Friday, December 31, 2004

Á áramótum

Já, þá er komið að því að kveðja liðið ár og allt sem því hefur fylgt og taka vel á móti því nýja. Við Arnar erum búin að taka til svo að húsnæðið sé boðlegt fyrir allan skrílinn sem hingað er væntanlegur eftir miðnætti. Við ætlum að byrja í kvöldmat í Garðabænum og fara svo í Skaupið á Bræðraborgarstígnum en vera bara tvö ein hér þegar klukkan slær 12. Við gerðum það í fyrra og það er frábært að sjá alla flugeldana héðan frá okkur. Svo byrjar fólkið vonandi að streyma inn fljótlega eftir miðnætti!

En hvað gerði Sif á síðasta ári? Látum okkur nú sjá...ég hætti að reykja! Sigur fyrir mig, hef verið reyklaus síðan í mars! Ég fór tvisvar sinnum til London, vinnan mín var stækkuð við mig en svo minnkuð allverulega þegar ég hætti í fullu starfi og fór í háskólann að læra frönsku. Fór úr ljóshærðri yngismey yfir í dökkhærða yngismey. Fattaði að svart kaffi er vont og byrjaði að drekka kaffi með mjólk. Fór örugglega sex sinnum í megrun sem enduðu auðvitað allar á sama hátt, keypti mér tvenn líkamsræktarkort, keypti nýjan bíl með Arnari, kvaddi gulu hættuna...hennar verður sárt saknað...kynntist fullt af nýju fólki, ferðaðist vítt og breytt um landið í blíðskaparveðri og áttaði mig á því að Ísland er betra en útlönd... og vonandi þroskaðist ég bara á sem mestan og bestan hátt!!! Og þess má einnig geta að sjaldan hafa verið keypt jafn fá skópör á einu ári!!!!

Ég er bara ótrúlega sátt við þetta ár og veit að næsta ár verður enn meira spennandi því okkar hjóna bíða mörg ný verkefni. Nú byrja ég á bókmenntafræðinni líka, Arnar fer í menntó til að ná sér í smá stærfræðiáfanga og sækir svo aftur um í HR og vonandi kemst inn í haust, hugsanlega seljum við bílinn okkar aftur, þó að hann sé nú frekar "nýr" og ekki má gleyma því að í byrjun janúar verður fjárfest í nýju rúmi og hugsanlega nýrri tölvu handa SIF....!

En annars vonast ég til að sjá sem flest ykkar í kvöld, til ykkar hinna....ÁSTARKVEÐJUR OG TAKK FYRIR ALLT ÞETTA GAMLA.


Tuesday, December 28, 2004

Söfnunarsími fyrir flóðasvæðin

Kæru vinir og vandamenn!!

Nú hvet ég alla til að hringja í 9072020 og leggja þar með 1000 krónur til hjálparstarfa á svæðunum sem urðu fyrir flóðbylgjunum! Og svo að láta skilaboð berast áfram um að láta eitthvað af hendi rakna til þessara málefna. Nánari upplýsingar sem og bankaupplýsingar fyrir þá sem vilja frekar leggja beint inn á reikning er á www.rki.is . Það eru fleiri hundruð þúsundir manna sem eiga um sárt að binda núna og lífsnauðsynlegt að það náist að safna peningum því þörf er á mikilli uppbyggingu á svæðunum núna!

Að kunna að vera í fríi...

...er mikil list sem ég á enn eftir að læra. Þó hef ég verið nokkuð góð um hátíðarnar, við höfum lagt okkur mikið en þess á milli fyllist ég stundum eirðarleysis, finnst eins og ég eigi að vera að gera eitthvað, að ég þurfi að vera á ferð og flugi. Hef svolítið tekið eftir þessu hjá Arnari líka, kemur af því að vera of mikið heima hjá sér.

En annars hafa þetta bara verið frábær jól eins og alltaf undanfarið og við bara hress með þetta. Skrapp í Kringluna í gær og var bara ánægð að sjá að það var nánast allt lokað. Þýðir að verslunarmenn fái örlítið tækifæri til að hvílast.

Hef ég sagt ykkur að mér leiðast flugeldar fyrir áramót? Mér finnst að það ættu að vera strangar reglur um að fólk sé ekki að sprengja upp flugelda dagana fyrir og eftir áramót heldur einungis á gamlárskvöld. Þetta er ótrúleg hljóðmengun og fyrir kettina mína er þetta hreinasta kvalræði! Sjálf hef ég aldrei keypt mér flugelda og ekki sýnt þeim neinn áhuga síðan ég var yngri. Ég og Arnar nutum þó sýningarinnar frá Kleppsveginum á síðasta gamlárskvöld. Stóðum þá tvö úti á svölum og horfðum á þessa sýningu og það var ansi rómantískt! Hvergi betra að sjá þetta en héðan frá okkur, svo frábært útsýni.

En sumsé, ítreka það bara: Fyrir vini og vandamenn... hér verður partý eftir miðnætti á Gamlárs...öllum sem okkur þykir vænt um er velkomið að koma til okkar. Ég er svona að gæla við hugmyndina um að líta í partýbúðina og sjá hvort þar sé eitthvað sniðugt! Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að halda partý...gestgjafinn í mér blómstrar alveg!


