Tuesday, December 07, 2004

Eitt búið, einungis þrjú eftir

Já, þá er ég búin með fyrsta lokaprófið mitt í Háskólanum. Ég verð að segja að útlitið var svart í morgun þegar ég fór á fætur nánast ósofin. Ég veit ekki hvað það er, ég næ ekki að hafa neina stjórn á þessum kvíða og þessu stressi sem heltekur mig fyrir próf. Ég var nánast í tárum og alveg handviss um að þetta myndi allt fara á versta veg. Ég byrjaði daginn klukkan rúmlega sex en þá gat ég ekki sofið lengur og byrjaði að lesa glósurnar og fór því næst í sturtu. Svo datt mér í hug að tala við hana Siggu vinkonu mína sem er með mér í frönskunni og plataði hana með mér á Prikið til að hlýða hvor annarri yfir og fá okkur kaffi. Við komust þá að því að við kunnum nú ekki mikið, og urðum bara ansi stressaðar en fórum nú samt yfir helsta námsefnið og ég reyndi að stikla á helstu atriðunum. Viti menn, bara öll atriðin sem við fórum sérstaklega í komu á prófinu! Þannig að prófið gekk sumsé bara alltílagi og sennilega bara betur en það en ég þori ekki að gera mér neinar rosalegar vonir, bara hlakka til að sjá lokaeinkunnina úr þessu.

Aðrar gleðifréttir: Foreldrar Audrey vinkonu komu með Pastis alla leiðina frá Frakklandi til að gleða mig! Fyrir þá sem ekki þekkja til, Pastis er anis drykkur sem á rætur sínar að rekja til þess héraðs Frakklands sem ég bjó í og vakti mikla lukku hjá mér og Philippe, enda ósjaldan dottið í það með Pastis. Þetta er svo ekki fáanlegt á Íslandi og ég hef kveinkað mér mikið við alla sem nennt hafa að hlusta um þetta en svo sem enginn sýnt þessu áhuga (skrítið), nema krúttið hún Audrey sem lét foreldrana koma með flösku til að gleðja hjarta mitt þegar ég var búin í prófinu! Með í för var líka einhversskonar pottréttur í niðursuðudollu en það er undarlegur siður Frakka að taka svona pottréttarétti einhverja og setja þá í svona dollur. Þetta er eins og ef við myndum taka hangikjöt og velling og setja í niðursuðudollur. Philippe var alltaf með eitthvað sem heitir Cassoulet sem var í svona dollum. En sumsé, dollan sem ég fékk kemur frá Baskahéraði Frakklands og á að vera mjög gott.....ætla kannski að elda það í kvöld handa mér og Arnari.

Annars er ég bara ofurþreytt, nýbúin að skúra alla íbúðina og við hjónaleysin stefnum á kósý kvöld, ég fyrir framan imbann og hann fyrir framan tölvuna hugsa ég, ýtandi á "send/receive" takkann í pósthólfinu sínu (er að bíða eftir svari með HR).

Kveð að sinni

Comments:
ég væri nú alveg tíl að fá hangikjöt og uppstúf í niðursoðsdollu, mmmmmmm :)
 
Post a Comment

<< Home

Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?