Monday, July 18, 2005

Í sveitinni

Jæja, við erum í Skorradalnum hjá mömmu og pabba, vorum hér í nótt. Um helgina vorum við hinsvegar á Sveitahótelinu Sveinbjarnargerði, rétt utan við Akureyri í mjög góðu yfirlæti. Norðurland er ótrúlega heillandi svæð finnst mér og við fengum líka svo frábært veður þegar við vorum að keyra norður að útsýnið var frábært.

Ýmislegt var brallað á Norðurlandinu, við spiluðum krikket og ég rústaði pabba sem var mikilvægur sigur í lífsgöngunni. Svo var borðað á Akureyri þar sem Valdimar vann 500 kall af Agli fyrir það að hlaupa tröppurnar upp að kirkjunni á mettíma eða 52 sekúndum. Við spiluðum Carcassonne af miklum eldmóð en það er algjört snilldarspil sem passar einmitt vel fyrir alla fjölskylduna. Svo var verslað smá á Akureyri, rölt þar um í búðunum og ég fann brúðargjöfina mína en bíð bara eftir bónorðinu. Það er nefninlega lítil Spútnik búð á Akureyri, og þar er líka antik. Þar inni var sumsé eldgamalt stell sem kom innan úr sveitinni víst og kostaði heilar 60 þúsund krónur en var alveg gullfallegt og mig dreymir enn um það. Spurning hvort þeir taki Visa rað, skoða þetta betur þegar ég fer norður um verslunarmannahelgina. Svo var keyrt eftir öllum Eyjafirðinum og heimsótt býlið Grund en þar var ég fastagestur í fjósi þegar ég var krakki. Þar hittum við hunda og hesta sem fengu bestu máltíð ævi sinnar, roast beef, hangikjet og brauð. Svo var Safnasafnið heimsótt sem er stórglæsilegt með frábærum garði sem ég og uppáhaldsfrændinn löbbuðum þveran og endilangan með afanum. Meira Carcassonne og meiri subbumatur. Og svo enduðum við sumsé hér í Skorradalnum. Fór á videóleigu á Hyrnunni í gær og leigði þrjár heilar myndir en tvær voru óáhorfanlegar með öllu. Ein heitir Suspect Zero og var það slöpp að við kláruðum ekki hálfa mynd. Eftir það var horft á mynd með Ryan Philippe sem heitir The I Inside sem var ekki góð og skildi mann eftir frekar pirraðan. Og svo sofnaði ég yfir The Terminal sem var þó án efa sú skársta af þremur. Las Alkemistann eftir Coelho sem var algjör snilld.

Þannig að ýmsilegt hefur verið afrekað um helgina en aðallega var þetta fjölskyldutími sem er nauðsynlegur inná milli til að endurhlaða batteríin. Svo er bara brunað í bæinn í kvöld þegar við höfum gúffað í okkur lambalærinu hennar mömmu.

Comments: Post a Comment

<< Home

Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?