Wednesday, August 31, 2005

Held að margir séu ósammála!



Einhvernveginn held ég að þeir sem hafi upplifað Hiroshima taki þessu sem eilítilli móðgun við þær hörmungar sem áttu sér þar stað! Það er einhvernveginn þannig að það er alltaf allt stærst, mest, flottast eða hræðilegast sem á sér stað í US of A. Við hin megum okkar einskis við hlið hörmunganna hjá þeim. Þannig munum við aldrei fá að gleyma 911 en við eigum helst að gleyma innrásum þeirra tvist og bast um heiminn og stormurinn í US of A tekur 100 manns sem er jafngildi Hiroshima í þeirra augum þar sem guð má vita hve mörg þúsund létu lífið og þetta veldur enn dauða í dag, tugum ára síðar. En auðvitað er þetta alveg sambærilegt ekki satt?


Ekki misskilja mig, ég finn til með þessu fólki en það fer bara í taugarnar á mér hvað allt verður dramatískt í höndunum á þeim. Kannski ég sendi honum kvörtunarbréf en það er aðal brandarinn í familíunni núna að ég kvarti og kveini yfir öllu!

Blogga minna, vinna meira.

Tuesday, August 30, 2005

Er þetta það sem við viljum...í alvörunni?


Friday, August 26, 2005

Uppskeran

Sendi langt kvörtunarbréf á Hressó eftir lélega þjónustu á Menningarnótt. Eftir að Drífa mín hætti störfum þar þá er þjónustan þar hryllileg og altöluð fyrir að vera það út um allan bæ. En umfram það, þá var þjónustumaðurinn með stæla og ekki með afsökunarbeiðni eins og venja er þegar fólk kvartar. Fékk símtal frá eigandanum en hann var með afsökunarbeiðnina á hreinu og gaf mér inneign. Heyrði bara ekki alveg hvað hún var uppá mikið en held að hann hafi annaðhvort sagt 4.000 eða 7.000. Hvort heldur sem er, held að það verði ekki notað í mat en hugsanlega frekar í einhverja áfenga drykki næst þegar leið manns liggur niður í bæ. Fallega gert af honum engu að síður.


Vikan fór í lasleika og þeim mun meira af West Wing sem ég kemst ekki yfir. Frábærir þættir og leikararnir eru allir ótrúlega góðir. Skil ekki hvernig ég gat látið þetta fram hjá mér fara enda sjónvarpsnörd með meiru. En bara betra því nú á ég 6 seríur til að horfa á, eða átti það, kláraði eina og hálfa í lasleikanum. Í kvöld stefnum við á maraþon sem er ekkert nema jákvætt! Arnar er að baka sína víðfrægu pizzu og ég búin að gera kósý inni í stofu á meðan, kveikja á kertum og svona. Þetta er fyrsta helgin í ansi langan tíma þar sem nákvæmlega ekkert er á dagskrá en þarf samt að vinna aðeins.