Sunday, December 26, 2004

Flóðbylgjur og jarðskjálftar

Úff...vaknaði í morgun og leit á mbl.is til þess að sjá þessar fréttir. Þegar að ég sá að tvær flóðbylgjur höfðu skollið á ferðamannastöðum á Tælandi varð ég nett áhyggjufull því að Gaelle vinkona mín og Fabrice kærastinn hennar eru á Tælandi einmitt á einhverri eyju í fríi. Þegar ég er rétt að klára að lesa um þetta skráir hún sig inn á MSNið og ég byrjaði strax að tala við hana. Hún var á eyjunni þar sem þessar bylgjur skullu á og sagðist vera heppin að vera á lífi, að það væru látið fólk úti um allt og þetta væri vægast satt hræðilegt. Það var búið að flytja þau upp á meginlandið og hún var bara að reyna að skrifa tölvupóst til mömmu sinnar til að láta vita að þau væru óhult því hún komst ekki í síma sem virkaði. Þetta er ótrúlega sorglegt, nýjustu tölur herma upp á 6000 manns sem eru látnir og enn er þúsunda saknað. Ferðamenn sem voru á þessum slóðum telja að tala ferðamanna sem látnir eru eigi eftir að hækka töluvert því fjöldinn allur af bátum með ferðamönnum innanborðs eru víst týndir. Ég veit svo að Charlotte, ólétt frönsk vinkona mín, á heima í Tælandi, einhversstaðar á ferðamannastað, en ég gæti ekki sagt nákvæmlega til um það hvar. Bíð því enn frétta af henni og vona hið besta.



Friday, December 24, 2004

Amazon rúlar!!!

Gleðileg jól öll sömul!!!

Þetta var algjör snilld. Byrjuðum hjá foreldrum mínum í algjörum notalegheitum og snilldarmat. Það var grafin gæs og grafið lamb í forrétt sem var alveg ótrúlega gott! Svo fengum við kalkún með öllum herlegheitunum og það var alveg ótrúleg máltíð. Mín eina eftirsjá, er að hafa ekki getað borða meira því þetta var svo ótrúlegt. Nú svo var byrjað á pökkunum og þar leyndist ýmislegt ótrúlega fallegt. Við fengum margt fallegt og erum bara ótrúlega þakklát.

En svo var það bónusinn. Ég keypti handa Arnari IPOD í Ameríkunni, á amazon.com, lét senda það til frænda sem býr í Boston og hann kom með það heim til landsins í dag. Nema hvað, fyrir einhver ótrúleg mistök hafa þeir sent tvö stykki 20 GB ipod í stað eins, bara rukkað fyrir einn og allar nótur fyrir einu stykki. Nú þannig að núna eru tvö stykki Ipod til á heimilinu í stað ekki neins :) Haldið að það sé ríkidæmi!

En nú erum við bara komin heim, Arnar farinn að leika sér með ipodinn og ég er bara eitthvað að dúlla mér...er að hugsa um að poppa örbylgjupopp í nýja örbylgjuofninum sem við fengum í jólagjöf!!!

Jólaknús!

Thursday, December 23, 2004

Loksins loksins...

eru jólin að koma og ég held að ég sé bara reddý! Við eigum eftir að skúra og henda trénu upp, og pakka tveimur gjöfum en annars er þetta bara allt tilbúið held ég! Og ég er líka tilbúin, búin að fara í klippingu, litun og handsnyrtingu, kaupa föt svo að jólakötturinn komi ekki í heimsókn og er bara að verða nokkuð vel stemmd!

Fékk hláturskast í dag í Hagkaup í Smáralind þegar að barn (ca 6 ára) labbaði fram hjá risa stæðu af Birgittu dúkkunum góðu og gargaði hátt og snjallt "Oj mamma, þessi dúkka er ógeðslega ljót" og sagði þar með allt sem segja þarf um málið! Veit ekki hvar sá sem átti þessa snilldarhugmynd heldur sig, en ég myndi allavegana ekki vilja vera hann í dag!

Er niðri í JPV, við erum að fara í jólahlaðborð og ég er svo svöng....hlakka mikið til! Svo verður aðeins kíkt í miðbæinn og þaðan heim í einn kaldan og jólatréð!!!!

Get ekki beðið eftir morgundeginum, öllum hefðunum. Fyrst fer ég og heimsæki afa mína þrjá, og já, ég var svo heppin að eiga þrjá afa sem hafa þó allir skilið við! Við heimsækjum þá alltaf á aðfangadag til að óska þeim gleðilegra jóla. Svo fer ég heim og í jólasturtuna og geri mig fína og sæta...(með öllum jólagjöfunum sem ég keypti handa sjálfri mér) og svo til mömmu og pabba í notalegheit!

Elsku þið öll, gleðileg jól og svo er bara standandi heimboð yfir hátíðarnar hjá okkur, endilega að koma í heimsókn, ætla að koma við í Te og Kaffi og byrgja mig upp af góðu kaffi, konfekti eigum við nóg af sem og sönnum jólaanda!!! Annars bara kossar og knús til ykkar allra!!!

Tuesday, December 21, 2004

Prófalok og annað

Jæja, þá er þetta bara alveg að verða búið, síðasta prófið á morgun, ekki seinna vænna, nánast komin jól!

