Monday, July 31, 2006

Vá!

Komin heim aftur eftir algjöra snilldar helgi. Keyrðum í góðum félagsskap norður á fimmtudagskvöldið. Mættum á svæðið um tvö leytið um morguninn og ákváðum að tjalda frekar í Kjarnaskógi en annars staðar svona til að fá útilegu fíling og svona. Sáum ekki eftir því enda yndislegt tjaldsvæði. Á föstudeginum var svo heitasti dagur á Akureyri og við létum okkur ekki vanta, tékkuðum á sýningu Louisu á Listasafninu, fórum í sund, röltum um bæinn og heimsóttum Te og Kaffi nokkrum sinnum enda gott kaffi! Bautinn var heimsóttur líka að sjálfsögðu og fékk ótrúlega góðan Steinbít þar mmmm....slurp! Ekki má gleyma snillingnum Blöndal sem dró kaffivél uppúr kaffipokanum okkar handa mér og Arnari þegar við hituðum okkur kaffi á prímusnum. De Longhi kaffivél á heimilið, sjibbí!

Föstudagskvöldið var tileinkað meisturunum í Sigurrós. Undir grýttum fjöllunum í Öxnadal hlustuðum við á tónleikana þeirra sem voru algjör snilld. Sátum þarna í grasinu og þeir tóku hvert lagið á fætur öðru og spiluðu heillengi. Yndislegt. Get ekki sagt frá í orðum hvernig það er að hlusta á þessa drengi úti í náttúrunni.

Laugardagurinn var svo tekinn snemma enda skynsamt fólk á ferð. Kíktum aðeins inn á Akureyri, endurheimta sundskýluna hans Einars úr anus og svo einn caffe latte á Te og Kaffi. Svo var brunað á stað. Arnar stóð sig eins og hetja meðan við vitleysingarnir hrutum eins og svín. Kíktum inn á Sænautarsel, sem er gamalt heiðarbýli, torfbær og læti, yndislegt lummukaffi þar með kaffi og kakó og svona hressti okkur við og áfram var haldið á Egilstaði. Þegar þangað var komið var verslað grillmeti í bónus og svo kíkt á Tomma borgarann en þar fékk ég mér hreindýraborgara sem bragðast eins og Ísland eins og Einar komst að orði. Svo var keyrt inn að Borgarfirði Eystra sem er sennilega með fallegri bíltúrum ævi minnar. Svo var bara hent upp tjaldi, kaffi á Álfacafé og svo frábærir tónleikar. Emilíana var æðisleg, hún er svo mikil snillingur. Spiluðu tvö ný lög sem er ekki búið að taka upp og þau voru alveg frábært. Meiriháttar alveg. Svo komu Belle and sebastian og stemmningin var geggjuð. Brjálað stuð alveg hreint. Enduðu með tveim gömlum góðum og lýðurinn trylltist sem aldrei fyrr. Svo var haldið heim í háttinn með smá grillpásu fyrst en hátturinn var ekki mikill sökum láta og við gáfumst upp kl 06 og fórum bara heim.

Geggjuð helgi, skemmtilegur félagsskapur og brjálaðir tónleikar. Takk fyrir mig!

Comments: Post a Comment

<< Home

Click Here

This page is powered by Blogger. Isn't yours?