglum og Phil Handsley ræður ríkjum. Hlutirnir hafa gerst mjög hægt hjá okkur en þeir gerast samt. Íbúðin fær alltaf meira og meira af okkar yfirbragði. En svo ekki sé gleymt að minnast á baðherbergið, þá er það ekki enn tilbúið en það eru bara litlir hlutir sem eru eftir. Það er búið að fara eina umferð yfir loftið og nú er verið að endurvinna borðplötuna eftir skandalinn sem smiðurinn skildi eftir sig. Sá maður var áhugaverður, kom frá Handlaginn og eyddi meiripartinn í að ræða í símann við öskrandi barn. Svo sagaði hann plötuna vitlaust og þurfti aðf ara og kaupa nýja plötu. Svo hefur hann hengt hana í vitlausa hæð, (sem eyðileggur þvottavélaplönin okkar) o.s.fr. En nú er sumsé verið að laga þetta allt saman. Upp er kominn klósettrúlluhaldari og handklæðahaldari og spegill þannig að nú er bara fjör. Næst á dagskrá er að taka svefnherbergið í gegn og endurhanna það sem og að mála þegar að fjárráð leyfa.

Svo er bara idol í kvöld, verð brjáluð ef Hildur Vala vinnur ekki.

En vissuð þið að það eru örfáar vikur eftir í kennslu...nett stressandi því ég er eftirá í öllu finnst mér. Þarf virkilega að herða mig, jafnvel að fara að byrja á þessari blessuðu bókmenntaritgerð minni.

Góða helgi

Friday, March 04, 2005

Dómnefnd

Þetta fannst mér ótrúlega slappt! Þau potuðu Heiðu áfram í úrslitaþáttinn með því að minnast ekki stöku orði á frammistöðu hennar í fyrra lagi en hamra á Davíðs. Hann stóð sig langt um betur en hún og ég er svo ótrúlega pirruð yfir þessu. Þetta er algjört svekkelsi því mér finnst hún ekki frábær söngkona og hún gefur ekkert af sér að mínu mati en jæja...svona er þetta víst!

Hildur er allavegana enn inni og vonandi klárar hún dæmið.

Annað svekkelsi kvöldsins...kemur ekki Anna Katrín þarna og ég ótrúlega glöð, nú fengi hún sko uppreisn æru sem aldrei fyrr með því að syngja og brillera o.s.fr. en þá klúðrar hún þessu greyið. Hún er ekkki enn laus við þessa hnökra í röddinni...hvað kom eiginlega fyrir hana? Svo afsakið orðbragðið en heyrðuð þið þetta lag? Það var nú alveg frekar slappt.

Já, maður getur lifað sig inní sjónvarpið sitt...það er á hreinu.

Engin árshátíð

Hmm, ætli þessi leturstærð komi sér betur Anna?

Annars er minns bara lasinn. Ég átti að vera með árshátíðarpartý núna en þurfti að afbóka það sökum veikinda. Frekar fúlt því við ætluðum út að borða og fínerí. Núna er hópurinn eflaust staddur í Alliance Francais í partýi! En hér er ég að horfa á Idol og verð að segja að mér finnst óþolandi þetta uppáhald dómaranna á Heiðu og að segja að við Hildi að hún sé ekki besti söngvarinn....ég er nú bara ekki sammála þessu en auðvitað hafa allir skoðun á þessu og mín er bara dropi í hafið. En ég vona allavegana að hún vinni þetta og að Davíð verði í öðru sæti.

Nú er annars hægt að baða sig í ljósahafi inná baði hjá mér en enginn er spegilinn sem er fínt þegar maður er lasinn og úldinn. Þá langar mann ekkert að skoða sig í speglinum. Hef legið í rúminu og horft á felicity og það er bara alltílagi sko nema að ég gæti vel hugsað mér að stíga út fyrir hússins dyr...kemur að því. Ég verð að setja allt í botn um helgina til að læra fyrir prófið sem er á þriðjudaginn, gildir 1/4 af lokaeinkuninni minni þannig að... verst að hafa verið svona lasin og ekki getað byrjað neitt af viti en svona er þetta bara. Arnar er allavegana búinn að vera rosalegt krútt, fært mér blóm og svo hverja dósina á fætur annarri af diet kók. Svo hef ég borðað bollasúpu, hrísgrjónagraut og viti menn, hafragraut!

Jæja, ég ætla að fara og sjá hver kemst áfram í IDOL og hey já, við seldum bílinn í dag...jíha, skuldastaðan lækkar um 550 þúsund og mánaðarlegar greiðslur um 30 þús :) Hér ríkir mikil gleði!

Wednesday, March 02, 2005

Svitabað

Pabbi kallinn kom heim frá Washington frekar slappur og ég held barasta að hann hafi smitað mig því að ég er með hornös, tóman haus og svitakóf sem eru einmitt þrír uppáhaldshlutirnir mínir. Þetta er mjög illa tímasett, það verður að viðurkennast...ég er að fara í próf á morgun og próf á þriðjudaginn en vonandi getur kennarinn sýnt þessu skilning og leyft mér að taka prófið seinna eða skila auka verkefni.
Ég hef samt nóg að gera í veikindunum, er með tvær nýjar seríur ferskar frá USA sem pabbi kom með heim handa mér. Ég skammast mín ávallt jafn mikið fyrir smekk minn á sjónvarspefni og í þetta sinn er það sería 4 af Dawsons Creek og fyrsta sería af Felicity sem ég var algjörlega búin að gleyma og er algjör snilld.

Svo fyrir ykkur að vita...mig langar alveg ótrúlega að eignast My So Called Life á DVD eða VHS og eru eingöngu til notaðar spólur eða diskar á amazon þannig að ef ykkur langar til að færa mér fallega gjöf, þá er þetta málið. Bendi á að ég verð 25 ára á þessu ári og því ástæða til að gefa mér fallega gjöf!

Við ákváðum að framlengja ekki Parísarferðina heldur vera bara sama tíma og allir hinir. Ég er nánast búin að safna fyrir þeirri ferð í heild og því ætlum við að fara bara í einhverja helgarferð ef það kemur eitthvað spennandi tilboð seinna á þessu ári. Ég sé fyrir mér New York...hugsa að Arnar hafi séð eitthvað ódýrara fyrir sér eins og t.d. Köben en sjáum til hvað verður.


Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?