Grrr...það er búið að bæta við jólaboði, en þau eru bæði haldin annan í jólum og annað í Keflavík þannig að væntanlega verður bara eitt fyrir valinu :)

Ég og Arnar fórum í gær og keyptum ógeðslega stórt jólatré, það er stærra en Arnar....og ótrúlega fallegt. Hlakka ekkert smá til að setja það upp á Þorlák og skreyta það, að hluta með nýja skrautinu sem við keyptum í leiðinni. Ótrúlegt með mig og Arnar, nú erum við búin að vera saman í fjögur ár næstum því og enn erum við ekki með sama smekkinn fyrir neinu sem við viljum hafa innan húss....það er með herkjum að við getum valið skraut á tréð en þó ekki án vandræða. Við megum sko þakka fyrir það að það hafi verið þessi húsgögn í íbúðinni sem við búum í, annars ættum við ennþá engin húsgögn og værum að rífast um sófasett!

Annars er hún Audrey mín farin aftur til síns heima, sakna hennar nú þegar! En hún ætlar að koma að heimsækja okkur í mars og við eigum útistandandi heimboð í París þegar að við viljum....eini gallinn...hún býr enn með foreldrum sínum en hún sagði okkur þó að pabbi hennar væri þrælhress og væri alltaf að leita að ástæðum til að opna kampavín sem og annað vín þannig að ekki mun væsa um okkur þegar við förum þangað vonandi einhverntímann!

Jæja, ég ætla að fara og chilla yfir Survivor...vona að Chris vinni!

Friday, December 17, 2004

Jóla hvað

Prófið gekk vel, auðvitað! Svo er annað á morgun. Það verður eflaust alltílagi með það líka. Er að vonast til að kæruleysið haldist fram til morgundagsins. Og það sér loks fyrir endann á þessu öllu saman!

Í ár verður einungis farið í eitt jólaboð! JÍHA!! Þegar ég og Arnar byrjuðum saman, þá voru þau þrjú! Það er nefninlega ákveðinn hefð í minni fjölskyldu, við fílum ekki jólaboð, allavegana ekki ég og pabbi! Tengist auðvitað vinnuálaginu sem liggur á famílíunni fram á aðfangadag. Spennufallið er síðan svo rosalegt að maður þarf bara að hafa sig allan við! Jólaboð hafa því snúist um það hversu fljótt maður getur farið heim, hvað maður þarf að sitja lengi til að maður teljist ekki ókurteis. En í fjölskyldunni hans Arnars, það er allt annað þema. Þá snýst þetta um að fá sér aðeins í glas, syngja og tralla og sá vinnur sem fer síðastur heim held ég bara. Get þó með sanni sagt að við höfum verið fyrst til að fara öll árin sem ég hef farið. En sumsé, í ár verður ekki neitt boð mín megin og hjá Arnari þetta jólaboð sem þó hefur verið fært yfir á annan í jólum!!!! Sem þýðir að kósýheitin verða sko í algleymingi á Jóladag. Ætla að fara í Yndisauka á Þorlák og kaupa allskyns gúmmulaði og svo verðum við með okkar eigið hlaðborð bara. Stefni svo á að horfa á eitthvað nýtt DVD, efast ekki um að við fáum eitthvað svoleiðis í jólagjöf og lesa svo eina góða bók, sennilega Barn að eilífu eftir Sigmund Erni sem ég hef verið að spara mér til að eiga til aflestrar einmitt á jólunum.
Aðal brandarinn á aðfangadag hjá okkur pabba var að gera grín að bróður mínum sem hefur þurft að mæta í jólaboð á hádegi á jóladag hjá fjölskyldu konu sinnar. Í kvikindisskap okkar gerðum við grín að þessu á aðfangadagskvöld þar sem hann sat ofurþreyttur eftir jólatörn og mátti sko alls ekki til þess hugsa að hann þyrfti að mæta í þetta boð...heppinn hann, boðin eru víst hætt!!!
En eitt er þó ljóst, ég er sannkallað jólabarn þó að jólaboðin séu kannski ekki metin! Mér finnst yndislegt að borða með nánustu ættingjum á aðfangadag og opna gjafir með þeim. Sérstaklega finnst mér gaman ef mér hefur tekist að velja góðar gjafir og fólk er ánægt. Mér finnst svo enn betra að fara í ný náttföt í nýumbúið rúm með nýja bók (rífa af henni plastið uppí rúmi og finna nýju bóka lyktina sem er alltaf), lesa eins lengi og augun haldast opin og falla svo í sannkallað jóladá!´

Jamms, þá vitið þið hvað ég verð að gera um jólin :)

Svo vonast ég nú til að sjá alla vini mína fyrr eða síðar yfir hátíðarnar til að styrkja vanrækt vinabönd!