Ætla að sækja um skilnað frá Laugum. Bera við óleysanlegum ágreiningi. Í fyrsta lagi er þjónustan þar ömurleg og í öðru lagi kunna þau muninn á réttu og röngu en kjósa samt að fara ekki eftir því. Bjössi World Class ( sem er btw lesblindasti maður sem ég hef fengið póst frá) sagði í blaðaviðtali að hann hefði vitað að það væri ólöglegt að setja upp þessa myndavél en samt gert það því hann hafði ekki tíma til að bíða eftir leyfi frá dómara. Frábærir viðskiptahættir og enn betra að enginn geri neitt í málinu og þjófurinn sem náðist á teip ætlar auðvitað ekki að kæra enda engin ástæða til að draga sjálfan sig fram í dagsljósið. Ég sendi Bjössa í WorldClass kvörtun um daginn út af starfsfólkinu hans sem virkar heiladauðara en allt heiladautt þó ég efist um að það geti hreinlega verið raunin. Hann var svo elskulegur að senda mér svar í tölvupósti þar sem hann lofaði bót og betrun sem var svo sem ágætt að því undaskildu að þetta var algjörlega ólesandi og hægt að hafa efasemdir um að hann sé í raun mælandi á íslensku. Ekki þar fyrir, maðurinn er auðvitað lesblindur, en er ekki ákveðinn standard sem maður setur þegar maður rekur fyrirtæki og myndi maður í hans stöðu ekki láta annan um að skrifa eftir sér eða láta villulesa skilaboð sem hann sendir frá sér sem forsvari stórs fyrirtækis? Hvernig myndi fólk taka því ef Björgúlfur skrifaði svona setningar: "Þessi ábending með handklæðin er mjög góð og hefur þessu þegar vrið breitt,þetta hafði ekkert með það að gera hver kaupir handklæðin bara eitthvað hugsunarleysi.
Varðandi lásana þá láuðum við alltaf lása fyrir staka tíma og vóu þeir úr sömu körfu og sölu lásarnir þannig að við vorum ekki að selja lása sem viðskipta vinir gleimdu.
Núna erum við með sér merta lása í útlán, þannig að það eiga ekki að vera notaðir lásar til sölu"
Í þriðja lagi sá ég hann hjá Sylvíu Nótt þar sem hann sagði að fólk kæmi til hans af því það væri ljótt og það vildi verða fallegt. Svo benti hann á tvær eldri konur sem voru kannski ekki í frábæru formi og sagði "þessar eru augljóslega nýkomnar".

Þar sem ég er ekki froðuheili, þá finnast mér þessir viðskiptahættir aðeins fyrir neðan mínar persónulegu hellur og langar að komast undan þessari ársáskrift sem 4 mánuðir eru eftir af.


Þetta skrifar örg húsmóðir í Vesturbænum.

Tuesday, August 23, 2005

Menningarnótt

Upplifði mína fyrstu alvöru menningarnótt þar sem ég hef ýmist verið erlendis eða úti á landi þegar að nóttin góða hefur átt sér stað.

Fannst þetta ágætis upplifun og náði að gera þó nokkra hluti. Byrjaði á því að heyra fallegt lag spilað á kirkjuklukkurnar í Hallgrímskirkju. Rölti svo á markað á Vitastígnum og fjárfesti í notuðum en afar glæsilegum Puma skóm sem eru silfurlitaðir og rauðir. Svo var laugarvegurinn tekinn eins og hann lagði sig áður en ég hitti Arnar á Vegamótum og fékk mér humarsúpuna þar og borgaði 100 kr meira fyrir hana en annars gildir á hefðbundnum degi. Svo var rölt víðar um bæinn, kíkt í Tólf tóna og staðan tekin þar. Búðin virkaði reyndar hálftóm sem er vel mögulegt þar sem það var 50% afsláttur af öllu. Svo var lífrænn markaður fyrir framan Yggdrasil svo ég verslaði aðeins þar. Svo brunuðum við á tónleika með Ragnheiði Gröndal í Íslenskri erfðagreiningu og það var alveg frábært fyrir utan grenjandi börn sem voru höfð í salnum þrátt fyrir garg og gól ( hef heitið því að verða mun tillitsamari foreldri). Svo var farið heim og tekin smá kría áður en við fórum á Galíleó með Boga og Mæju. Það var mjög gaman þar, frábær matur og góður félagsskapur. Svo héldum við í átt að tjörninni til að horfa á flugeldana sem bogi sagði að væru þar...kemur í ljós að hann hefur ekki farið á menningarnótt lengi þannig að við ákváðum að sleppa því og fórum beint á bláa barinn og glottum þegar að rigningin byrjaði. Sátum þar frameftir og fórum svo heim með leigara án nokkurra vandkvæða enda ég mjög úrræðagóð!

Svo er minns bara lasinn hérna heima með einhverja kvefpest sem Arnar vildi endilega deila með mér. Í fyrsta skipti síðan við byrjuðum saman erum við actualt bæði veik á sama tíma sem er huggun því að það er þó eftir allt þannig að Misery loves company!

Við erum sem betur fer nýbúin að uppgötva West Wing og erum næstum búin með fyrstu seríuna. Ég er bara merkilega ánægð með þennan forseta enda á hann ekki margt sameiginlegt með forseta USA í raunveruleikanum. Þættirnir eru líka rosalega mannlegir finnst mér!


