Monday, June 12, 2006

Þreyttari á mánudegi en föstudegi!

Það kemur ekki oft fyrir að ég sé þreyttari á mánudegi en föstudegi en það kemur þó oftast fyrir á sumrin. Þessi helgi var tekin á stífu prógrammi en var jafnframt alveg ótrúlega skemmtileg.

Föstudagskvöldið var í faðmi Túnisfara, myndakvöld og svona smá reunion. Allir svo ánægðir og glaðir með ferðina og ekki skemmdi fyrir að ég fékk pakka frá förunum sem þakklætisvott fyrir skipulagninguna, alvöru Champagne og alles. Það var nú kannski drukkið helst til mikið, svona miðað við að dagskrá næsta dags átti að hefjast kl 10.30 og standa allan daginn.

Já mikið rétt, hún Drífa sæta er að fara að gifta sig um næstu helgi og við gæsuðum hana á laugardaginn. Ótrúlega sem mér finnst gaman að gera þá stúlku glaða, hún var eitt bros allan daginn og það var yndislegt. Við sendum hana í listflug, lunch, lúxus fótsnyrtingu, smá sprett í Kvennahlaupinu og áritun á bringuna hjá Snorra Idol, útileikjamót einhleypra og ógiftra kvenna í Öskjuhlíðinni, singstar partý og svo út að borða á Ítalíu. Héldum henni vel hífaðri allan daginn en aldrei þannig að henni liði illa. Ég skildi við hana svo í innfluttningspartý hjá Frikka og Sóley með eplasnafsflösku og stórt bros á vör og fór heim í háttinn, enda búinn að berjast við þynnkudjöfulinn allan daginn og á leiðinni að verða guðmóðir daginn eftir :)

Litla prinsessan var svo sumsé skírð í gær. Ég er guðmóðir hennar og ofsalega stolt af því hlutverki. Svo segir presturinn "hvað á barnið að heita" og eftir að foreldrarnir sættust á það hvort þeirra ætti að segja nafnið kom í ljós að litla daman heitir GUÐRÚN KLARA EGILSDÓTTIR og mamma stóð við hliðina á mér og bara táraðist alveg rosalega yfir því að vera búin að eignast nöfnu og ég klökknaði eiginlega líka en reyndi nú samt að halda andlitinu. Finnst þetta ofboðslega fallegt og yndislegt og passar vel saman Guðrún Klara en Klara er tekið úr fjölskyldu Þórhildar. Kristján Dagur verður samt örugglega svolítinn tíma að melta nafnið. Pabbi hans spurði hann hvað presturinn hefði sagt að systir hans héti og þá sagði hann "Solla Stirða". En restina af deginum skiptist hann á milli þess að segja að hún héti SIF og svo kúkalabbi. Ég kýs að setja það ekki í neitt samhengi. Hann er nú búinn að dreifa því víða að hún heiti Sif, það er tíðrætt á leikskólanum MÚHAHAHA. En sumsé, hún á nafn og svona líka fallegt nafn.

Góð helgi en vá hvað ég var lúin í gær, West Wing sunnudagur og notalegheit.

Comments:
Óskaplega fallegt nafn á nýju frænkunni. (Bið að heilsa henni)
 
Post a Comment

<< Home

Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?