Wednesday, December 15, 2004

Klikk í hausnum

Já, prófstressið getur leikið mann illa. Í hausnum á mér sönglar núna lagið sem afi í barnatímanum á Stöð 2 söng alltaf. "Góðan dag, góðan dag, glens og grín það er mitt fag, hopp og hí, trallalí, uppá nefið nú ég sný, og ef að afi gamli kannski finndi, eins og tíu teiknimyndir, viltu setja, viltu setja, viltu setja þær tækið í!" Er hann ennþá að syngja þetta lag?
Ég lá og bylti mér fram eftir nóttu og hef tekið þá ákvörðun að fara á námskeið varðandi prófkvíða hjá námsráðgjöfunum á næstu önn, þetta gengur bara ekki lengur, ég er alveg á hvolfi. Þetta er víst ættgengt, foreldrar mínir hafa báðir sagt svipaða sögu og ég hef.
En til að gleðja hjörtu vor, þá eru einungis 6 dagar eftir þar til að loftið fer algjörlega úr mér.

En vitiði, ég er samt ótrúlega ánægð með lífið og tilveruna þó að ég sé að drepast úr stressi. Ég er ánægð með það hvernig ég er búin að standa mig í vetur og að ég sé loksins búin að finna eitthvað nám sem ég kann svona vel við.

En hvað á ég að gefa sjálfri mér í jólagjöf? Er komin með ótrúlega flotta gjöf handa Arnari sem ég veit að hann á eftir að verða ótrúlega ánægður með.

Monday, December 13, 2004

Hlutir sem ég hef gert í dag til að komast hjá lærdómi:

1. Blogga
2.Lesa öll blogg sem mér duttu í hug
3. Lesa mbl.is 30 sinnum
4. Skrifa tölvupósta
5. Skreyta mandarínur með negulnöglum
6. Þrífa eldavélina mína
7. Blaðra endalaust á MSNinu
8. Horfa á einn North shore þátt (trash sjónvarpsefni frá Hawai)
9.Skrifa jólakort
10. Drekka kaffi þangað til ég svitna.

Úff

Æjá, enn að reyna að troða inn einhverjum upplýsingum í hausinn á mér...komin á kaffibolla þrjú og prófstressmagahnúturinn kominn á sinn stað...! Get samt ekki sagt að ég hafi verið nógu dugleg fyrir þetta próf, kæruleysið hefur alveg náð tökum á mér.

Fór í gær að skoða og kaupa jólagjafir, myndi segja að ég væri búin að kaupa erfiðustu gjafirnar og núna eru bara örfáar eftir. Í leiðinni sá ég hinsvegar ótalmargar gjafir sem mig langaði til að kaupa fyrir mig, vildi að ég væri ríkari því þá myndi ég alveg kaupa fullt af gjöfum handa mér. Á nú samt eftir að kaupa jólaföt svo ég fari ekki í jólaköttinn, er reyndar búin að fá mér ný náttföt ( mamma mín er svo góð að hún gaf mér þau) því að ég trúi því að maður verður að fara uppí rúm á aðfangadagskvöld í nýjum náttfötum og helst í ný rúmföt eða þá nýþvegin rúmföt. Þetta gerir uppeldið því þetta var regla þegar ég var lítil. Ég minnist þess að hafa alltaf fengið ný rúmföt og náttföt fyrir jólin og því tengi ég lyktina af hreinum rúmfötum mjög við jólin. Fyndnir þessir siðir sem maður kemur sér upp í tengslum við þennan árstíma! En jæja, best að reyna að lesa sér eitthvað meira til um þetta....og já, við Arnar erum búin að ákveða að hafa aftur áramótapartý eins og í fyrra....hvað segið þið um það?

Saturday, December 11, 2004

Bókhlaðan

Í andyrri bókhlöðunnar situr lítill rauður kisi, hann er búinn að finna sér litla rist þar sem heitt loft kemur upp og liggur þar í makindum sínum á hverjum morgni þegar ég kem hingað. Hann er ótrúlegt krútt.

Ég er búin að koma mér ágætlega fyrir á borði í á fjórðu hæð og hef verið að rifja upp ýmislegt um hin ýmsu héruð Frakklands. Einhver snillingur skildi svo símann sinn eftir (ekki á silent) og fór í mat, nema hvað að síminn hringdi stanslaust og greinileg að mismunandi hringingar voru tengdar við mismunandi fólk því að það hljómuðu um gangana fjögur mismunandi lög og þess á milli sendi hann frá sér einhver fuglahljóð (tilkynning um missed call). Þetta hefur vakið mismikla lukku meðal manna en allir snúa sér við, andvarpa eða sýna einhver viðbrögð og mér finnst þetta svo ótrúlega fyndið, það eru allir svo ótrúlega alvarlegir hérna. Ég get bara varla einbeitt mér að lærdómnum því ég er komin í það að fylgjast með fólkinu í kringum mig....ojæja!