Fór á leynifund um daginn og komst að því að ég er uppfull af hroka og finnst það fínt....held að það segi meira um mig en mannskapinn þar en mér fannst allir hljóma eins og rispuð plata sem maður hefur heyrt of oft. Spurning hvenær ég hef mig í að heimsækja þá aftur...gæti líka verið ráð að finna annan leynifund....!

Friday, August 19, 2005

Brúðarkjóllinn góði

London 1997:


Tvær ungar stúlkur frá Íslandi fá leyfi frá foreldrunum í einn dag og því margt um uppátækin. Stefnan var fyrst tekin í local súpermarkað. Þar var keyptur Hooch sem þá var leiðandi tegund í áfengum gosdrykkjum. Til að festa kaup á veigunum þurfti önnur stúlkan að framvísa skilríkjum. Hentugt var að mistök voru gerð í nemendaskírteini hennar í Menntaskólanum við Hamrahlíð og hún því stíluð árinu eldri en hún í raun var. Við tóku útskýringar fyrir afgreiðslustúlkuna á íslenskum kennitölum sem hún gafst upp á og sendi okkur út með drykkjarföngin góðu. Þær voru komnar svo gott sem að Hyde Park þegar örvæntingin settist yfir þær....mjöðurinn var til staðar, en engin leið til að opna hann því til þess þurftu þær upptakara. Örvæntingarfull leit hófst því, ýmsir stoppaðir sem urðu á vegi þeirra sem frekar fylltust ótta ef eitthvað var og hröðuðu sér framhjá þeim. Á endanum fundu þær verslun og gátu opnað mjöðinn dýrmæta. Ein flaska á mann innbyrt í Hyde Park sem hafði veruleg áhrif á þessar ungu stúlkur. Spurningin var hvað ætti eiginlega að gera við sig í þessu frelsi. Stefnan tekin á Marks og Spencer á Oxford. Þar rötuðu þær í brúðardeildina. Flissandi skoða þær kjólana en fá svo frábæra hugdettu.....afhverju ekki að máta einn kjól. Önnur hoppar inní klefann og skellir sér í magnaðan kjól. Þegar að hin ætlar að smella af mynd er hún stoppuð af afgreiðslukonunni enda bannað að taka myndir af fatnaðinum. Sú í kjólnum þykist þá bresta í grát, enda sé erindið að taka mynd fyrir veika móður heima á Íslandi svo að hún geti aðstoðað við valið á kjólnum fyrir dótturina þó að hún sé langt undan. Ekki er víst hvort konan keypti söguna en myndina fengu þær að taka.

Eftir þetta sneru þær aftur til foreldra annarrar, sáttar með sitt!


Sylvía klúðraði þessu svo því hún týndi myndinni. Ég held að ég hafi aldrei hlegið jafn mikið enda litum við út eins og freðhausar þegar að við ultum aftur út á Oxford með myndina góðu festa á filmu!

En sumsé, við munum þurfa að heimsækja þau aftur til að ná annarri mynd!

Wednesday, August 17, 2005

Grasið ER grænna hinu megin!!!

Hvar sem ég fer, finnst mér ég lesa og rekast á fólk sem er að gera mun meira spennandi hluti en ég og skoða skemmtilegri staði. Finnst allir vera að heimsækja framandi slóðir eða gera einhverjar "life altering" hluti.

Eftir því sem ég les fleiri blogg, þeim mun meira finnst mér vanta spennu í líf mitt. En þá er um að gera að hugsa um allt þetta spennandi sem bíður mín! Til að mynda er ég að stefna á að gerast kraftaverkakona sem saumar auka klukkustundir við sólahringinn á komandi skólaári. Ætla mér svo margt, m.a. að sjá um allt skemmtanalíf frönskudeildarinnar, vinna eins og bersekur á vonandi sem flestum vígstöðum, hækka meðaleinkunnina mína úr 8,25 í 8,5 , fara til Parísar, skipuleggja 30 manna Túnis ferð næsta vor og fara svo í umrædda ferð, finna tíma til að heimsækja Sylvíu mína og Kjartan ( mig langar til að kalla þau ofurheilana....veit ekki afhverju! ) til London og sjá kassann sem þau búa í, Icelandic Airwaves og heimsókn frá Audrey, og svo lætur maður sig dreyma um að borga loksins bankanum alla peningana og ná að heimsækja tengdapabba í US of A. Á sama tíma ætla ég að vinna umsókn mína í Erasmus svo að við getum farið út til Parísar í eitt ár næsta haust.


