Monday, September 26, 2005

Klukk

Klukkunum rignir yfir bloggheima og því fór svo að ég var klukkuð. Fyrir þá sem það ekki vita þýðir það að ég eigi að skrifa hér 5 staðreyndir um sjálfa mig og get svo klukkað fimm manneskjur og svo koll af kolli. Nema hvað, hef verið klukkuð tvisvar, af Krunku og Árna og mun því tvöfalda staðreyndamagnið og læt í té 10 staðreyndir.

Hér koma því 10 staðreyndir um mig:

1. Ég er með komplexa yfir því að ég sé að verða 25 ára. Finnst eins og ég hafi ekki áorkað því sem ég ætlaði að vera búin að gera.

2. Þegar að ég var 7 ára varð ég ægilega skotin í bróður vinkonu minnar sem heitir Einar. Við lékum okkur saman í Barbie þar til ég varð orðin 13 ára, hann var Ken og ég Barbie og mér fannst það svaðalega rómantískt.

3. Þegar ég var lítil fór ég í heimsókn til Kaupmannahafnar með foreldrum mínum að heimsækja vinahjón þeirra. Ég var send að vekja manninn, sem er líka góðvinur minn, en í staðinn fyrir að vekja hann teiknaði ég allan vegginn hjá þeim meðan hann svaf líka svona vært. Þegar að hann vaknaði og ég var innt eftir þessu sagði ég að stóri bróðir minn hefði gert það. Ég heyri þessa sögu a.m.k. einu sinni í mánuði.

4. Ég lærði á píanó í 4 eða 5 ár. Fannst það hryllilega leiðinlegt, var með ömurlegan kennara og eini ljósi punkturinn á þessu öllu saman var að ég gat æft mig eldsnemma á morgnanna um helgar sem fór illa í bróður minn þá á unglingsaldri. Þverneitaði að æfa mig á öðrum tímum dags.

5. Ég þjónaði í kaþólskum messum í eitt ár. Tveir vankantar: Ekki kaþólsk og stelpa en báðir hlutir þykja tabú í kirkjunni. Föður mínum þótti mikið um og markið ekki sett lágt enda hefur hann gjarnan gert raunhæfar kröfur til mín í gegnum tíðina.* Markið var sett á að verða fyrsti kvenkyns páfinn. Hver veit pabbi minn, enn er séns!

6. Indjánanafnið mitt er Glys en Hinrik úthlutaði mér því forðum daga.

7. Ég var terroristinn í hverfinu mínu, krakkar sem þekkja mig frá þeim tíma minnast mín með ótta og gamlar konur þaðan hafa aldrei jafnað sig á vatnsblöðrunum sem skullu á þeim.

8. Börnin mín heita Gabríel Breki og Ríkharður Ljónshjarta. Þeir eru kallaðir Breki og Rikki. Breki er svarbröndóttur, lítill og nettur, óður veiðikisi og sérstakur á alla lund. Hann gengur líka undir nafninu endurskoðandinn en hefur þó verið rekinn vegna óstjórnlegs þvagláts upp um alla veggi á vinnustað sínum. Rikki er lítil ljóshærð veimiltíta. Ég hélt lengi vel að hann væri svakalega vitlaus en hann er bara einföld sál sem veit meir en hann vill vera láta. Hann hefur brennt á sér alla þófana á eldhúshellu og orðið fyrir bíl og gekk með plastkraga í nokkrar vikur eftir það. Hann hatar dýralækninn en elskar börn. Hann gekk líka undir nafninu Skúringarkonan en var einnig rekinn sökum ótímabærs þvagláts víðsvegar á vinnustaðnum. Ég á stjúpson sem heitir Randver. Hann er stjórnarformaður og hefur birst í mörgum blaðagreinum. Hann elskar melónu og bítur mann í tærnar þegar hann er svangur. Ég ræði við þessi börn mín af mikilli alvöru um hversdagslegt amstur og trúi þeim fyrir öllu því sem þið hin vitið ekki.

9. Uppáhaldsbókin mín enn þann dag í dag heitir Patrik og Rut. Ég hef sennilega lesið hana þúsund sinnum. Stundum var hún eina bókin sem tekin var með í ferðalög forðum daga og þá kláraði ég hana kannski í bílnum en fletti strax aftur á byrjunina og hóf lesturinn enn einu sinni. Patrik er rauðhærður píanósnillingur en skapbráður mjög og verður því af mörgum tækifærum í lífinu. Rut er æskuástin sem hann gerir ólétta og fjallar þessi saga um hrakfarir þeirra.

10. Uppáhaldsmaturinn minn er grjónavellingurinn hennar ömmu.

Og nú má ég klukka mína fimm. Þeir eru: Herborg, Sylvía, Pirringur, Lína og Sóley. Þekki varla 10 bloggara sem hafa ekki verið klukkaðir nú þegar þannig að fimm eru meira en nóg.

*Lesist með kaldhæðnislegum tón.

Comments:
einhverntíman gáfu Hrói og Haukur mér nú indíánanafn þegar við vorum í MK...
held það sé ekki hæft til birtingar þó :)
 
Skrambinn Sif Skrambinn
 
hæ...jæja ég er þá búin að gera þetta....ætlaði að vera með bögg og gefa skít í þetta en hætti svo við....hehehe gaman að lesa klukk ið þitt heheh
 
Góður
 
Post a Comment

<< Home

Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?