Og svo var bara eldur í Nóatúni í JL húsinu. JPV er með lagerinn sinn staðsettan fyrir aftan JL húsið og hefur verið þar í þrjú eða fjögur ár. Svo skal það ekki bregðast að í jólavertíð brennur eitthvað í nágrenni við lagerinn okkar. Fyrstu jól JPV Útgáfu kom upp mikill eldur í Lýsishúsnæðinu sem er nánast samtengt lagernum. Það myndaðist sprengihætta og bókunum okkar var vart hugað líf. Við vorum því klukkan sex um morguninn hlaupandi eins og óðir menn með fangið fullt af bókum í hina ýmsu bíla, til að bjarga því sem bjarga yrði (þá var ekki búið að kaupa brunatryggingu og lífsviðurværi fjölskyldunnar þarna inni). Það var sprengihætta og við máttum eiginlega ekki vera á svæðinu en slökkviðliðsmennirnir sáu aumur á okkur. Við vorum búin að fylla tvo vörubíla af bókum þegar að þeir náðu tökum á eldinum og ljóst var að hann myndi ekki breiðast út. Ég ætla ekki að lýsa léttinum sem færðist yfir okkur fjölskylduna þar sem við burðuðumst með kassana aftur inn á lagerinn og fórum svo og keyptum tryggingu. Þetta var fyrsta árið og það var nú verst en hin árin hefur samt komið upp einhver svona bruni í næsta nágrenni við lagerinn. 7,9,13!

10 dagar eftir í prófum.....get ekki beðið. Þess má einnig geta að í dag eru 4 ár síðan að ég kom heim frá Frakklandi!




Friday, December 10, 2004

Hækkun skólagjalda

Jamm og já, það var samþykkt að hækka innritunargjöld okkar háskólanemanna, þrátt fyrir að skráningin fari mikið til fram á netinu og tilstandið í kringum það því stórlega minnkað. Og hvað eru þá þessi gjöld annað en dulbúin skólagjöld því það er engan veginn hægt að réttlæta þetta öðruvísi. En já, ríkisstjórn vor getur auðvitað ekki sagt það við okkur er það? Aldrei hægt að koma bara hreint fram. Hlakka til að sjá hvernig þetta skilar sér í bættri menntun og betri aðstöðu okkar háskólanema.
Ég sendi póst á alla alþingismenn og hvatti þá til að kjósa gegn frumvarpinu og mér til mikillar ánægju var sá póstur greinilega lesinn (allavegana af stjórnarandstöðunni) því mér bárust allnokkur svör frá þingmönnum sem lýstu yfir stuðningi við okkur námsmenn og sögðu "heyr heyr". Ég var glöð að fá svona svarbréf þar sem það sýnir að maður sendir þetta ekki til einskis og að einhver heyrir það sem maður segir!

Legg til að háskólanemar gleymi ekki hverjir það voru sem hækkuðu gjöldin okkar þegar að næstu ríkisstjórnarkosningum kemur og kjósi rétt!

Wednesday, December 08, 2004

Jólahjól!

Þegar ég var lítil, þá var uppáhalds jólalagið mitt "Jólahjól" með Stebba Hilm og núna því miður finnst mér engan vegin koma jól nema að heyra það allavegana einu sinni.....en ætla að bíða með það þar til nær dregur jólum.

Fór nú samt alveg í smá jólagír í dag, keypti tvær jólagjafir og var svo að taka út úr ofninum smákökusort nr 1 sem verður bökuð. Því miður erum hvorki ég né Arnar týpurnar sem borðum mikið af þessu, alltílagi að smakka eina og eina en ekki mikið meira en það. Þessvegna verður þetta allt saman sent með Arnari í fyrramálið til að gleðja JPV-ingana mína, þeim veitir ekkert af orkunni!

Í gær var mikið rætt um tilnefningarnar og í kjölfarið þá pólitík sem fylgir þessum tilnefningum sem og t.d. úthlutunum úr Menningar- og þýðingarsjóði. Ég las nefninlega frekar skemmtilega grein á www.kistan.is sem fjallar um úthlutanir úr þýðingarsjóði og t.d. undarlegheitin á bak við það að t.d. að nýja bókin eftir Dan Brown, Englar og Djöflar, fái úthlutun. Nú var það upphaflegt hlutverk þessa sjóðs, ef ég hef skilið þetta rétt, að styrkja þýðingar á erlendum fagurbókmenntum, verkum sem kannski eiga erfitt uppdráttar hér sökum smáðar þjóðarinnar, verkum sem yrðu hugsanlega aldrei metsölubækur en teldust samt meðal verka sem væri nauðsynlegt að fá þýtt á íslensku en ekki titla eftir metsöluhöfunda sem skila milljónum í kassa útgefanda...undarleg pæling! Eins er hægt að kommentera á tilnefningar, sumt fannst mér vel eiga rétt á sér, Íslendingar finnst mér vera frábær bók, Halldór Laxness er í algjörum sérflokki hvað varðar ævisagnaritun o.s.fr. en svo kemur að Arnaldi Indriðasyni og þá verð ég aðeins að staldra við. Maðurinn er meistari, það er enginn efi í mínum huga, hann kemur með hverja metsölubókina á fætur annarri. Mín spurning varðar ekki getu hans til að höfða til fjöldans, mín spurning er einfaldlega sú "Á hann heima í tilnefningum til íslenskra bókmenntaverðlauna í flokki fagurbókmennta?" Ansi hrædd um að þið verðið að svara þessu því að ég hef nú bara ekki lesið eina einustu bók eftir hann. Svo finnst mér líka alltílagi að minnast aðeins á Guðrúnu Helga sem fær nú tilnefningu fyrir barnabókina sína. Hefði það ekki átt heima eins og 20-30 árum fyrr, þessi tilnefning? Og ber að tilnefna barnabækur í flokki fagurbókmennta?