Æjá...maður hefði haldið að þetta myndi duga manni en nei....græðgin er svo rosaleg að það eina sem ég hugsa nú um eru ferðir á framandi slóðir. Gerði nefninlega svona kort yfir staði sem ég hef komið á og fannst það fátæklegt. Reiknaði út að til að gera hlutfallslega stærstu breytingarnar á þessu korti þyrfti ég að komast til Kanada og Rússlands. Það er því komið á stefnuskránna! Hvað ætli sé svo stærsta landið í Afríku? Þyrfti að komast þangað líka!



En fyrir utan mikilmennskubrjálæði mitt í þessum efnum þá hefur heilsuátakið 2005 tekið margar stefnur þetta árið. Nýjasta stefnan eftir gleðilegt námskeið hjá Sollu í grænum kosti hefur verið tekin og dýrar heimsóknir í Hagkaup hafa fylgt á eftir. Nú er stefnt á að fylla skápa af ávöxtum, ferskum og þurrkuðum, ýmisskonar hnetum og grænmeti af ölllum sortum. Þessu skal fylgt eftir með miklu þambi af grænu tei og ýmisskonar lífrænum efnum og aukaefnum! Í tilefni af þessu er hádegismaturinn byggður upp af speltbrauði og ávöxtum. Ræktin var að sjálfsögðu heimsótt í morgun og teknir 5 km á þessu slide apparati sem brennir 470 kkal sem er næstum því eitt snickers....ekki að ég hafi borðað snickers en hugas kkal brennslu alltaf í nammi einingum....!


Hvað ætli ég haldi þetta lengi út?

Friday, August 12, 2005

Fengið mig fullsadda af STEF og SMÁÍS

Bréf sem ég sendi á SMÁÍS í dag. Hringdi þangað líka í gær enda hef ég algjörlega fengið nóg af þessum fasistum sem þykjast öllu ráða og ekki græða nóg á grandalausum Íslendingum. Hvet ykkur öll til að senda tölvupóst á smais@smais.is og segja ykkar skoðun!

Bréfið:

Í kjölfar á miður áhugaverðu símtali mínu við SMÁÍS sendi ég nú til ykkar frétt af mbl.is þar sem þið getið lesið ykkur til fróðleiks um efasemdir neytendasamtakanna um réttmæti aðgerða ykkar.


Neytendasamtökin hafa falið lögmanni að kanna hvort Smáís og Sky hafi lagalegar heimildir til aðgerða af þessu tagi. Ljóst er að með þessum aðgerðum er mörgum heimilum gert að kaupa þjónustu (þar á meðal enska boltann) á hærra verði en þau þurfa nú að geral og líta Neytendasamtökin það alvarlegum augum. Neytendasamtökin minna á að með þessu er dregið úr samkeppni og þjónustu við íslenska neytendur. Neytendasamtökin efast um lagalegar heimildir fyrir aðgerð sem þessari og telja því nauðsynlegt að kanna lögmæti þeirra. Neytendasamtökin leggja áherslu á að hægt verði að ljúka þessari athugun sem fyrst.“


Einnig langar mig að koma einni ábendingu á framfæri sem mér var ekki gefinn kostur á að koma á framfæri í gær sökum mikils virðingarleysis þess sem fyrir svörum varð í gær, Hallgríms.

Hvað með hag þeirra sem búa utan útsendingasvæðis sjónvarpsstöðva á Íslandi eða þeirra sem ekki hafa aðgang að t.a.m. Breiðbandinu? Hvers eiga þeir að gjalda. Sem dæmi má nefna fólk sem býr við Skorradalsvatn en þar næst hvorki RÚV né nokkur önnur íslensk sjónvarpsstöð. Því þarf að horfa á sjónvarp í gegnum gervihnött.