Jæja, ætla að hætta þessi röfli, varð bara aðeins að blása út.......
Ætla að fara að henda myndavélinni hans Arnars út um gluggann svo hann hætti að taka myndir af mér!

Tuesday, December 07, 2004

Eitt búið, einungis þrjú eftir

Já, þá er ég búin með fyrsta lokaprófið mitt í Háskólanum. Ég verð að segja að útlitið var svart í morgun þegar ég fór á fætur nánast ósofin. Ég veit ekki hvað það er, ég næ ekki að hafa neina stjórn á þessum kvíða og þessu stressi sem heltekur mig fyrir próf. Ég var nánast í tárum og alveg handviss um að þetta myndi allt fara á versta veg. Ég byrjaði daginn klukkan rúmlega sex en þá gat ég ekki sofið lengur og byrjaði að lesa glósurnar og fór því næst í sturtu. Svo datt mér í hug að tala við hana Siggu vinkonu mína sem er með mér í frönskunni og plataði hana með mér á Prikið til að hlýða hvor annarri yfir og fá okkur kaffi. Við komust þá að því að við kunnum nú ekki mikið, og urðum bara ansi stressaðar en fórum nú samt yfir helsta námsefnið og ég reyndi að stikla á helstu atriðunum. Viti menn, bara öll atriðin sem við fórum sérstaklega í komu á prófinu! Þannig að prófið gekk sumsé bara alltílagi og sennilega bara betur en það en ég þori ekki að gera mér neinar rosalegar vonir, bara hlakka til að sjá lokaeinkunnina úr þessu.

Aðrar gleðifréttir: Foreldrar Audrey vinkonu komu með Pastis alla leiðina frá Frakklandi til að gleða mig! Fyrir þá sem ekki þekkja til, Pastis er anis drykkur sem á rætur sínar að rekja til þess héraðs Frakklands sem ég bjó í og vakti mikla lukku hjá mér og Philippe, enda ósjaldan dottið í það með Pastis. Þetta er svo ekki fáanlegt á Íslandi og ég hef kveinkað mér mikið við alla sem nennt hafa að hlusta um þetta en svo sem enginn sýnt þessu áhuga (skrítið), nema krúttið hún Audrey sem lét foreldrana koma með flösku til að gleðja hjarta mitt þegar ég var búin í prófinu! Með í för var líka einhversskonar pottréttur í niðursuðudollu en það er undarlegur siður Frakka að taka svona pottréttarétti einhverja og setja þá í svona dollur. Þetta er eins og ef við myndum taka hangikjöt og velling og setja í niðursuðudollur. Philippe var alltaf með eitthvað sem heitir Cassoulet sem var í svona dollum. En sumsé, dollan sem ég fékk kemur frá Baskahéraði Frakklands og á að vera mjög gott.....ætla kannski að elda það í kvöld handa mér og Arnari.

Annars er ég bara ofurþreytt, nýbúin að skúra alla íbúðina og við hjónaleysin stefnum á kósý kvöld, ég fyrir framan imbann og hann fyrir framan tölvuna hugsa ég, ýtandi á "send/receive" takkann í pósthólfinu sínu (er að bíða eftir svari með HR).

Kveð að sinni

Sunday, December 05, 2004

Íslensk tónlist

Jæja, í pásu frá bókmenntunum byrjaði ég að taka saman lista yfir góð íslensk lög sem ég ætla að setja saman á einn disk fyrir frönsku vinkonurnar mínar og gefa þeim í jólagjöf. Er komin með nokkur af mínum uppáhaldslögum, m.a. Vísur Vatnsenda-Rósu og Vegbúann en er svo alveg strand. Ætla auðvitað að finna eitt lag allavegana með meisturunum í Jet Black Joe sem ég enduruppgötvaði í sumar en vantar svo fleiri hugmyndir. Hvað segir þið fólk? Hverju mælið þið með? Hvert er ykkar uppáhalds lag eða tónlistarmaður hér á Íslandi? Allar hugmyndir vel þegnar.

Var annars að lesa um ansi sniðugan rithöfund sem heitir Perec. Hann skrifaði heila bók sem heitir á frönsku "La Disparition" en markmiðið var sumsé að skrifa hana án þess að nota stafinn E sem er ótrúlega fyndið því að það útilokar t.d. alla greina le, la, les, de, des, sögnina "að vera" því hvert einasta beyginarform hennar inniheldur E nema 3.pers. flt. og hann gat ekki heldur notað "og" því það er "et" á frönsku. Helsta markmið Frakka er að lesa bókina aftur og aftur og reyna að sannfæra sig um að hann hafi getað þetta, að það sé ekki eitt "E" og enn hefur enginn fundið "E" þannig að ég ætla að giska á að honum hafi tekist það. Verð að muna að lesa þessa bók, finnst þetta ótrúlega sniðug hugmynd.

Svo langar mig að benda öllum á "Iðu" þar sem Topshop var. Nauðsynlegt að allir sem ætla á annað borð í bókabúð fari þangað. Þetta er rosalega flott bókabúð, frábært kaffihús á hæðinni fyrir ofan og svo má ekki gleyma sælkeraversluninni "Yndisauki" sem selur ótrúlegt úrval af hlutum (mæli með heimsókn þangað fyrir jólin). En svona fyrir utan það allt, ef þetta dæmi gengur ekki upp, þessi verslun, þá er sennilega útum miðbæinn, veit að það er fólk að horfa á það hvernig þessi rekstur gengur í sambandi við að opna fleiri verslanir í einhverjum af þessum locölum sem standa auð í miðbænum. Þannig að, ef þið ætlið að kaupa penna eða bók eða blað, prófið að kíkja þangað ;)

Jæja, best að kíkja yfir þetta lesefni aftur! Góðar stundir!

Saturday, December 04, 2004

Kristján Jóhannsson ásamt fleiru!

Jæja, komin í bókhlöðuna að læra franska bókmenntasögu sem er alls ekki svo slæm og efnið skýrt upp sett. Taldi mér til að þetta eru sumsé alltíallt 40 bls af efni sem er til prófs á mánudaginn, nb 40 bls með stóru letri og miklu línubili þannig að kannski 20 bls af venjulegu efni. Þessi kúrs var nefninlega helst til illa skipulagður og alltof lítill tími áætlaður í seinni hlutann sem ég er einmitt að fara í próf úr þannig að þetta urðu samtals 5 tímar.

Ég veit að ég er svolítið sein, en í gærkvöldi tókum við okkur Arnar til og horfðum á netinu (elska netið) á upptökurnar af tveimur viðtölum við Kristján Jóhannsson um þessi peningamál sem voru í umræðunni í síðustu viku. Ég verð að segja að maðurinn fór algjörlega á kostum. Ég hef sjaldan séð mann tapa sér eins mikið í beinni útsendingu eins og þennan. Þetta var ótrúlegt! Hér eru nokkrir hlutir sem hann nefndi: "Brjóstin á henni eru orðin rauð af æsingi" (talandi um þáttastjórnanda Kastljóssins) "hann er algjör satan" (talandi um Reyni Traustason blaðamann) "Þú ert sætur strákur og átt ekki að tala um svona vitleysu" (talandi um þáttastjórnanda Íslands í bítið). Hvað kom fyrir þennan mann? Þegar ég var lítil gáfu amma mín og afi út plötuna hans hjá Iðunni. Ömmu fannst hann alveg frábær og dásamaði hann svo að ég kallaði hann alltaf "kærastann hennar ömmu". Hann toppaði þetta svo alveg með því að slá þáttastjórnandann í Ísland í bítið utan undir þrisvar sinnum! (ætlaði að klappa honum en var greinilega aðeins of pirraður því maður heyrði háværa smelli).
Í kastljósinu gargaði hann eins og óður maður og talaði stanslaust þó aðrir væru að tala og veifaði á meðan eintaki af geisladiskinum sínum eins og þetta væri rétta andartakið til að minna á að hann væri með geisladisk! Já, það er óhætt að segja að fólk velur mismunandi leiðir til markaðssetningar.

En sumsé, er hér að blogga fremur en að byrja á 17.öldinni sem markast af einráðastefnu Louis 14. Best að reyna að vera fyrirmyndarnemandi!

Ísland er land þitt!

Á vafri mínu í gegnum netheima rakst ég á þessa snilld sem lýsir okkur Íslendingum finnst mér bara líka svona vel.

Þetta er sumsé tekið úr dagbók Reykvíkings sem flyst austur á land:

Tekið úr dagbók einhvers sunnlendings, gerist í kringum Egilsstaði

12. Ágúst - Fluttum til Íslands að vinna. Settumst að fyrir austan. Ég er svo spenntur. Það er svo fallegt hérna, fjöllin eru dýrleg. Ég get ekki beðið eftir að sjá hvernig þau líta út í vetur þegar það fer að snjóa.

14. Október - Ísland er fallegasta land í heimi. Laufin eru öll rauð og appelsínugul. Sáum hreindýr í dag. Þau eru svo falleg. Það er svo kyrrlátt hérna, algjör paradís. Ég ætla sko að búa hérna það sem eftir er.

11. Nóvember - Bráðum byrjar hreindýra veiðitímabilið. Ég get ekki ímyndað mér að einhver vilji drepa þessi fallegu dýr. Vona að það fari að snjóa. Ég elska þetta land.

15. Nóvember - Það snjóaði í nótt. Þegar ég vaknaði var allt hvítt. Þetta er eins og póstkort. Við fórum út og hreinsuðum snjóinn af tröppunum og mokuðum innkeyrsluna. Fórum í snjóbolta slag (ég vann). Þegar snjóruðningstækið ruddi götuna, þurftum við að moka aftur. Ég elska Ísland!

22. Nóvember - Meiri snjór í nótt. Snjóruðningstækið lék sama leikinn með innskeyrsluna okkar. Fínt að vera hérna.

15. Desember - Enn meiri snjór í nótt. Komst ekki út úr innkeyrslunni og í vinnuna. Það er fallegt hérna, en ég er orðinn ansi þreyttur á að moka snjó. Helvítis snjóruðningstæki.

22. Desember - Meira af þessu hvíta drasli féll í nótt. Ég er kominn með blöðrur í lófana og illt í bakið af öllu þessu moki. Ég held að gaurinn á snjóruðningstækinu bíði við hornið þar til ég er búinn að moka innkeyrsluna. Helvítis asninn.