Hvað leggur SMÁÍS til fyrir þetta fólk? Hvað eiga þau að gera? Getið þið boðið þessu fólki upp á einhverja leið til að nálgast sjónvarpsefni eða eiga þau að líða fyrir það að einhver Magnús fór í mikilmennskubrjálæði að gera athugasemdir við erlent fyrirtæki sem býður upp á þjónustu sem þeir geta ekki sjálfir boðið uppá?


Einnig ítreka ég þá skoðun mína sem er að mínu mati almenn skoðun: SMÁÍS er ekki sjálfskipuð lögregla á Íslandi og ætti því að velja að fara eftir hefðbundnum leiðum eins og aðrir þurfa að nota en ekki hafa í hótunum við SKY. Heyrst hefur að ástæða þessara aðgerða sé sú að einn af eigendum S1 hafi fengið sér SKY sem varð svo valdur að þessum “drastísku” aðgerðum SMÁÍS. Fram að því höfðuð þið yfir engu að kvarta og höfðuð enga skoðun á þessu enda hafa gervihnettir tíðkast hér lengi. Því má álykta að þetta tengist nýfengnum rétti S1 á Enska boltanum og þeirra hagsmunum í tengslum við það. Ef þetta á að vera niðurstaðana, vill ég frekar sjá boltann hjá Stöð 2 sem ekki gerði veður út af þessum hnöttum hjá fólki sem nær hvort eð er ekki útsendingum þeirra.

Einnig sé ég ástæðu til að benda á það að engar forsendur eru fyrir þessum aðgerðum enda hefur engin sjónvarpsstöð á Íslandi beðið álitshnekki né tapað nokkru fé á því að fólk sé með hnettina. Stöð 2 er t.d. í miklum blóma, auglýsingatekjur hjá þeim alltaf að aukast og þeir með mikið áhorf. S1 hefur aldrei fram að þessu þurft að kvarta nokkuð enda allt gengið alveg stormandi vel hjá þeim og óhætt að segja að útsendingartími auglýsinga sem ansi há prósenta af öllu útsendu efni sökum vinsælda hjá þeim. Nægur gróði þótti greinilega á þessum markaði til að ástæða þótti til að opna nýja sjónvarpsstöð sem fór í loftið fyrir skömmu síðan.

Að lokum vil ég nefna að ég er ekki sjálf áskrifandi að SKY og því er ekki um persónulegan málarekstur að ræða heldu eingöngu málefnalegan.

Kveðja,

Sif Jóhannsdóttir

Thursday, August 11, 2005

La vita e bella

Hamingjuóskir til Ásdísar sem eignaðist myndarlegan strák í gærkvöldi! Hlakka til að hitta hann!


Um helgina verður farið í Skorradalinn. Við ætlum sennilega bara tvö ein, ég og kallinn. Líst nokkuð vel á það. Foreldrarnir skelltu sér nefninlega til Parísar með Terra Nova. Stefni á að sækja mat til Yndisauka og hafa með mér þarna uppeftir. Alltaf dásamlegt að gæða sér á því sem þau bjóða uppá þar.

Fékk nett panic kast áðan þegar að ég var beðin um að vera í útvarpsviðtali og varpaði því yfir á aðra manneskju....treysti mér einhvernveginn ekki í það. Stafar sennilega af komplexum sem ég hef frá því ég var lítil...Ég og Herborg tókum upp marga útvarpsþætti í gamla kassettutækinu mínu og þegar að ég heyrði það, þá fannst mér röddin mín hljóma svo asnalega. Þurfti að taka upp á slíka kassettu í vetur vegna skólans og ég horfði vandræðalega á kennarann þegar hún skilaði annars ágætri umsögn og beið eftir athugasemd um fáránleika raddar minnar. Æj, það er erfitt að vera kona. Komplexarnir koma úr svo mörgum áttum. Til margra ára neitaði ég að ganga um með hring enda fannst mér það draga athygli að mínum hryllilega afskræmdu stubbóttu puttum.

En sumsé, rödd minni er óhætt, það verður einhver annar en ég sem spjallar um bækur á sunnudagsmorguninn!

Wednesday, August 10, 2005

Yes Minister

Hringdi í Menntamálaráðuneyti áðan vegna vinnutengdra efna. Spurði þessarar spurningar eftir að hafa kynnt mig og sagt hvaðan ég hringdi: "gæti ég fengið tölvupóst hjá Menntamálaráðherra, henni Þorgerði" og fékk þetta svar: "hún ber fullt nafn: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og hvað viltu henni". Eftir útskýringar mínar gat ég ekki fengið tölvupóst hjá háttvirtri Þorgerði Katrínu heldur einhverjum sem titlaður er sérfræðingur á heimasíðu hennar. Þetta er þjóðkjörni leiðtogi okkar í menningar og menntamálum sem að öllum líkindum vill þá endurvekja þá gömlu hefð að þéra fólk ( en bara háttsett fólk, við almúginn skulum þúuð!). Ef hún vill sífellt láta ávarpa sig með fullu nafni tel ég skynsamlegast að stytta nafnið um ansi mörg atkvæði....kannski jafnmörg atkvæði og í Davíð Oddson. Týpísk minnimáttarkennd hjá kvenkyns ráðherra! Ég hélt að þetta fólk væri okkar fólk, kosið og kjörið af okkur og jafnt okkur. Áttaði mig ekki á því að það þyrfti að ávarpa hana eftir einhverjum hefðum og siðum enda er ég mjög á móti öllu slíku og hef til að mynda eytt löngum stundum í að hneykslast á þérunar/þúunar complexum Frakka. Það var ekki eins og ég hefði hringt og spurt " er Tobba heima?".

Tuesday, August 09, 2005

Að kunna að taka hrósi

Ég er þeim annmörkum háð að kunna engan vegin að taka hrósi, sama frá hverjum þau koma. Finnst það í meira lagi óþægilegt og roðna og get vart stunið upp orði. Veit ekki hvernig ég á að svara og get ekki einu sinni horft í augun á fólki sem tekur uppá þessum óskunda.

Þýðir samt ekki að innst inni kunni ég ekki vel við.... veit bara aldrei hvernig maður á að taka svona hlutum!

Monday, August 08, 2005

Annar farinn

Frétti á föstudaginn að annar sem ég kannast við hafi tekið líf sitt. Svona hlutir virðast koma í bylgjum. Þekkti hann ekki vel en hugsa samt til hans núna. Vona að hann finni það sem hann var að leita að.

Tuesday, August 02, 2005

Af lífsins lystisemdum

Þá er maður komin aftur frá Akureyri.

Mikið væri fínt að geta fengið góða vel borgandi vinnu fyrir norðan á sumrin. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem hér verða taldar upp.

- Alltaf gott veður

- Stinnur rass sökum þess hve allt er mikið uppí móti

-Falleg blóm og fallegir garðar fyrir framan falleg hús

-Læra Norðlenskuna

-Brynjuísinn....mmmm namminamm

Finnst að Rvkingar ættu að leggja meiri metnað í útlit og hönnun fallegra garða. Fyrir framan Sigurhæðir, híbýli Matthíasar Jochumsonar er alveg ofboðslega falleg brekka með stórum fallegum fossi af mannavöldum, miklum gróðri í fallegum trébeðum og tréstigi upp að húsinu. Er heilluð af bænum.


Geri eina athugasemd: Fjölskylduhátíðin á Akureyri ber ekki nafn með rentu enda lítið um fjölskyldufólk og töluvert meira um fulla unglinga. Við forðuðumst miðbæ Ak. eftir fremsta megni, einungis farið þangað til að sjá Hjálma á Ráðhústorginu sem var alveg frábært. En þar voru sumé einungis unglingar af öllum stærðum og gerðum en yfirleitt eins klædd. Get ekki talið fjölda þeirra stúlkna sem framhjá mér gengu í diesel gallabuxum og í svörtum stígvélum utan yfir buxurnar. Ótrúlegt. Svo eru allir búnir að kaupa sér þessi lituðu bönd sem lýsa yfir einhverjum merkilegum hlutum eins og "hættu að reykja" eða álíka merkingarfullum skilaboðum.


Félagsskapurinn var góður, gin í magic er ekki slæmt, lystigarðurinn á Akureyri er frábær og við kunnum VR hinar bestu þakkir fyrir híbýlin!


Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?