24. Desember - Gleðileg Jól, eða þannig! Enn meiri anskotans snjór. Ef ég næ í helvítis fíflið sem keyrir snjóruðningstækið, þá sver ég að ég drep helvítið. Af hverju salta þeir ekki helvítis göturnar hérna meira.

18. Janúar - Meiri hvítur skítur í nótt. Búinn að vera inni í þrjá daga. Bíllinn er fastur undir heilu fjalli af snjó sem fíflið á ruðningstækinu er búinn að ýta að innkeyrslunni okkar. Veðurfræðingurinn spáði 20 cm jafnföllnum snjó næstu nótt. Veistu hvað það eru margar skóflur?

19. Janúar - Helvítis veðurfræðingurinn hafði rangt fyrir sér. Við fengum 35 cm af skít í þetta skipti. Ef það heldur svona áfram þá bráðnar þetta drasl ekki fyrr en um mitt sumar. Snjóruðningstækið festi sig í götunni og helvítis fíflið kom og spurði hvort ég gæti lánað honum skóflu. Eftir að hafa sagt honum að ég væri búinn að brjóta sex í vetur við að moka í burtu snjónum sem hann ýtti jafnóðum inn í innkeyrsluna, munaði minnstu að ég bryti eina enn á hausnum á honum.

4. Febrúar - Komst loksins út úr húsi í dag. Fór í búðina að versla og á leiðinni til baka hljóp hreindýr fyrir bílinn. Skemmdir upp á tugi þúsunda. Vildi að þessum kvikindum hefði verið útrýmt síðasta haust.

3. Maí - Fór með bílinn á verkstæði í bænum. Ótrúlegt hvað þetta ryðgar af öllu þessu saltdrasli sem þeir strá á vegina.

19. Maí - Flutti til Spánar. Skil ekki að nokkur maður með viti >skuli vilja búa á skítaskeri eins og Íslandi!

Bwahahaha!

Friday, December 03, 2004

Morgunstund gefur gull í mund

Jæja, þá er ég vöknuð! Það var nú samt ekki alveg á planinu hjá mér en í svefnrofunum datt mér í hug sérstaklega óvægin prófspurning sem ég er enn að reyna að svara í hausnum á mér. Hún fjallar um bókmenntasögu Frakklands.

Ég veit ekki alveg hvernig ég verð orðin í hausnum 21.desember en það verður án efa mjög áhugavert!

Er svo í dílemmu með það hvort ég eigi að vera að læra niðri á bókhlöðu eða ekki. Mér finnst andrúmsloftið þar alltaf svo rafmagnað og er aldrei viss um hvar ég læri betur, heima eða á bókhlöðunni. Einhverntímann var ég mjög einsett að læra þar með henni Herborgu minni en það endaði bara þannig að ég var komin með númeruð spjöld frá 1-10 og var í óðaönn að gefa myndarlegum háskóladrengjum einkannir þegar þeir löbbuðu framhjá. Mitt vandamál var aðallega það að ég var bara of meðvirk til að geta gefið lága einkunn ef mér fannst strákurinn ekki sætur!

Frönskudeildin er annars að hugleiða það að fara til Parísar eftir áramót saman.....líst ekkert illa á það! Þó að ég og Arnar séum reyndar komin með skiptisamning fyrir næsta sumar, förum fyrst á Hróaskeldu og svo til Frakklands í sumarhús! Ekki slæmt það :) Ekki það, fyrst þarf að safna peningum, það reynist frekar erfitt þegar að maður er ekki á fullum launum og ekki á námslánum.

Jæja, best að fara að gera eitthvað af viti.




Wednesday, December 01, 2004

"Próflestur"

Það er nú alveg merkilegt hvað maður getur fundið sér til dundurs þegar maður á annars að vera í próflestri, ég finn hjá mér mikla þörf til að fara og taka til í allri íbúðinni og hugsanlega taka uppá því að fara að baka mitt eigið brauð en nei, nú verður maður að vera harður við sig og þess vegna er ég hér að skrifa blogg í staðinn fyrir að læra!
Án gríns, var að hita mér gott kaffi er búin að hreina aðeins til á skrifborðinu svo ég komist fyrir með bækurnar mínar og er næstum komin í gírinn til að byrja á hljóðfræðinni.

Annars get ég sagt ykkur sem ekki hafið áhyggjur af prófum, frá því að í Háskólabíói er núna Film Noir hátíð eða frönsk sakamálamyndahátíð. Dagskrána má sjá hér: http://af.ismennt.is/ Það er verið að sýna átta myndir og ég er búin að sjá eina sem var hreint ekki slæm, en það sem mér fannst best var að fara og sjá einhverja mynd í bíó sem er ekki amerísk. Langt síðan ég hef gert það. En mæli með að fólk reyni að kíkja á hátíðina og sjá eins og eina mynd, miðinn kostar 700 kr og svo er hægt að kaupa passa á allar 8 myndirnar fyrir 2200 kr.

En núna er kominn tími á að lesa hljóðfræðina, þarf nauðsynlega að fá hátt í þessu prófi til að klára með einkunnina sem ég vil klára með í þessum kúrs.

Bon courage tout le monde!




Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?